Mótmæli halda áfram í Íran

iran-motmaeli1Íranskur almenningur stendur nú frammi fyrir kunnuglegum veruleika: Mótmæli eru bönnuð, lögreglu og her er beitt gegn mótmælendum, fólk er handtekið fyrir að „stefna öryggi borgara í hættu“, netaðgangur er takmarkaður, erlendir blaðamenn sendir heim og innlendir blaðamenn aðeins látnir óáreittir ef þeir þjóna hagsmunum stjórnvalda.

Erlendum fjölmiðlum hefur gengið misvel að miðla efni frá Íran. Þannig hafa blaðamenn BBC ekki getað sent allar sínar vidjóupptökur þar sem stjórnvöld hafa takmarkað internetumferð. Þetta gerir okkur sem fjarri erum ekki einfaldara fyrir að átta okkur á því hvað er um að vera.

Enn virðast mótmælin vera bundin við Teheran en þar búa í kringum 14 milljónir af þeim 60-70 milljónum sem byggja Íran. Á meðan mörg þúsund manns óðu út á götur og mótmæltu kosningaúrslitum, sem margir telja vera fölsuð, fór stór hópur stuðningsmanna Mahmouds Ahmadinejads líka út á götur og fagnaði sigrinum. Í brýnu skarst milli hluta þessara  hópa.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Írönum er sigað hverjum gegn öðrum. Klerkastjórnin gerir eins og fyrirrennarar hennar – keisararnir tveir sem réðu lögum og lofum frá 1925-1979 – deilir og drottnar. Meðan fólkið rífst innbyrðis þurfa stjórnvöld ekki að hafa eins miklar áhyggjur.

Tilraunir Írana til að koma á lýðræði voru brotnar á bak aftur alla 20. öldina og þannig virðist það eiga að vera áfram. Keisararnir undu því ekki að hafa þing sem tæki ákvarðanir og klerkarnir gera það ekki heldur. Engu að síður starfar þingið og síðan er kosinn forseti en yfir þessu öllu trónir 12 manna klerkaráðið, sem ræður því hverjir bjóða fram. Það segir satt að segja allt um forsetakosningarnar sem núna er deilt um að alls ekki gátu allir boðið fram sem vildu. Klerkarnir vinsuðu úr þá sem þeim voru þóknanlegir og það þarf vart að nefna að konur þykja þeim ekki hæfar til að bjóða fram til forseta.

Ali Khameini, æðsti klerkur, hefur nú sagt að skoða þurfi kosningaúrslitin. Hvernig það verður gert er síðan önnur spurning. Pottlokinu hefur verið lyft og undir niðri kraumar óánægja og gremja. Klerkarnir munu halda áfram að reyna að siga fylkingum hverri gegn annarri. Ef það tekst framlengist kannski valdatími þeirra. En vonandi er þeirra tími liðinn og vonandi tekur eitthvað betra við.

Prev PostHvað gerist í Íran?
Next PostTil framtíðar með sjálfbærri þróun