Singapúr: Shop to the top

Grein frá Singapúr

Birtist í Morgunblaðinu, 7. maí 2004

Menningarsjokk í neyslusamfélagi

HEIMSHORNA Á MILLI: Halla Gunnarsdóttir skrifar frá Singapúr

„We’re going to shop to the top,“ söng karlmannsrödd í útvarpinu og ég óð áfram með tryllingsglampa í augum. Verð að kaupa eitthvað, verð að kaupa eitthvað, verð að kaupa eitthvað. Alveg sama hvað, bara eitthvað. Ótal búðir í sjö hæða verslunarkringlu sem eingöngu selja raftæki. Aha, ég kaupi eitthvað í tölvuna.

„Hello. I have a lap top and I would like to buy.“

Oó, hvað á ég að kaupa, bara eitthvað. Aukaminni svo ég komi fleiri myndum inn. „Memory, extra memory.“

Afgreiðslumaðurinn var greinilega vanur trylltu fólki eins og mér og spurði mig varfærnislega hvort ég hefði nafn tölvunnar.

„Oh, yes, Toshiba Santelite, Sanentile, something.“

Það voru víst ekki nægar upplýsingar. Ég ákvað að fara á Netið til þess að athuga málið. Netkaffi eru ekki á beinlínis á hverju horni í Singapúr enda þessi hátækniþjóð án efa sítengd hvar sem er og hefur því lítið við netkaffi að gera. Ég gekk rösklega um borgina. Skilvirkni er aðalatriðið, allt á að taka stuttan tíma svo ég geti keypt meira, hugsaði ég.

Þegar ég loksins komst á veraldarvefinn var ég búin að róast lítillega og fór að velta því fyrir mér hvaða brjálæði hefði gripið mig. Þá fyrst fór ég að muna að ég kann voðalega lítið tölvufagmál og hef því í raun ekki hugmynd um hvað aukaminni þýðir. Ákvað því að það væri við hæfi að reyna að komast að því áður en ég réðist í stórkaup. Jú, minni eykur vinnsluhraðann. Ég hef enga þörf fyrir meiri vinnsluhraða. Harður diskur myndi bjóða upp á meira pláss en auka harðir diskar í fartölvur eru víst ekki endilega æskilegir.

Bissnessfólk og himinháar byggingar

Það var vægast sagt skrýtið að koma úr rólegheitum og einföldu lífi í Kambódíu yfir í neysluæðið í Singapúr. Ég hélt að ég léti ekki glepjast af ótal auglýsingum en þar skjátlaðist mér svo sannarlega. Það má í raun segja að mitt stærsta menningarsjokk hafi verið í Singapúr.

Ég fékk strax hálsríg af að góna á himinháar byggingar. Alls staðar var bissnessfólk í þar til gerðum klæðnaði. Kalt loft úr búðum læddist út í hitann og rakann til að lokka til sín kaupendur.

Það eru eflaust ekki mörg lönd sem hafa þróast á eins miklum ógnarhraða og Singapúr. Þrítugur vinur minn ólst upp í strákofa en vinnur nú í einum skýjakljúfanna við að lagfæra tölvur fyrir viðskiptavini.

Samkeppni milli síamstvíbura

Á fyrri hluta 20. aldarinnar var Singapúr, undir stjórn Breta, mikil viðskiptamiðstöð. Í seinni heimsstyrjöldinni náðu Japanir yfirráðum fram til ársins 1963 að Singapúr sameinaðist Malasíu. Sú sambúð varði þó stutt en ráðamenn í Singapúr áttu erfitt með að sætta sig við þá stefnu að Malasía skyldi vera fyrir Malaya. Malayar eru múslimar og hinir upphaflegu Malasíubúar en bæði í Singapúr og Malasíu búa ótal Kínverjar og Indverjar í bland við Malaya.

Árið 1965 hlaut Singapúr sjálfstæði sitt og í framhaldi af því hófst uppbygging viðskipta- og neyslusamfélags. Það kemur kannski ekki á óvart að meðan Singapúr rauk áfram í átt að háþróuðu samfélagi reyndi Malasía að fylgja á eftir. Milli þessara þjóða ríkir því nokkurs konar Elska þig – hata þig-samband eða eins og einn viðmælenda minna orðaði það: „Singapúr og Malasía eru eins og síamstvíburar. Sama hversu illa þjóðunum er hvor við aðra þá hreinlega neyðast þær til að lifa hlið við hlið.“

Mannréttindi í opnu viðskiptaumhverfi

Komandi af moldarvegum Kambódíu þótti mér mikil breyting að sjá hreinu strætin í Singapúr. Ströng lög og háar fjársektir gera það að verkum að enginn dirfist að henda rusli á göturnar eða reykja á almenningsstöðum og tyggigúmmí er með öllu ólöglegt. Salernin sturta sjálfkrafa niður og alls staðar eru auglýsingaskilti með teiknifígúrum sem minna fólk á að ganga vel um.

Dauðarefsing liggur við eiturlyfjasmygli og það skiptir litlu hversu mikið magn viðkomandi ber á sér. Frelsi fjölmiðla er afskaplega takmarkað, allt er ritskoðað og svo virðist sem fólk sem gagnrýnir ríkisstjórnina opinberlega eigi það til að gufa upp.

Það kemur því á óvart að á meðan mannréttindabrot í löndum eins og Kúbu, þar sem frelsi fjölmiðla er takmarkað, eru nokkuð oft í fréttum Vesturlanda hef ég aldrei heyrt minnst á mannréttindabrot í Singapúr. Læðist óneitanlega að mér sá grunur að mannréttindi skipti minna máli þar sem markaðurinn er opinn erlendum sem innlendum fjárfestum.

Fjölmenningarlegt samfélag

Skemmtilegast við Singapúr er þó án efa hversu fjölbreytilegt samfélagið er. Stjórnvöldum er mikið í mun að ólík trúarbrögð geti lifað í sátt og samlyndi. Í fréttum er aldrei vísað til fólks eftir uppruna þess og í það minnsta lítur út fyrir að fólk með ólíkan bakgrunn hafi svipuð tækifæri. Mismunandi menningarheimar og trúarbrögð setja því svip sinn á borgina og gera hana jafnframt að helstu matarparadís Asíu.

Það var ekki fyrr en ég jafnaði mig af kaupæðinu og ákvað með sjálfri mér að sleppa allri verslun að ég gat sest niður og notið þess sem borgin hefur upp á að bjóða. Ég gæddi mér á framandi réttum, labbaði milli klaustra og naut þess að heyra bænaóminn frá moskunum sameinast umferðarniðinum.

Á kvöldin fylgdi ég straumi allra þeirra Singapúrbúa sem koma sér fyrir á matsölustöðum eða kaffihúsum og spjalla um daginn og veginn. Þar sem ég sat og sötraði kínverskt te og velti því fyrir mér hvað það er undarlegt að við iðnvæddu samfélögin skulum í raun kalla okkur þróuð, læddist sú hugsun að mér að á næsta áfangastað, Malasíu, skyldi ég njóta þess fram í fingurgóma að tyggja hinar ýmsustu tegundir tyggigúmmís án þess að óttast háar fjársektir.

Prev PostÍran: Sterkar konur í feðraveldi
Next PostKambódía: Fyrirmyndaríkið Angkar