Fín mæting var á ljóðakvöld Nykurs á Boston í gærkvöld. Þar lásu ljóð, auk mín, Davíð Stefánsson (stórskáld!), Sverrir Norland (sem aukinheldur lék á hljóðfæri), Sigurlín Bjarney Gísladóttir og Emil Hjörvar Petersen. Hér á eftir eru tvö ljóðanna sem ég las:

Gifting

Kirkjuklukkur

Tunglið situr á Esjunni

eins og það sé presturinn

Sápukúla hefur villst af leið

Mig langar að vera hér

uns dauðinn aðskilur

ókunnugt fólk.

Klumpurinn

Þegar hann grætur

sígur á honum brúnin

og djúp hrukka myndast milli augnanna.

Örlítið ískur

þegar jaxlarnir mæta hver öðrum

kjálkinn læsist.

Andardrátturinn verður grunnur

hraður

taktlaus

Brjóstið herpist

vöðvarnir spennast

augnlokin leggjast saman.

Broshrukkurnar snúa í öfuga átt.

Síðan koma

engin

tár.

***

Fyrst ég er byrjuð á þessu er rétt að láta tvær vísur af hagyrðingakvöldinu á Borgarfirði Eystra um verslunarmannahelgina fljóta með.

Þessi fjallað um fréttir af tvíbura sjálfs síns, þ.e. folald sem varð til úr tveimur eggjum:

Undarlegt er líf í sveit,

lifa bestu skinn.

Hýrum augum heiminn leit,

hún er bróðir sinn.

Og af því að það er alltaf auðvelt að skjóta á Framsóknarflokkinn þá fær þessi að fylgja með en henni skaut ég á Stefán Boga Sveinsson, framsóknarmann með meiru:

Flokkurinn og fylgið hrundu

föst í skrítnu mynstri.

Því að aldrei menn þar munu

muninn á hægri og vinstri.