Til framtíðar með sjálfbærri þróun

svandis-svavarsdottirguc3b0laugur-c3beor1

„Við þekkjum það að umhverfisráðherar hafa komið í veg fyrir atvinnu og störf …“. Einhvern veginn svona komst Guðlaugur Þór Þórðarson að orði í utandagskrárumræðum á Alþingi um nýtingu orkuauðlinda og uppbyggingu stóriðju. Það hefði verið gaman að fá aðeins nánari útlistun á því!

Guðlaugur kallaði eftir því að umhverfisráðherra beitti sér sérstaklega fyrir áframhaldandi álversuppbyggingu í Helguvík og á Bakka. Áhugavert verkefni fyrir umhverfisráðherra, gætu sumir sagt.

 Svandís benti m.a. á að ekki væri hægt að lofa orku til grænna starfa af því að öll orkan væri bundin við álver og satt að segja væri búið að gera áætlanir um álversbyggingar sem krefjast meiri orku en er í boði. Þetta sitjum við uppi með eftir stóriðjurétttrúnað síðustu áratuga. Hefði Sjálfstæðisflokkurinn – í samstarfi við Framsókn og síðar Samfylkingu – ekki keyrt áfram þessa brjálæðislegu stefnu stæðum við öllu betur í dag. Í fyrsta lagi ættum við stærsta ósnortna víðerni Evrópu. Í öðru lagi hefði þenslan ekki orðið svo mikil sem hún varð og þ.a.l. hrunið ekki eins slæmt. Í þriðja lagi værum við ekki með alltof mörg eggja okkar í sömu körfu, þ.e. í formi álvera á tímum þegar álverð fellur og fyrirtæki eiga erfitt með að fjármagna sig. Í fjórða lagi ættum við fleiri möguleika til að vinna okkur út úr erfiðleikunum sem við stöndum nú frammi fyrir, m.a. með því að nýta orku í umhverfisvæn störf. Svona gæti ég haldið lengi áfram.

Sennilega eru samfélagsleg áhrif stóriðjustefnunnar efni í heila bók. Þá vísa ég ekki aðeins til þeirra áhrifa þegar atvinna í heilu byggðarlögunum veltur á einu fyrirtæki heldur líka til þess hvernig baráttan í þágu stóriðjustefnunnar var háð. Það þekkja Austfirðingar og af því fékk ég smjörþefinn þegar ég bjó á Fáskrúðsfirði árið 2002.

 Annars var Svandís mjög kröftug í svörum sínum til Guðlaugs Þórs og félaga. Horfum til framtíðar með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.

Prev PostMótmæli halda áfram í Íran
Next PostAð passa upp á hálaunafólkið