2007 bústaður

Heimsborgarinn skellti sér í sumarbústað um helgina í nágrenni Stykkishólm. Bústaðurinn er í undurfögru landi og útsýnið  stórfenglegt. Stórir gluggar á húsinu voru því sannarlega vel til fundnir. Hins vegar voru þeir u.þ.b. það eina jákvæða við byggingun.

Heimsborgarinn getur vel játað að hann er miðaldra um aldur fram og á það til að vera heldur íhaldssamur þegar kemur að hönnun sumarbústaða. Bústaðir eiga að mati Heimsborgarans að vera úr timbri og helst að vera þröngir og kósí. Enginn er bústaður án góðrar bókahillu og helst á að vera svefnloft þar sem hægt er að koma hópi fólks fyrir á dýnum.

En bústaðurinn sem Heimsborgarinn var í um helgina var annars eðlis. Hann var að hluta til viðarklæddur en að hluta með gráu bárujárni. Innandyra voru svartar flísar á gólfum, forljótt leðursófasett og svo sjálfur tákngervingur hins meinta góðæris: Flatskjár. Á háaloftinu var síðan annar flatskjár og í stað nokkurra dýna var þar vondur svefnsófi, sem tók stóran hluta gólfplássins. Heimsborgarinn átti ekki orð og notaði að sjálfsögðu helgina í að tuða yfir þessu.

Til að gleyma sér ekki í neikvæðinni verður Heimsborgarinn þó að minnast á hversu ægifagur Stykkishólmur er. Heimsborgarinn gekk á Helgafell, sem hann hefur ekki gert í tæpa tvo áratug,i og þrátt fyrir að fellið sé lágt er útsýnið magnað. Nú bíður Heimsborgarinn spenntur eftir því hvort óskin sem hann bar upp á toppnum rætist.

Heimsborgarinn mælir því sannarlega með ferð í Hólminn, bara ekki hálfbárujárnsklæddu sumarbústöðunum.

Prev PostJafnréttismál: Stundin er runnin upp
Next PostAð hitta naglann á höfuðið