Nú hefur loks verið tekin ákvörðun um að leggja niður Varnarmálastofnun en hún hefur aðeins starfað í rúmt ár. Málið var hið vandræðalegasta frá upphafi. Stofnuninni var komið á laggirnar í tíð Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks með umdeilanlegu varnarmálafrumvarpi. Takmörkuð pólitísk sannfæring var fyrir frumvarpinu en engu að síður var það samþykkt með öllum greiddum atkvæðum stjórnarliða. Þá þegar hafði verið áætlað fjármagn á fjárlögum til stofnunarinnar. Innan stjórnsýslunnar voru mjög skiptar skoðanir um þá tilhögun að koma á sérstakri stofnun utan um þau verkefni sem Ísland þurfti að hafa með höndum eftir að bandaríski herinn fór af landi brott. Margir töldu að hægt væri að sinna verkefnunum innan undirstofnana dómsmálaráðuneytisins og samgönguráðuneytisins fyrir 4-500 milljónum króna lægri fjárhæð en ætluð var Varnarmálastofnun. Hefði þetta frumvarp komið fram ári síðar hefði það aldrei verið samþykkt, enda geta menn ekki leyft sér svona bruðl nema í góðæri og þeim doða sem einkenndi pólitískt andrúmsloft fyrir hrun.

Í aðdraganda stofnunar Varnarmálastofnunar voru hafðar uppi ýmsar rangfærslur, sem ég rek í úttekt sem ég skrifaði fyrir Morgunblaðið í janúar sl. T.a.m. var því haldið fram að koma þyrfti starfseminni inn í sérstaka stofnun til að uppfylla kröfur NATO. Ellisif Tinna Víðisdóttir, forstjóri Varnarmálastofnunar, leikur á þessa strengi í viðtali við Fréttablaðið í dag. Þó að sjálfsagt sé að Tinna verji stofnunina orkar mjög tvímælis að halda þessu til streitu. Hún gengur líka enn lengra og heldur því fram að ratsjárkerfið sé eign NATO og að NATO gæti tekið upp á því að færa það til ef Íslendingar nýttu það ekki. Bandaríski herinn setti ratsjárkerfið upp og vildi ekkert með það hafa þegar hann yfirgaf landið. NATO, sem slíkt, á engar eignir þó að mannvirkjasjóður bandalagsins styrki uppbyggingu varnarmannvirkja. Þannig styrkti sjóðurinn viðhald á flugbrautinni í Keflavík og með sömu rökum gæti Tinna haldið því fram að flugbrautin (eða auka slitlagið á smá kafla) yrði fjarlægð ef ekki fljúga þar um herþotur.

Varnarmálastofnun verður minning um stjórnmálin fyrir hrun – þegar þingmenn samþykktu lög sem þeir höfðu ríkar efasemdir um.