Klerkastjórnin í Íran stendur frammi fyrir meiri erfiðleikum en hún hefur nokkru sinni gert í allri sinni valdatíð. Mótmæli halda áfram, þrátt fyrir tilraunir til að brjóta þau á bak aftur með ofbeldi og hótunum um ofbeldi. Önnur vídd verður síðan hvernig herinn og lögreglan bregðast við ástandinu en vegna herskyldunnar eru margir ungir menn í hernum sem eru langt frá því að hafa sannfæringu fyrir mögulegum aðgerðum gegn meðborgurum sínum. Hins vegar er yfirmaður hersins tilnefndur af sjálfum æðsta klerknum og klerkastjórnin hefur því völdin í sinni hendi, enn sem komið er a.m.k.

Enn eiga eftir að koma fram upplýsingar um hvernig var staðið að kosningasvindlinu, sem nú virðist orðið nokkuð augljóst að hafi átt sér stað. Ahmadinejad sjálfur er vitanlega í sterkri stöðu og hefur raðað sínu fólki í ýmsar valdastöður. Hins vegar er frekar erfitt að hugsa sér að honum hafi tekist að standa að umfangsmiklu kosningasvindli án þess að klerkastjórnin hafi átt einhvern hlut að máli. Á móti kemur að það væri stílbrot af klerkastjórninni að láta hanka sig á svona svindli – enda eru klerkarnir æðsti handhafi valdsins, alveg burtséð frá því hver er forseti. Þetta virðist því vera óþarfa áhætta, ef orða mætti það svo, og klerkarnir hafa almennt verið klókir í að halda sínum völdum.

Nýr píslarvottur?

Dauði Nedu, 27 ára gamallar konu sem tók þátt í mótmælunum, setur klerkana í enn meiri vanda, ekki síst vegna athyglinnar sem hann hefur vakið. Hugmyndin um píslarvottinn sem deyr í baráttu við hið illa veraldlega vald er djúpt gróin í íranska þjóðarsál og getur móbíliserað fleiri en nokkurn órir fyrir. Klerkarnir nýtu sér píslarvættið mjög í byltingunni 1978-1979 og umbótasinnarnir í Íran gætu gert slíkt hið sama, með góðum árangri.

Riði klerkaveldið til falls stendur Íran frammi fyrir miklum áskorunum. Hvaða afl getur sameinað þessa sundruðu þjóð? Á ríkisvaldið að vera trúarlegt eða veraldlegt? Verður klerkastéttin (sem er margfalt stærri en klerkastjórnin) aftur að andstöðuafli í írönskum stjórnmálum? Hvernig er hægt að koma á lýðræði meðal fólks sem þekkir ekkert annað en einræði og harðstjórn?

Í fjarlægðinni er lítið annað hægt að gera en að krossleggja fingur og vona það besta.