Heimsborgarinn er kröfuharður viðskiptavinur og á það til að vera móðgunargjarn ef hann fær ekki það sem hann telur sig borga fyrir. Fyrir vikið er Heimsborgarinn óhræddur við að kvarta á veitingastöðum og í verslunum ef hann er ósáttur. Stundum er kvörtunum Heimsborgarans vel tekið en alltof oft mætir hann fálæti og litlum áhuga á að bæta úr því sem miður fór. Heimsborgarinn varð því mjög glaður þegar honum barst tölvupóstur frá eiganda tælenska veitingastaðarins Menam á Selfossi en áður hafði Heimsborgarinn notað þennan vettvang til að tuða yfir núðlusúpu sem hann keypti á staðnum. Eiganda Menam er greinilega mjög annt um sína starfsemi og hefur nú boðið Heimsborgaranum að koma aftur og reyna matinn í von um að hann gangi ánægður út. Heimsborgarinn fékk þá líka tækifæri til að útskýra hvað honum þótti slæmt við núðlusúpuna en jafnframt til að þakka fyrir aðra góða rétti sem hann hefur bragðað á staðnum. Svona vinnubrögð þykja Heimsborgaranum til fyrirmyndar og hann hlakkar til að gefa veitingastaðnum annað tækifæri.