moggiÞegar mér loksins var úthlutað varanlegu skrifborði á Mogganum einhvern tímann árið 2004 var mér plantað bak í bak við gamalreyndan blaðamann, Kristján Jónsson. Í hönd fóru áhugaverðir vinnudagar, enda vorum við ekki lengi að átta okkur á því hvaða málefni við værum óssammála um, og þau voru ekki fá. Við rökræddum oftast en stundum þróuðust rökræðurnar út í rifrildi og þá var gott að geta snúið baki við karlinum og tuðað ofan í lyklaborðið.

Þegar Mogginn flutti í Hádegismóa var ég ekki bara ósátt út af þeirri yfirmáta furðulegu staðsetningu heldur líka vegna þess þá var Kristján fluttur burtu frá mér og ég hafði engan til að rífast við. Að vísu erum við bæði gædd þeim kosti og galla að taka mark á góðum rökum og þess vegna færðumst við nær hvort öðru í skoðunum með tímanum, þó að ég vilji auðvitað meina að hann hafi bara færst nær mér.

Núna get ég ekki skammast í Kristjáni daglega en á það til að reita hár mitt yfir pistlum sem hann skrifar í Morgunblaðið. Yfir morgunmatnum í dag gat ég hins vegar ekki annað en tekið undir með honum. Í pistli dagsins óskar Kristján þess að við Íslendingar látum ógert að endurnýta ósiði gömlu kaldastríðshetjanna með tilheyrandi dramatískum orðaforða á borð við landsölu, þjóðníðinga og svívirðingar. Það fæst nefnilega ekkert með svona upphrópunum. Það er hálfspaugilegt að á miðopnu Moggans er líka önnur grein þar sem þess sama er óskað.

Hugmyndafræði, fremur en nauðhyggja

Staðreyndin er sú að hluti Íslendinga heldur að með mögulegri inngöngu í Evrópusambandið sé verið að gera hræðileg mistök. Annar hluti telur því hins vegar öfugt farið og að gangi Ísland ekki í Evrópusambandið versni lífsskilyrði hér til muna. Þessar skoðanir verður að virða og taka síðan lýðræðislega ákvörðun um hvernig skuli fara að. Upphrópanir og blótsyrði standa hins vegar lýðræðislegri umræðu fyrir þrifum og gera hvorugum málstaðnum gagn.
noeu_320afram-esb

Persónulega held ég að Ísland farist ekki þótt við göngum ekki í Evrópusambandið og það farist heldur ekki þó að við göngum í Evrópusambandið. Ég kýs að taka afstöðu til Evrópusambandsins út frá hugmyndafræði, ekki nauðhyggju, og satt að segja þá mælir ýmislegt með inngöngu en ansi margt á móti. Væri mér gert að greiða atkvæði í dag myndi ég segja nei en ég áskil mér allan rétt til að bíða með endanlega ákvörðun þar til samningsdrög liggja fyrir. Svo tek ég þátt í því með þjóð minni að ákveða.