Heilsusamleg tekjuaukning

Inga Þórsdóttir og Sigurður Guðmundsson skrifa góða grein í Morgunblaðið í dag þar sem þau árétta ýmislegt varðandi mögulegan skatt á sæta gosdrykki. Benda þau á að það sé hafið yfir allan vafa að mikil neysla á sætum gosdrykkjum tengist offitu og tannskemmdum og að sykur í gosdrykkjum sé skaðlegri en sykur í öðrum neysluvörum. Orðrétt segir í greininni:

„Árið 2007 var virðisaukaskattur af matvöru, þ.m.t. gosdrykkjum, lækkaður úr 24,5% í 7%. Samtímis var vörugjald á gosdrykkjum, 8 krónur á lítra, afnumið. Vörugjald var ekki tekið af ýmsum öðrum vörum. Gosdrykkir lækkuðu því einna mest í verði. Þessar aðgerðir voru beinlínis til þess fallnar að auka neyslu og virkuðu í reynd sem vörn gegn minnkandi neyslu. Vörn, vegna þess að almenningur veit meira og meira um hollt mataræði og vill því minnka gosdrykkjaneyslu, en gegn því vann verðlækkunin. Fræðsla um holla næringu er mjög mikilvæg, en verðbreyting hefur skjótari og meiri áhrif.“

Sársaukaminna en aðrar skattaleiðir

Þá benda Inga og Sigurður á að hátt verð minnki kaup á vöru og þá sérstaklega ef ekki er um nauðsynjavöru að ræða. Það væri fremur langsótt að halda því fram að sætir gosdrykkir gætu talist nauðsynleg næring. Niðurstaða fræðimannanna tveggja er einfaldlega sú að það geti ekki verið rétt að vernda óeðlilega lágt vöruverð á sætum gosdrykkjum. Sykurskattur á sætt gos sé sársaukaminni en margar aðrar skattaleiðir. Þannig getum við skapað tekjur fyrir ríkissjóð og verndað heilsuna um leið.

Prev PostPrev Post: No Title
Next PostJafnréttismál: Það sem mestu máli skiptir