Árið 1949 var samþykkt á Alþingi að Ísland yrði eitt af stofnríkjum Atlantshafsbandalagsins. Sjálfstæðisþingmenn greiddu allir atkvæði með frumvarpinu, sósíalistar voru allir á móti en Alþýðuflokkurinn og Framsókn, sem sátu ásamt Sjálfstæðisflokki að völdum, klofnuðu. Ákvörðunin leiddi til einna mestu mótmæla 20. aldarinnar og harðar ásakanir gengu manna á milli. Og hverjar urðu afleiðingarnar?

Þjóðin klofnaði í tvo hópa: Með og móti aðild að NATO. Koma bandaríska hersins til landsins bætti olíu á eld og raunar allt kalda stríðið. Stofnuð voru félög hvort með sínum málstaðnum og stjórnmálamenn þurftu flestir að gera upp við sig hvorri fylkingunni þeir vildu tilheyra.

Engin samstaða

Þetta leiddi til þess að erfitt var að ná samstöðu um nokkra utanríkispólitíska ákvörðun og hvergi á Norðurlöndum er deilt eins mikið um utanríkis- og varnarmál eins og hér á landi. Almennt reyna ríki nefnilega að móta utanríkisstefnu í sátt sem flestra. Hér á landi hefur það enn ekki tekist.

Átakastjórnmálin og skotgrafahernaðurinn sem hafa einkennt íslenska pólitík geta verið mjög dýru verði keypt. Þau leiða til þess að við stjórnarskipti eru oft gerðar dramatískar breytingar, sem hafa bæði efnahagsleg og samfélagsleg áhrif. Þessu verður að breyta. Um öll veigameiri mál á að leita allra leiða til að skapa sem víðtækasta sátt þannig að ákvarðanirnar geti orðið varanlegar. Vissulega tekur það ferli tíma, en þeim tíma er ekki sóað, jafnvel þótt ekki takist á endanum að ná samstöðu, það var a.m.k. reynt.

Reynum til þrautar að ná samstöðu

Icesave-málið er af þeirri stærðargráðu að sé ákvörðun um það tekin í pólitískri ósátt eða með naumum meirihluta hættum við á að mynda gjá sem ekki verður brúuð næstu áratugina. Icesave yrði þá viðvarandi umræðuefni og tæki tíma og orku frá öðrum mikilvægum verkefnum. Icesave er heldur ekki flokkspólitískt mál. Það er ekkert sem heitir vinstri eða hægri þegar kemur að því að tryggja hag Íslands sem best. Þess vegna á að leita allra leiða til að skapa sátt á Alþingi og meðal þjóðarinnar. Jafnvel þótt fyrri ríkisstjórnir hafi ekki beitt slíkum aðferðum. Við viljum ekki aðra NATO-ákvörðun.