Málefnalegt innlegg?

Ég veit ekki alveg hvort innlegg Einars Steingrímssonar, prófessors í stærðfræði við Háskólann í Reykjavík, í umræðuna um háskóla- og vísindastarf geti flokkast sem málefnalegt. Af grein sem hann skrifaði í Morgunblaðið á laugardag má ráða að allir sem hafi eitthvað með háskólamál að gera hér á landi séu meira eða minna algerir vitleysingar. Stjórnendur háskólanna hugsa bara um eigin hag og í menntamálaráðuneytinu er enginn starfsmaður nógu góður til að geta unnið að endurskipulagningu háskóla- og vísindastarf.

Einari þykir líka ástæða til að grafa undan ráðgjafa menntamálaráðherra, Berglindi Rós Magnúsdóttur, og tilgreinir sérstaklega að hún hafi ekki lokið doktorsnámi. Einar nefnir að sjálfsögðu ekki að hann situr sjálfur í rýnihópi, undir forystu ráðgjafans, sem menntamálaráðherra skipaði til að fara einmitt með þetta verkefni. Einar hefur því sjálfur beina aðkomu að ferlinu og þess vegna vekur óneitanlega athygli að hann skuli hvergi nefna það á meðan hann notar Morgunblaðið sem vettvang fyrir grjótkast í allar áttir. Sjálfur leggur hann það mat að Berglind hafi ekki nægilega reynslu af háskólastarfi til að vinna þetta starf en gaman væri að vita hver gæti talist nægilega hæfur að mati Einars ef stjórnendur háskólanna eru allir ómögulegir og sömuleiðis starfsfólk menntamálaráðuneytisins. Kannski hann sjálfur væri eini rétti maðurinn?

Hvað menntun ráðgjafa menntamálaráðherra varðar má benda á að þar er á ferðinni fær menntunarfræðingur sem tók sér leyfi frá doktorsnámi til að koma ráðherra til aðstoðar. Engri manneskju treysti ég betur til að leiða uppbyggingarstarf í skólamálum á faglegan og sanngjarnan hátt. Frjálshyggjukenningar þess efnis að veita eigi öllu til fárra útvaldra (meintra) snillinga og að þannig detti brauðmolarnir niður til okkar meðaljónanna hljóta að heyra sögunni til.

Prev PostSjálfstæð skoðun eða Sjálfstæðisflokksskoðun
Next PostGóðar ábendingar í Mogganum