Ræða flutt á þingi KSÍ

10. febrúar 2007

Kæru félagar,

Það er margt sem mig langar að segja en þar sem fundarstjóri stýrir af svo miklum skörungsskap þá hvarflar ekki að mér að reyna að tala of lengi. Svo það er líklega vissast að koma sér beint að efninu.

Eins og gefur að skilja hafa nánast allar samræður sem ég hef átt undanfarinn mánuð snúist um KSÍ og fótbolta almennt. Formannskjörið er fólki ofarlega í huga, enda langt síðan kosið var um formann síðast. Í einni af þessum skemmtilegu samræðum barst talið að fráfarandi formanni, Eggerti Magnússyni.

Helsta hlutverk allra stjórnenda er að draga vagninn, ef svo má að orði komast. Þegar fram líða stundir hættir sumum til að slaka á og setjast jafnvel upp í vagninn. Eggert, sagði viðmælandi minn, er einn af þessum mönnum sem leyfði sér það aldrei.

Þarna held ég að baráttujaxlinum sem nú víkur úr embætti sé vel lýst. Og það væri mér sannur heiður að taka við vagninum, og þeim dýrmæta farmi sem hann geymir.

Sumir virðast halda að verði ég kjörin formaður KSÍ, ætli ég mér að fleygja öllu lauslegu úr vagninum, eða hreinlega skipta um vagn.

Það er hins vegar ekki rétt, enda fásinna að svo mikið sem hugsa til þess að kasta áratuga starfi fyrir róða.

Þvert á móti, mun ég halda áfram að draga vagninn, leggja rækt við þann góða farm sem hann þegar geymir, og ég mun aldrei setjast upp í hann.

Góð verk hafa verið unnin innan KSÍ, en eðlilega bíða sambandsins líka mörg ný verkefni

Vagninn er kominn að krossgötum. Nýr formaður þarf að ákveða í hvaða átt hann ætlar að stefna, og hvaða verkefni eru næst á dagskrá.

Ég hef kynnt stefnumál mín undanfarið og ég vona því að kjósendur viti hverjar mínar helstu áherslur eru. Ég hef fyrst og fremst ástríðu fyrir leiknum sem fótbolti er, og hver einasti iðkandi í landinu skiptir mig máli, hvort sem það er barn á sparkvelli, karl í íþróttahúsi eða kona í landsliði.

Formaður KSÍ er talsmaður fótboltans, bæði hér heima, sem erlendis. Hann er andlit íslensku knattspyrnunnar og tekur alltaf upp hanskann fyrir hana, ef að henni er vegið. Í samráði við stjórn sambandsins leggur formaðurinn línurnar. Hann hlustar á rödd iðkenda um allt land og reynir eftir fremsta megni að koma til móts við þarfir þeirra og væntingar.

KSÍ er samband allra félaganna í landinu. Það er jafnt samband 4. flokks kvenna á Fáskúrðsfirði, sem meistaraflokks karla í KR. Og það er hlutverk KSÍ að gæta hags allra sinna félaga.

Fái ég ykkar umboð til að starfa fyrir knattspyrnuna á Íslandi, getið þið treyst því að ég mun gera það með sóma.

Þegar vindurinn er í fangið mun ég leggja harðar að mér, og þegar vindurinn er með kemst ég hraðar.

Að þessu sögðu óska ég eftir stuðningi ykkar í kosningunni hér á eftir og lofa, að nái ég kjöri sem formaður KSÍ, mun ég draga vagninn af krafti og alúð, knattspyrnunni til heilla.