Lengi vel hélt ég að þegar talað var um „meint brot” væri orðið „meint” til marks um alvarleika brotsins. Þessi misskilningur kom að sjálfsögðu til af þeim sökum að orðinu meint er sjaldnast skeytt fyrir framan nema þegar um kynferðisbrot er að ræða. Það var því kannski ekki svo galið að draga þá ályktun að orðið hefði eitthvað með alvarleika brotanna að gera.

En orðið „meint” vísar til þess að ekki sé víst að brotið hafi átt sér stað. Sú staðreynd að fjölmiðlar nota það aðeins þegar um kynferðisbrot er að ræða ýtir enn frekar undir þá goðsögn að þolendur kynferðisbrota – sem eru í miklum meirihluta konur – séu margfalt líklegri til að ljúga en þolendur annarra brota.

“Meint” bílvelta

Í því sambandi má benda á að aldrei er talað um „meint bílslys” þótt vel sé þekkt að menn hafi velt sínum bílum sjálfir til að fá peninga frá tryggingafélögum. Það er einfaldlega gengið út frá því að um slys eða óhöpp sé að ræða, nema annað komi í ljós. Engar rannsóknir benda til þess að fólk sé líklegra til að segja ósatt um nauðgun en um bílveltu.

Nú halda því margir fram að þetta sé ekki samanburðarhæft þar sem ónýtur bíll sé vissulega ónýtur bíll á meðan kona sem verður fyrir nauðgun geti verið áverkalaus. Vissulega eru fæstar nauðganir framkvæmdar með líkamlegu ofbeldi, enda svo miklu einfaldara fyrir ofbeldismenn að sleppa því og auka þar með líkurnar á að þeir komist í stóran hóp manna sem aldrei þurfa að svara til saka fyrir ljótan glæp. Hins vegar vita allir sem hitt hafa manneskju sem orðið hefur fyrir nauðgun að þar er ekki „áverkalaus” manneskja á ferð. Það þyrfti mjög færan leikara til að gera sér upp afleiðingar af nauðgun.

Lygi skárri en nauðgun

Ástæður þess að fjölmiðlar tönnlast á orðinu „meint” í tengslum við kynferðisbrot eru tvær. Í fyrsta lagi er um að ræða almenna afneitun samfélagsins. Það er þægilegra að vita til þess að einhver ljúgi en að einhver nauðgi og ef allar sögurnar um nauðganir eru sannar neyðumst við öll til að horfast í augu við að það er eitthvað verulega athugavert í samfélagi þar sem svona mörgum konum (og körlum) er nauðgað. Staðreyndin er nefnilega sú að nauðganir verða ekki til í tómarúmi. Það þarf ofbeldismann til að framkvæma verknaðinn. Þess vegna er betra að láta eins og um tómar sögusagnir sé að ræða. Í öðru lagi verður til almenn meðvirkni með árásarmanninum og ótti við að mögulega sé hann hafður fyrir rangri sök. Einföld leið til að koma sér út úr þeirri klemmu er að tala um „meintan árásarmann”. Orðið á nefnilega við þar, en ekki um nauðgunina sjálfa.

Fjölmiðlafólk ætti ekki að vera lengi að breyta þessu orðalagi. Það er síðan samfélagsins alls að hætta afneituninni og takast á við þá þætti sem búa til skilyrði og réttlætingu fyrir kynferðisbrotum.