Blaðamannafélagið, Birtingur og Björk Eiðsdóttir hafa stigið mikilvægt skref með ákvörðun sinni um að kæra niðurstöðu Hæstaréttar í máli Ásgeirs Þórs Davíðsson gegn blaðamanni og ritstjóra Vikunnar til Mannréttindadómstóls Evrópu. Það sætir satt að segja furðu hversu óáreittur Ásgeir hefur verið miðað við þær upplýsingar sem fram hafa komið um hans starfsemi. Lögregluyfirvöld virðast máttlaus og það sama má segja um fjölmiðla, sem eiga yfir höfði sér málsókn og í framhaldinu sektir fyrir að fjalla um gjörðir Ásgeirs og félaga (það er eins gott að tala ekki um glæpi).

Fyrir nokkrum árum skrifaði ég grein um vændi á Íslandi fyrir Morgunblaðið. Í samtölum sem ég átti fékk ég upplýsingar um ýmislegt misjafnt en enginn viðmælenda þorði að tjá sig undir nafni (og þá ekki af ótta við lögsóknir). Þegar tímaritið Ísafold birti ítarlega grein og vel unna grein Ingibjargar Daggar Kjartansdóttur og Jóns Trausta Reynissonar um starfsemi Goldfinger (nektardansstaðar í eigu Ásgeirs) skrifaði ég vitneskju mína niður og hugleiddi að birta sem viðhorf í Morgunblaðinu. Mér var hins vegar ráðið frá því og ekki að ástæðulausu. Skemmst er frá því að segja að Ásgeir kærði Ingibjörgu og Jón Trausta, og vann málið.

Gengur gegn frelsi fjölmiðla

Það verður mikilvægt fyrir íslenska fjölmiðla að fá úr því skorið fyrir mannréttindadómstólnum hvort hinn þröngi rammi sem dómstólar sníða íslenskum blaðamönnum standist mannréttindasáttmála Evrópu. Og svo vitnað sé í frétt af press.is: „Mannréttindadómstóll Evrópu hefur margsinnis ítrekað í dómum sínum, að það feli í sér alvarlegt brot á tjáningarfrelsi og gangi gegn frelsi fjölmiðla að gera blaðamann ábyrgan fyrir orðum viðmælanda síns. Víðast hvar verður tjáningarfrelsi ekki takmarkað nema með ströngum undanþágum. Fleiri málaferli gegn íslenskum blaðamönnum og hærri sektardómar benda til þess að þróunin sé öfug hér á landi. Þannig  hafa  íslenskir  dómstólar  ekki  sýnt  fjölmiðlum nægan skilning í dómsmálum  þar  sem  reynir á rétt fjölmiðla til að taka við og miðla áfram upplýsingum  um  umdeild  málefni. Viðbrögð  yfirvalda  við  umfjöllun um efnahagshrunið  á  Íslandi  þar sem birtar voru leynilegar bankaupplýsingar sem var lekið í fjölmiðla, leiða einnig í ljós takmarkaðan skilning á rétti fjölmiðla  til að birta upplýsingar sem varða almannahag þótt þeim kunni að hafa verið komið í hendur fjölmiðla með ólögmætum hætti.”