Að læra ekki af mistökunum

Gljúfurleitarfoss

Gljúfurleitarfoss í Gnúpverjaafrétti

Í Helguvík standa nú yfir framkvæmdir vegna mögulegrar byggingar álvers á svæðinu. Þessar framkvæmdir eiga sér stað þrátt fyrir að ekki séu til peningar til að fjármagna byggingu álversins og þrátt fyrir að ekki sé til orka til að knýja það áfram. Auðvelt er að spá því að síðar verði sagt að orkan verði að fást þar sem framkvæmdirnar séu komnar svo langt.

Alþingi samþykkti rétt fyrir síðustu kosningar mjög svo vafasamt frumvarp sem heimilar iðnaðarráðherra að gera samning við Norðurál um að reisa og reka álver upp á 360 þúsund tonn, sem er 110 þúsund tonnum meira en umhverfismat gerir ráð fyrir. Jafnframt er opnað á skattaívilnanir fyrir álverið og allt annað en sjálfbær þróun höfð að leiðarljósi. Vinstri græn greiddu ein flokka atkvæði gegn frumvarpinu.

Í síðustu hagspá Seðlabankans er beinlínis gert ráð fyrir álversframkvæmdum í Helguvík og sérstaklega tekið fram að lögin sem Alþingi samþykkti geti auðveldað fjármögnun þar sem þar sé „tryggð hagstæð skattameðferð“. Þá er einnig gert ráð fyrir að álverið í Straumsvík verði stækkað með tíð og tíma. Og aftur: Það er ekki til orka, það er ekki til fjármagn og í Hafnarfirði hefur lýðræðislegur meirihluti hafnað stækkun álversins í Straumsvík. Er þetta sett fram í hagspá Seðlabankans til að fegra stöðuna á Íslandi eða til að knýja virkjanaframkvæmdir áfram?

Framkvæmdir á fullu

Og hverjar eru afleiðingarnar af þessu? Jú, við neðrihluta Þjórsá eru ýmis konar undirbúningsframkvæmdir fyrir virkjanir í fullum gangi, þrátt fyrir að í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sé skýrt að ekki eigi að ráðast í virkjanir þar fyrr en rammaáætlun um verndun og nýtingu auðlinda liggur fyrir. Landsvirkjun hefur farið fram með miklum látum á svæðinu og beitt ýmsum vafasömum meðulum. Fyrirtækið hefur lýst því yfir að orkuna úr þessum þremur virkjunum í Þjórsá, sem lengi hafa verið á teikniborðinu, eigi að nota í annars konar starfsemi en álver. Þá vakna spurningar um hvað í ósköpunum eigi að virkja til að knýja álversbrjálæðið áfram. Virkjanir í Þjórsá, sem mikil andstaða er við, anna varla allri eftirspurninni.

Það hlýtur að vera kominn tími á að Íslendingar hugsi til framtíðar. Álverð fer lækkandi og gjaldeyrir hefur ekki skilað sér. Íslendingar sitja með öll eggin í sömu körfu og hafa eytt óhemjufjárhæðum í að búa til störf í álverunum. Þeim peningum hefði sannarlega verið betur varið. Væri ekki nær að hugsa hlutina upp á nýtt? Eða á söngur virkjanakórsins að byggja Ísland til framíðar?

Mynd fengin af Smugunni.
Prev PostStórfrétt: Ungir jafnaðarmenn í Svíþjóð hafa skoðanir sem eru ekki þær sömu og heilbrigðisráðherra á Íslandi
Next PostNATO býður flugeldasýningu fremur en loftárásir