Óbirt grein

Draugakastalinn í fjöllunum

„Hvað sem þú gerir, ekki hugsa um Jack Nicholsson hrópa: Where is Johnny!” sagði ég lágum rómi við ferðafélaga mína og sá hvernig þeir fölnuðu. Við vorum stödd í yfirgefinni byggingu í Bokor Hill Station í Kambódíu. Drungalegt yfirbragð byggingarinnar verður enn óhugnalegra þegar saga hennar er höfð í huga. Þegar enn var byggð í þessum fallega fjallgarði gegndi byggingin hlutverki spilavítis og gengur enn undir því nafni. Síðar yfirtóku Rauðu Khmerarnir staðinn og notuðu spilavítið til að fangelsa, pynta og myrða fólk. Í framhaldinu voru miklir bardagar háðir í fjöllunum í kring og hversu kaldhæðnislegt sem það kann að hljóma þá ber sundurskotin kirkja enn merki þess.

Gamla spilavítið minnir óheyrilega á bygginguna úr hryllingsmyndinni The Shining og í raun ekki að undra að á sama tíma og við vorum á staðnum var verið að filma þar kóreska hryllingsmynd.

Sumir ferðamenn hefðu eflaust látið nægja að skoða þennan óhugnalega stað í dagsbirtu en þar sem við eyddum nóttinni í fjallagarðinum gátum við ekki staðist mátið að líta þar við eftir sólsetur. Við hefðum eflaust aldrei lagt í það ef ekki hefði verið fyrir kvikmyndatökulið með alla þá ljóskastara sem slíkum teymum fylgja. Okkur var boðið að fylgjast með tökum og óraunveruleikatilfinningin sem oft vill fylgja ferðalögum á framandi stöðum jókst til muna.

Ævintýraþráin

Ævintýraþráin var þó sterk og ferðafélagi minn frá landinu í vestri lokkaði mig með sér í rannsóknarleiðangur um myrkvaða bygginguna. Við vorum ekki lengi að sannfærast um að sögur um reimleika staðarins eigi við rök að styðjast. Það er skemmst frá því að segja að það tók okkur fjórar tilraunir að komast upp á þak byggingarinnar. Í þessari merkilegu byggingu er að finna allar vondar tilfinningar sem hægt er að gera sér í hugarlund. Græðgi, öfund, angist, sorg, kvíði, heift og svo framvegis.

Við höfðum næturstað í klaustri. Aldrei hef ég fundið eins mikið fyrir skilunum milli góðs og ills eins og þegar ég kom í klaustrið. Fyrir háttinn þurfti ég að sparka af mér gamla nunnu sem var hress að kitla liðið og ég vaknaði við að lítill api reyndi að plata mig til að gefa sér eitthvað að borða. Ég hafði ekkert handa honum svo hann lagði sig bara hjá okkur. Bokor Hill Station er án efa minn eftirlætis staður í Kambódíu og kæmi mér ekki á óvart ef fleiri og fleiri ferðamenn færu að leggja leið sína þangað.