Í Morgunblaðinu í dag kemur fram að mörgum framsóknarmönnum sé heitt í hamsi vegna afstöðu Guðmundar Steingrímssonar í Evrópusambandsmálinu en hann hyggst greiða atkvæði með tillögu ríkisstjórnarinnar um að gengið verði til aðildarviðræðna við bandalagið. Framsóknarflokkurinn hefur farið nokkra hringi í þessu máli, eins og stundum vill verða í þeim ágæta flokki. Hvað sem því líður þá virðist afstaða Guðmundar og Sivjar Friðleifsdóttur vera mun meira í takti við niðurstöðu flokksþings Framsóknar en afstaða annarra þingmanna flokksins, sem ætla sér að greiða atkvæði með tillögu Sjálfstæðisflokks um tvöfalda atkvæðagreiðslu.

Vilji flokksþings Framsóknar var skýr

Það vill svo til að ég sat flokksþing Framsóknar í janúar sl. sem blaðamaður Morgunblaðsins. Hvað sem segja má um Framsóknarflokkinn þá verður að viðurkennast að þar á bæ kunna menn að halda landsfundi. Allt gekk smurt fyrir sig og satt að segja fannst mér til fyrirmyndar að tekinn var frá langur tími til að ræða Evrópumálin en eins og í mörgum flokkum eru mjög skiptar skoðanir í þeim efnum innan Framsóknar. Eftir langa umræðu voru greidd atkvæði um ályktun sem lá fyrir fundinum og hún var samþykkt. Í ályktuninni er skýrt að sækja eigi um aðild að Evrópusambandinu með umboði frá Alþingi. Hvergi er minnst á tvöfalda atkvæðagreiðslu.

Hins vegar setti Framsóknarflokkurinn líka mörg skilyrði fyrir mögulegri aðild og breytingartillaga sem Vigdís Hauksdóttir hefur lagt fram tekur mið af þeim, að undanskildu skilyrði um að Íslendingar eigi sökum fámennis að hafa “varanlegan rétt til að setja lög um forgangsrétt manna með lögheimili og fasta búsetu á Íslandi til að eiga ráðandi hlut í jarðeignum, lóðum, fasteignum og atvinnufyrirtækjum”.

Tvöfalda leiðin var lítið rædd

Ég minnist þess ekki að í löngum og fræðandi umræðum á flokksþingi Framsóknar hafi nokkur þeirra þingmanna, sem nú vilja greiða atkvæði með Sjálfstæðismönnum, komið í pontu og lagt til að fremur yrði farin leið tvöfaldrar atkvæðagreiðslu. Misminni mig þá skal ég gjarnan leiðrétta það.

Sjálfstæðisflokkurinn samþykkti hins vegar tvöföldu atkvæðagreiðsluleiðina á sínum landsfundi og stendur fast við þá afstöðu. Landsfundur Vinstri grænna tók ekki afstöðu til þess hvort leiða ætti málið til lykta í einni eða tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum heldur var einungis lögð á það þung áhersla að þjóðin hefði úrslitavald. Þess vegna kemur ekki á óvart að þingmenn VG greiði sumir atkvæði með tvöföldu leiðinni en aðrir með tillögu ríkisstjórnarinnar um þjóðaratkvæðagreiðslu á grundvelli fyrirliggjandi samnings, þegar þar að kemur.

Staðreyndin er sú að innan allra flokka nema Samfylkingarinnar eru skiptar skoðanir um aðild að Evrópusambandinu. Það á að virða.

Persónulega tel ég að það skipti ekki höfuðmáli hvort haldin verði ein eða tvær atkvæðagreiðslur. Hins vegar er þetta mál þannig að kominn er tími til að leiða það til lykta á lýðræðislegan hátt. Fyrsta skrefið á þeirri vegferð verður stigið þegar þingmenn ganga til atkvæða á Alþingi í dag.