Nafnbirtingar dæmdra glæpamanna hafa löngum vafist fyrir blaðamönnum og yfirmönnum fjölmiðla, bæði vegna þess að við búum í litlu samfélagi og vegna almennrar meðvirkni með þeim sem hafa framið glæpi. Þess vegna er mjög áhugavert að fylgjast með því hvaða nöfn eru birt og hvaða nöfn eru ekki birt.

Nöfn fíkniefnaafbrotamanna og ofbeldismanna í almannarýminu hafa oft verið birt án nokkurrar umhugsunar. Þegar kemur að annars konar glæpum hafa menn hins vegar stigið varlegar til jarðar og þá allra varlegast í kynferðisbrotamálum.

Þegar ég byrjaði sem blaðamaður á Morgunblaðinu spurðist ég fyrir um hvort einhver þumalputtaregla væri til um hvaða nöfn væru birt og hvaða nöfn ekki. Svarið var að almennt væru ekki birt nöfn dæmdra glæpamanna nema að um væri að ræða 2 ára eða lengri dóm. Mig rámar í að RÚV hafi stuðst við ámóta reglu. Þetta þýddi auðvitað að dæmdir kynferðisbrotamenn þurftu sjaldnast að óttast um að sjá nöfn sín í blaðinu, enda þungir dómar ekki vanalegir í þeim málaflokki.

Dómstólar birta ekki nöfn

Síðustu vikur hafa fallið dómar sem fela í sé lengri fangelsisvist en tvö ár og nokkur nöfn kynferðisbrotamanna hafa verið birt í fjölmiðlum. Það vakti hins vegar athygli þegar maðurinn sem dæmdur var í átta ára fangelsi nýverið fyrir hrottalegt líkamlegt, andleg og kynferðislegt ofbeldi, var með öllu nafnlaus í fjölmiðlum.

Í þessu samhengi má benda á að fjölmiðlafólk, þvert á það sem margir halda, er ekki einrátt í þessum efnum því að í dómum eru nöfn ofbeldismanna ekki birt ef ætla má að fórnarlambið geti hlotið af því miska. Með vísan til þessa hafa nöfn ekki verið birt í sifjaspellismálum eða í tilvikum þar sem ofbeldi fer fram innan veggja heimilisins.

Fyrir þessari reglu má færa góð rök en mótrökin eru einnig sterk.

Hugmyndin að baki því að birta ekki nöfn allra ofbeldismanna byggir raunar á hinni óþolandi lífsseigu goðsögn að þolandinn beri sjálfur einhverja sök á ofbeldinu og að skömmin eigi heima hjá honum, ekki ofbeldismanninum.

Vissulega er vert að velta því upp hvort komi á undan: Að fjallað sé eins um alla brotamenn eða að samfélagið losi sig endanlega við þá heimskulegu innrætingu að konur geti sjálfum sér um kennt ef þær verða fyrir ofbeldi. Ég hallast að því að hið fyrrnefnda sé ein af forsendum þess síðarnefnda. Staðreyndin er nefnilega sú að með því að birta ekki nöfn ofbeldismanna sem eru nánir fórnarlömbum sínum er verið að vernda stóran hluta þeirra sem beita ofbeldi. Þess í stað eru aðeins birt nöfn þeirra sem beita ofbeldi á götum úti og þannig var það mjög áberandi að þremur dögum eftir að hrottaofbeldismaðurinn var dæmdur birtist frétt um nafngreindan mann sem hafði framið strætisnaugðun. Sá síðarnefndi bar einnig erlent nafn og það getur ýtt undir fordóma eða ósannar staðhæfingar um að einungis útlendingar nauðgi.

Annað sem gerist er að sögur geta komist á kreik um hver viðkomandi nauðgari er. Þannig fór ég inn á Ölstofuna sl. laugardagskvöld og var bent á að hrottanauðgarinn stæði hinum megin við barinn. Ég fékk strax óbeit á manninum, án þess þó að geta á nokkurn hátt fengið staðfestingu á því að þarna væri réttur maður á ferð.

Að því gefnu að um réttan mann hafi verið að ræða þá hlýtur það líka að vekja upp spurningar hvernig maður sem er nýbúinn að fá fangelsisdóm fyrir hræðilegt ofbeldi, og er stórhættulegur samfélaginu, getur staðið hress á Ölstofunni og drukkið bjór. Eins og ekkert hafi í skorist.

Jafnræðisregla?

Dómstólar eru vissulega alltaf íhaldssamir og sjaldnast róttækir. En frá hreinu realísku og lagalegu sjónarhorni eru varla sterk rök fyrir því að birta nöfn sumra brotamanna en annarra ekki.

Öll samúð er hjá þeim sem verða fyrir ofbeldi og þá ekki síst svo grófu ofbeldi sem kynferðislegt ofbeldi er. Þrátt fyrir það þá virðast rökin gegn nafnbirtingu mun veikari en rökin með henni. Tilgangurinn er alls ekki sá að kalla fram múgsefjun gegn þeim sem ofbeldinu beita. Þvert á móti þá er ein af forsendum þess að uppræta kynferðisofbeldi sú að við gerum okkur grein fyrir því hversu algengt það er og að gerendurnir eru oft “venjulegustu menn”. Það er enginn einn samfélagsflokkur manna sem beitir svona ofbeldi. Þeir eru ekki allir alkar, útlendingar, geðsjúklingar eða ómenntamenn, eins og margir vildu óska, enda væri mjög þægilegt ef það væri bara ein gerð ofbeldismanna og við gætum öll reynt að forðast þá.

Það er kominn tími til að ofbeldi innan veggja heimilisins sé litið jafnalvarlegum augum og ofbeldi á götum úti. Staðreyndin er nefnilega sú að fyrrnefndu brotin snúast ekki aðeins um ofbeldið sjálft heldur líka brot á trausti og á friðhelgi heimilisins. Það á enginn leyndarhjúpur að hvíla yfir þeim.