Grein um vörugjald á gosdrykki

Birtist í Morgunblaðinu 27. maí 2009

Gosdrykkir og verðtrygging

Í umræðum um vörugjöld á gosdrykki hafa heyrst raddir um að slík gjöld leiði til hækkunar á vísitölu neysluverðs og að í beinu framhaldi hækki afborganir af verðtryggðum lánum. Þegar slíkar raddir heyrast er eðlilegt að mörgum verði hverft við, ekki síst í ljósi þess að landsmenn þurfa nú að bera þunga skuldabagga, sem þeir efndu aðeins til að litlum hluta. Engu að síður er fátt sem bendir til þess að tilefni sé til þessara áhyggja.

Árið 2004 vann Hagfræðistofnun Háskóla Íslands skýrslu fyrir Lýðheilsustöð um hvaða áhrif það hefði á vísitölu neysluverðs að leggja svonefnt forvarnargjald á sykur. Niðurstöðurnar sýna að áhrif slíks vörugjalds á vísitölu neysluverðs væru óverulegar. Til að mynda var sýnt fram á að væri lagt 10 króna gjald á hvern lítra af sykruðum gosdrykkjum gæti það leitt til vísitöluhækkunar upp á 0,09%. Nú kynni þessi tala að hafa breyst lítillega en engu að síður er ljóst að áhrifin væru ekki tilfinnanleg.

Hitt er svo annað og það er að ef kæmi í ljós að vörugjald á gosdrykki gæti haft meiri áhrif á neysluvísitölu mætti, eins og Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra, benti á í viðtali við DV 20. maí sl., skoða möguleikann á því að taka slíkt gjald út úr vísitölugrunninum. Þannig ætti vísitala neysluverðs og þar með hin umdeilda verðtrygging ekki að koma í veg fyrir að lagt verði vörugjald á gosdrykki.

Hálfur lítri af gosi á dag

Íslendingar eru miklir gosþambarar og lætur nærri að hálfur lítri renni ofan í hvern landsmann á degi hverjum. Gosdrykkjaneysla hjá börnum er of mikil og unglingsstrákar þamba mest. Afleiðingarnar eru skemmdar tennur og ofþyngd sem aftur geta leitt til skertari lífsgæða, auk þess sem kostnaðurinn getur verið umtalsverður, bæði fyrir einstaklinga og skattborgara.

Þegar skattar og gjöld á matvælum voru lækkuð árið 2006 varð lækkunin mest á gosdrykkjum, þvert gegn tillögum Lýðheilsustöðvar en hennar hlutverk er einmitt að vera stjórnvöldum til ráðgjafar um stefnumótun á sviði lýðheilsu.

Inga Þórsdóttir, prófessor í næringarfræði, og Sigurður Guðmundsson, forseti heilbrigðisvísindasviðs HÍ, bentu á það í grein í Morgunblaðinu nýverið að verðaukning á gosdrykkjum skili sér í minni neyslu. Þá hefur verið sýnt fram á að unglingar eru sérstaklega næmir fyrir verðhækkunum.

Öll rökin hníga því í þá einu átt að auknar álögur á gosdrykki séu mikilvægt vopn í baráttunni gegn slæmri tannheilsu og að sama skapi gegn þeim vanda sem getur falist í óheilsusamlegri ofþyngd, ekki síst hjá börnum og ungmennum. Vörugjöld væru hins vegar aldrei eina vopnið. Hér eftir sem hingað til gegna forvarnir lykilhlutverki í að vernda heilsu landsmanna og þar er Lýðheilsustöð okkar flaggskip. Þess vegna hunsum við ekki ráðleggingar Lýðheilsustöðvar og okkar færustu sérfræðinga heldur þvert á móti förum eftir þeim.