Þau eru misfalleg orðin sem falla um þingmenn nú eftir að atkvæðagreiðsla um aðildarumsókn að Evrópusambandinu hefur farið fram. Sumir hrósa happi og líta svo á að nú komist Ísland í öruggt skjól á meðan aðrir telja þetta hin mestu mistök. Gott og vel. En þótt það sé klisjukennt þá leyfi ég mér samt að minna á aðgát skal höfð í nærveru sálar. Það er engin ástæða til að fara ljótum orðum um einstaklinga, hvort sem sannfæring þeirra er sú að greiða eigi einu sinni þjóðaratkvæði um Evrópusambandið, tvisvar eða aldrei.

Köstum vondum hefðum

Ég er stolt af þingmönnum Vinstri grænna, sem leyfðu sér að hafa hvert sína skoðun á þessu umdeilda mál. Kjósendur Vinstri grænna hafa líka mismunandi skoðun og enginn þingmaður gekk með atkvæði sínu í dag gegn stefnu flokksins eða landsfundarályktunum.

Málinu er langt frá því að vera lokið. Nú hefst mikil umræða og barátta fylkinga á milli. Það er mín einlæga ósk að sú barátta fari fram á heiðarlegan hátt og af virðingu fyrir ólíkum skoðunum. Við skulum rjúfa þá hefð að Íslendingar þurfi alltaf að vera í tveimur hatrömmum fylkingum í utanríkismálum.

Lýðræðisást?

Annars gat ég ekki að því gert að finnast undarlegt að hlusta á málflutning sjálfstæðismanna um lýðræði og þjóðaratkvæðagreiðslur í þinginu í dag. Vissulega fagna ég þessari miklu og skyndilegu lýðræðisást en það hefði verið gott að sjá örla á henni örlítið fyrr. Sjálfstæðismenn hafa nefnilega staðið mjög svo í vegi fyrir tilraunum til að koma á einhvers konar beinu lýðræði og þá oft með þeim rökum að það veiki þingið. Eina skiptið sem vísa átti máli til þjóðaratkvæðagreiðslu (fjölmiðlalögunum) þá kom Davíð Oddsson í veg fyrir það. Hver veit nema þau hefðu verið samþykkt…

Sjálfstæðismenn voru heldur ekki mjög áfram um að breyta stjórnarskrá fyrir kosningar þannig að hægt væri að opna á þjóðaratkvæðagreiðslur eftir kosningar.

En batnandi mönnum er víst best að lifa.