Hún er áhugaverð umræðan sem hefur spunnist um þá ákvörðun Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, varaformanns Sjálfstæðisflokksins, að sitja hjá við atkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við Evrópusambandið. Einn þingmaður Sjálfstæðisflokks greiddi atkvæði með tillögu ríkisstjórnarinnar en allir aðrir á móti.

Auðvitað er brotið blað í sögu Sjálfstæðisflokksins, þar sem enginn má hafa sjálfstæða skoðun, þegar formaður og varaformaður greiða ekki atkvæði nákvæmlega eins. Það er hins vegar ekki brotið blað þegar þingmaður greiðir atkvæði öðruvísi en flokkssystkini hans, enda hefur Pétur H. Blöndal iðulega staðið með sinni sannfæringu í þinginu, þvert gegn vilja annarra þingmanna og flokksforystunnar.

Valdabaráttan opinberast

Strax daginn eftir atkvæðagreiðsluna um Evrópusambandið mátti líta fréttaskýringu eftir Agnesi Bragadóttur í Morgunblaðinu þar sem niðurstaðan var sú að pólitísk staða Þorgerðar hefði veikst eftir atkvæðagreiðsluna og þingmenn Sjálfstæðisflokks voru sagðir reiðir í garð varaformannsins. Í framhaldinu birtist Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, í sjónvarpinu og sagði óheppilegt að ekki væri einhugur í forystu flokksins um málið. Einhvern veginn þarf ekki mikla samsæriskenningaáráttu til þess að einhverjar bjöllur fari að hringja. Þótt Bjarni segi stöðu Þorgerðar ekki hafa veikst og að fullt traust ríki milli þeirra þá grefur hann um leið undan henni með því að segja málið „óheppilegt”.

Á laugardag komu Staksteinar Morgunblaðsins Þorgerði til varnar. Skrif Agnesar voru vissulega fréttaskrif og Staksteinar eru leiðaraefni en það breytir ekki því að þarna opinberast valdabaráttan í Sjálfstæðisflokknum á síðum Morgunblaðsins. Agnes tilheyrir gömlu Davíðsklíkunni og er í góðu sambandi við karlana sem há mikla baráttu gegn Evrópusambandinu. Hennar fólk tók við völdum í flokknum eftir að Geir H. Haarde hrökklaðist frá völdum. Ritstjóri Morgunblaðsins, Ólafur Stephensen, tilheyrir hins vegar annarri klíku. Hann horfir vonaraugum til Evrópusambandsins og tekur þess vegna upp hanskann fyrir Þorgerði Katrínu þegar hún er jákvæð í garð ESB.

Miðað við umræðuna á síðum Morgunblaðsins hefði mátt halda að háværar raddir kölluðust. Ekki hef ég orðið vör við mikla umræðu í netheimum eða yfirleitt meðal fólks, þó að vissulega gæti eitthvað hafa farið framhjá mér. Einhvern veginn virðist gagnrýnin á Þorgerði Katrínu ekki koma frá grasrót flokksins heldur einmitt frá forystu hans, eða öllu heldur hinum hluta forystu hans. Tilgangurinn með því á síðan eflaust eftir að koma í ljós.

Hvað veldur því að pólitísk staða veikist?

Annars er það ekki síður merkilegt að það sé ekki fyrr en nú að talað sé um veika stöðu Þorgerðar Katrínar. Það var ekki eftir að hún var ráðherra í ríkisstjórn meðan allt var keyrt í kaf. Og það var ekki vegna þess að hún var varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sem keyrði áfram hugmyndafræðina sem olli hruninu. Og það er heldur ekki vegna þess að maðurinn hennar tók fullan þátt í glaumnum og glæfraskapnum. Nei, það var vegna þess að Þorgerður Katrín gerði tilraun til að fylgja sinni sannfæringu í atkvæðagreiðslu um Evrópusambandinu. Flottur flokkur þessi Sjálfstæðisflokkur.