Birtist í Morgunblaðinu 24. júní 2009

„Ómerkilegur popúlismi” og „lýðskrum”. Þessi orð notaði Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, á Alþingi 18. júní sl. Umræðuefnið var frumvarp fjármálaráðherra sem miðar að því að lækka greiðslur til hálaunaðra ríkisstarfsmanna þannig að enginn sé tekjuhærri en forsætisráðherra. Eflaust hafa margar ríkisstjórnir verið sakaðar um lýðskrum fyrir verri sakir. Viðbrögð Tryggva Þórs og fleiri sjálfstæðismanna þurfa þó ekki endilega að koma á óvart, þrátt fyrir að einmitt þessir sömu menn skammist út í ríkisstjórnina fyrir að skera ekki nóg niður. Þarna opinberast nefnilega forgangsröðun Sjálfstæðisflokksins: Það á að skera niður, en ekki hjá þeim sem best hafa kjörin.

Tvöföld laun með ohf.

Frumvarpið sem um ræðir tekur m.a. til opinberra hlutafélaga (ohf.) en þau hafa verið í miklu uppáhaldi hjá sjálfstæðismönnum. Opinber hlutafélög eru að verulegu eða öllu leyti rekin fyrir opinbert fé en hafa hins vegar miklu frjálsari hendur fjárhagslega en aðrar ríkisstofnanir. Þannig hefur hvorki fjármálaráðuneytið né fjárlaganefnd Alþingis aðgang að bókhaldi opinberu hlutafélaganna og þar með ekki að upplýsingum um launakjör. Stjórnir opinberu hlutafélaganna ákveða laun sinna forstöðumanna og með einfaldri breytingu á rekstri Ríkisútvarpsins yfir í opinbert hlutafélag árið 2007 var hægt að hækka laun útvarpsstjóra úr 800 þúsundum krónum upp í 1.500 þúsund krónur á einu bretti. Fyrir þennan launamun hefði kannski mátt ráða tvo fréttamenn  eða þáttagerðarmenn til starfa.

Með frumvarpi fjármálaráðherra verður girt fyrir hálaunasamninga, jafnt við útvarpsstjóra sem aðra forstöðumenn stofnana og fyrirtækja sem eru alfarið eða að meirihluta í eigu ríkisins. Má þar nefna Seðlabankann, Fjármálaeftirlitið, Flugstoðir, Landsvirkjun, Neyðarlínuna, Orkubú Vestfjarða, Íbúðalánasjóð og Keflavíkurflugvöll. Þarna er sannarlega ekki verið að ráðast gegn kjarasamningsbundnum launum heldur greiðslum sem koma að mestu úr ríkissjóði, en ríkið sjálft hefur ekkert taumhald á.

40 milljónir, lág fjárhæð?

Rök sjálfstæðismanna fyrir að verja hálaunakerfið eru m.a. þau að ekki fáist hæft fólk til starfa nema að launin séu svona afgerandi há. Þessu halda þeir enn fram og Tryggvi Þór notaði tíma sinn í pontu á Alþingi til að syngja aftur sönginn um hversu hræðilega illa launaðir Alþingismenn eru. Þess vegna væri ekki meira atgervi í sölum Alþingis en raun bæri vitni. Með þessu talar Tryggvi ekki aðeins félaga sína á þingi niður heldur líka sjálfan sig. Hvaða fólk, sem krefst hærri launa en þrefaldra verkamannalauna, er það sem Tryggvi vill fá á þing? Kannski hálaunastéttina sem keyrði allt í þrot?

Önnur gagnrýni sem heyrðist á frumvarp fjármálaráðherra var að með því sparaðist svo lág fjárhæð að það tæki því varla. Fjárhæðin er að minnsta kosti 40 milljónir og mætti satt að segja nýta þá fjármuni til margra góðra verka, til að mynda innan heilbrigðiskerfisins. Þessi upphæð tekur þó aðeins til A og B-hluta ríkissjóðs en opinberu hlutafélögin heyra undir E-hluta. Um launakjör forstöðumanna þeirra er ekkert vitað og þess vegna liggur ekki fyrir hversu mikill sparnaður næðist þar.

Tuttuguföld laun

Stjórnmál snúast um forgangsröðun og á þessum tímum reynir meira á hana en nokkru sinni fyrr. Einstaklingsdýrkun var ríkur þáttur í hugmyndafræði hrunsins hér á landi. Hún birtist m.a. í því að topparnir í tekjustiganum, oftast karlar, áttu ekki að hafa tvöföld eða þreföld laun manneskjunnar á gólfinu heldur tíföld, tuttuguföld eða þrjátíuföld. Þetta var rökstutt með því að karlarnir væru svo einstaklega  hæfir og sköpuðu svo mikil verðmæti með vinnudegi sínum. Hæfileikarnir dugðu þó ekki betur en svo að þjóðin situr eftir með kerfishrun og þunga skuldabagga, sem þessir hálaunuðu afburðamenn skildu eftir sig.

Frumvarp fjármálaráðherra er í senn niðurskurðaraðgerð vegna stöðunnar í ríkisfjármálum og réttlætismál. Breytingin sýnir að við völd situr ekki ríkisstjórn auðmanna, heldur ríkisstjórn jöfnuðar. Ríkisstjórn sem vill jafna kjör í landinu og reyna að hlífa þeim sem minnst bera úr býtum, ekki þeim sem mest bera úr býtum.

Ísland verður ekki byggt upp með sömu verkfærum og það var rifið niður. Það væri ágætt að Sjálfstæðisflokkurinn áttaði sig á því.