„Við ætlum að fara að bjóða upp á flókna fjármálalega gjörninga og fjármálalegar vörur fyrir stofnanafjárfestingar, fyrir viðskiptabankanna og fyrir ja, stóra fjárfesta.”

Svona komst þáverandi bankastjórinn og núverandi þingmaðurinn Tryggvi Þór Herbertsson að orði í viðtalið við RÚV síðla árs 2006 þegar fjárfestingabankinn Askar Capital var að fæðast.

Fréttamaðurinn, María Sigrún Hilmarsdóttir, fylgdi spurningunni eftir og bað Tryggva Þór um að nefna dæmi. Þá svaraði hann:

„Ja, við gætum til dæmis nefnt einhverjar afleiður sem eru tengdar fasteignum í öðrum löndum eða, já til dæmis.”

Þarna hafa áhorfendur sjónvarpsfrétta örugglega verið öllu nær um hlutverk Aska!

Þá kom fram að bankinn myndi fyrst og fremst þjónusta stofnanafjárfesta og Tryggvi Þór hélt áfram að útskýra:

„Eins og lífeyrissjóðir, bankar, stórir fjárfestar og annað slíkt. Menn sáu fram á það að það var þarna markaðseyða. Þarna var, þetta hefur verið þó nokkuð mikið um að erlendir aðilar hafa verið að bjóða upp á þessar vörur á, á markaðnum, fjármálamarkaði hér á Íslandi. Og einfaldlega við sáum fram á að þarna væri ónýtt tækifæri sem að við ætluðum, og við ætlum sem sagt að reyna að fylla í það gat. Við erum sem sagt ekki að fara í samkeppni við viðskiptabankana þannig að við munum verða í góðu samstarfi við þá alla.”

Þetta fréttaviðtal frá árinu 2006 er lýsandi fyrir “íslenska efnahagsundrið”. Búnar voru til “vörur” með flóknum nöfnum sem byggðu ekki á neinum verðmætum og látið var sem að þeir sem ekki skildu ruglið væru illa að sér.

Annars er gaman að geta þess að orðið gjörningur getur m.a. merkt galdrar. Kannski var það merkingin sem Tryggvi Þór vísaði til. Þeir ætluðu að selja fjármálagaldra.