Óbirt grein

Hangsað með kameldýrum í eyðimörkinni

„Kúr, khúr, khor, kor,” tautaði ég í lágum hljóðum meðan ég nálgaðist rútustöðina. Þetta persneska kokhljóð ætlaði að reynast mér erfitt. Leigubílstjórinn gerði á bjagaðri ensku tilraun til að bjóða mér út að borða í hádeginu en ég afþakkaði pent, sagðist þurfa að drífa mig að finna miða til Khur. Ég velti fyrir mér hvað bjó að baki hjá þessum miðaldra fjölskylduföður en í hans menningarheimi eiga karlar ekki að hafa nokkuð saman að sælda við ókunnugar konur, eða ætli það sé bara þannig að konur eigi ekki að hafa nokkuð að gera með ókunnuga karla?

Mér tókst að finna miða til Khur og ekki nóg um það heldur fann ég líka kjötlausa samloku en það getur reynst erfitt í eins miklu kjötlandi og Íran er. Með hjálp svartklæddrar konu fann ég rútuna mína sem smám saman fylltist af kátum Írönum. Ég hrósaði happi yfir að hafa fengið miða enda eru nánast allir Íranar á faraldsfæti í kringum írönsku áramótin. Konan sem sat við hliðina á mér spjallaði heilmikið á persnesku og ég ýmist þóttist skilja eða yppti öxlum. „Garmeh,” sagði ég hikandi þegar ég þóttist viss um að hún væri að spyrja hvert ég væri að fara. „Island,” sagði ég svo eftir að hún taldi upp alls konar þjóðerni. Hún gaf mér köku og í eina stoppinu í þessari sjö klukkutíma rútuferð passaði hún að enginn vippaði frá lakinu sem var í kamardyrunum.

Ég þakkaði henni fallega fyrir og minnti mig á það í huganum að vera alltaf dugleg að hjálpa útlendingum heima á Íslandi. Svona til að gefa til baka agnarögn af því sem hefur verið gert fyrir mig.

Ég sofnaði í borg og vaknaði í eyðimörk.

Í Khur beið mín leigubílstjóri sem galaði „Maziar” um leið og hann sá mig. Það var víst ekki flókið að finna út að það væri ég sem hann átti að sækja enda eina hvíta manneskjan í rútunni. Hann kynnti sig sem vin Maziars og talaði út í eitt, en auðvitað á persnesku. Í bílferðinni fékk hann leið á því að blaðra við mig sem starði á hann skilningssljóum augum og söng þá bara í staðinn. Ég rýndi út í myrkrið. Landslagið minnti um margt á Ísland. Auðn og í fjarska spruttu upp fjöll. Fjöllin eru samt öðruvísi í laginu í Íran.

Sandeyðimörk eins og í Tinnabókunum

Eftir hálftíma bíltúr vorum við komin í litla eyðimerkurþorpið Garmeh. Bílstjórinn svaraði geltandi hundi fullum hálsi og benti mér svo á afslappað kameldýr í girðingu.

„I am Maziar’s father and this is my wife,” sagði maðurinn sem tók á móti mér. Maziar sjálfur skrapp til höfuðborgarinnar, Tehran, ásamt eiginkonu sinni en hún starfar þar sem frönskukennari. Ég fékk aldrei að vita nöfn nokkurs annars en Maziars. Allir voru skilgreindir út frá honum.

Ég varð ekki fyrir vonbrigðum með húsið enda leit það út alveg eins og ég hafði ímyndað mér hús í eyðimörkinni. Loftið byggt úr hampi, stráum, sandi og ef ég skyldi rétt einhvers konar leðju og hafði þennan skemmtilega eyðimerkursandlit. Það þarf víst að bera nýtt lag á þakið á þriggja ára fresti til að koma í veg fyrri að það hrynji eftir rigningar. Við hlið hússins eru rústir af kastala en enginn virtist vita hvenær hann var byggður eða notaður. Í bakgarðinum eru pálmatré og lítið stöðuvatn sem var kannski það sem ég átti síst von á í miðri eyðimörkinni.Húsið hefur verið í eigu fjölskyldu Maziars í a.m.k. 400 ár. Um tíma stóð það autt en Maziar ákvað að gera það upp og opna ferðaþjónustu. Í þrjú ár hafa ferðamenn komið í eyðimörkina og notið kyrrðarinnar í Garmeh en ár frá ári fjölgar þeim sem leggja leið sína þangað.

Ferskt loftið og þögnin voru svo sannarlega tilbreyting frá ys og þys borganna sem flestir Íranar búa í. Ég skoðaði saltvinnslu í eyðimörkinni, gekk á fjöll og hlustaði á bænasöng múslima. Skemmtilegast fannst mér þó að keyra út fyrir Garmeh og sjá alvöru sandeyðimörk. Hún samræmdist hugmyndum mínum um eyðimörk sem ég hafði úr Tinnabókunum sem ég las þegar ég var barn. Þegar við keyrðum um eyðimörkina var oft sem við værum að nálgast stöðuvatn. Því nær sem við komumst vatninu því fjær færðist það. Ég velti fyrir mér hvað það væri hræðilegt að sjá þetta endurvarp sólarinnar eftir að hafa ekki fengið vatn að drekka í lengri tíma.

Í eyðimörkinni eru hundruð kameldýra. Þau rölta um í rólegheitum og japla á þeim litla gróðri sem vex í eyðimörk. Hafa ekki einu sinni fyrir því að hætta að éta rétt á meðan þau kúka. Ekkert raskar ró þeirra og ef ég nálgaðist þau horfðu þau undarlega á mig og röltu svo í burtu. Þau hreyfast á svipuðum hraða og tíminn í eyðimörkinni.

Langar rútuferðir voru svo sannarlega þess virði. Eftir nokkurra daga dvöl kastaði ég kveðju á kameldýrin, ræddi málin við geltandi hundinn á kjarnyrti íslensku og tók undir með syngjandi leigubílstjóranum sem fylgdi mér alla leið inn í rútuna til næsta áfangarstaðar, háskólabæjarins Yasd.