Hafa Norðurlöndin hag af Icesave-samningum?

icesave

afram-esb1Fréttir um tengingu milli aðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandinu og frágangs samninga um Icesave koma ekki á óvart. Svona tengingar hafa alla tíð tíðkast í milliríkjadeilum, þar sem ríki nota öll vopn sem þau mögulega komast yfir. Engu að síður sætir furðu að hollenski utanríkisráðherrann skuli fara svo djarft fram að reyna að þrýsta á Alþingi í gegnum utanríkisráðherra Íslands. Holland gefur sig út fyrir að vera lýðræðisríki og utanríkisráðherra landsins er því fyllilega ljóst að lýðræðið verður að hafa sinn gang. Lýðræði tekur tíma og lýðræði á að virða.

Í ofanálag eru Íslendingar beittir þrýstingi í gegnum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn með ljósum og óljósum hótunum um að frekari lánagreiðslur berist ekki nema að Íslendingar gangi frá samkomulagi vegna Icesave. Um þetta er að vísu kveðið á í samningi (sem er kallaður viljayfirlýsing) Íslands við sjóðinn, sem fyrri ríkisstjórn stóð að, en þar segir þó aðeins að það eigi að „efna til viðræðna á næstu dögum“ með það að markmiði að ná samkomulagi. Þar eru engin tímamörk og hvergi kemur fram að Alþingi eigi að flýta afgreiðslu málsins til að Ísland geti fengið næstu greiðslu.

Vinaþjóðir?

Á það ber að benda að meðal þeirra ríkja sem veita Íslendingum lán í gegnum AGS eru Danmörk, Svíþjóð, Noregur og Finnland, þ.e. okkar einlægustu vinaþjóðir. Vinskapurinn er þó ekki meiri en svo að hjálpin kemur ekki nema að Íslendingar láti undan þrýstingi í Icesave málinu. Hvaða hag hafa þessar þjóðir af því? Mér er spurn. Vert er að minna á að Færeyingar veita Íslandi lán óháð Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og stilla sér því ekki upp við hlið kúgaranna.

Þetta mál varpar enn skýrara ljósi á hversu afleitt er að hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið á þessum tímapunkti. Samningsstaða Íslands er mjög slök gagnvart sterkum ríkjum, sem skirrast ekki við að blanda saman óskyldum málum til að ná fram markmiðum sínum.

Prev PostPrev Post: No Title
Next PostÍ þetta sinn sá ég fjöllin ...