Miðað við allar þær fréttir sem berast af siðlausum og nánast ótrúlegum gerningum úr fjármálaheiminum ætti fátt að koma á óvart. Ég játa hins vegar að ég reitti hár mitt (og hefði reitt skegg mitt væri ég með svoleiðis) þegar fregnir bárust af því að KR-sport hefði fengið 11 milljóna króna láni breytt í styrk einni mínútu fyrir bankahrun og einni og hálfri mínútu áður en velgjörðarfyrirtækið – Samson – fór í greiðslustöðvun. Fyrir þau sem ekki vita þá er KR-sport hlutafélag sem stofnað var í kringum rekstur meistaraflokks karla og 2. flokks karla. Vel að merkja þá sér knattspyrnudeildin um rekstur meistaraflokks kvenna og karlaklúbburinn toppaði sjálfan sig þegar hann fékk nektardansmeyjar Geira á Goldfinger til að fara úr fötunum í tengslum við búningauppboð á karlakvöldi félagsins.

Satt að segja væri verðugt rannsóknarefni að kyngreina allt fjármagnið sem flæddi úr bönkunum og í furðulegustu verkefni. Einhvern veginn læðist að mér sá grunur að mest af peningunum hafi karlar lánað (les: gefið) til karla til að gera vel við karla.