Umræða um Evrópusambandið heldur áfram á Alþingi og nú þegar kl. er hálfsjö á mánudagskvöldi eru 22 þingmenn á mælendaskrá. Ætla mætti að þá væri líf og fjör í sölum þingsins. Af reynslu minni sem þingfréttaritari að dæma er sambandið milli mælendaskrár og fjölda þingmanna í þingsölum hins vegar öfugt, þ.e. því fleiri sem tala þeim færri eru í þingsal. Það vekur upp spurningar um til hvers er talað; stundum til að koma sjónarmiðum á framfæri, stundum til að láta málið taka lengri tíma.

Það olli mér ákveðnum vonbrigðum að ekki skyldi hafa tekist að sameina ESB-tillögur stjórnar og stjórnarandstöðu í utanríkismálanefnd. Þykist ég viss um að Árni Þór Sigurðsson, formaður nefndarinnar, hafi reynt sitt ýtrasta til að ná sátt og hefði verið til fyrirmyndar ef stríðandi fylkingar hefðu viljað teygja sig lengra í sáttaátt. Of oft hafa verið teknar afdrifaríkar utanríkispólitískar ákvarðanir hér á landi án þess að um þær ríki sátt. Má þarf nefna aðild að NATO, komu bandaríska hersins og stuðning við Íraksstríðið.

Engu að síður skiptir það ekki höfuðmáli hvort fram fer ein eða tvær þjóðaratkvæðagreiðslur. Tvær atkvæðagreiðslur hefðu skapað meiri sátt – sem hefði verið gott – en kostir þeirrar leiðar og gallar eru raktir í góðu Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins sl. sunnudag.

Höfuðatriðið er hins vegar að samningurinn verður borinn undir þjóðina og hún hefur því síðasta orðið. Með því móti er lýðræðisleg ákvörðun tryggð og þar með meiri sátt um niðurstöðuna, á hvorn veginn sem hún verður.