Grein frá Víetnam

Birtist í Morgunblaðinu, 16. apríl 2004

 

Stríðsglæpir og diskóljós

HEIMSHORNA Á MILLI: Halla Gunnarsdóttir skrifar frá Víetnam

Ég ligg í hörðu rúmi í litlu herbergi sem minnir helst á vistarverur hermanna, í það minnsta eins og þær koma fyrir sjónir í bíómyndum. Hvítir veggir, grár skápur, tvö rúm sem minna helst á barnarúm. Lítil eðla hefur hreiðrað um sig inni á baði. Vonandi er hún dugleg að éta moskítóflugur. Lágt suð í loftræstingunni blandast vinalegum svefnhljóðum herbergisfélaga míns. Eftir alla einveruna finnst mér notalegt að deila herbergi með einhverjum. Þetta er síðasta kvöldið í Víetnam.

Þar sem ég ligg þarna og á í erfiðleikum með að festa svefn fer hugurinn á flakk og ég endurupplifi ferðalagið um þetta fallega land sem á svo flókna og blóðuga sögu. Það rifjast upp fyrir mér þegar ég stóð á mörkum norðurs og suðurs og velti fyrir mér veruleika stríðs, veruleika sem alltaf hefur verið svo fjarri minni vernduðu veröld.

Hoi An var fyrsti viðkomustaðurinn í suðurhluta Víetnam – mekka verslunarinnar. Yfir 200 klæðskerar eru í bænum og meira að segja hægt að láta sauma á sig skó án þess að buddan grennist um of. Bakpokaferðalangnum þótti þó of vænt um bakið til að láta freistast.

Frá Hoi An til Nha Trang. Orkan sem ég fylltist við að sjá loksins hafið. Sigling um eyjarnar í kring. Ofvirki leiðsögumaðurinn setti upp fyrir okkur fljótandi bar og píndi ofan í okkur það alversta rauðvín sem ég hef á ævinni bragðað. Það ætti í raun að vera ólöglegt að kalla þetta rauðvín! Í Nha Trang kom augnablikið þar sem ég fór að ljúga því að ég ætti kærasta heima á Íslandi. Ekki af því að mér þætti það eftirsóknarvert heldur einfaldlega vegna þess að ég gafst upp á að útskýra fyrir Víetnömum að ég sé á lausu. Hér er hjónaband nefnilega mikilvægasta stoð samfélagsins og fyrirbærið “happily single” ekki til.

Hæsta fjall S-Víetnam sigrað

Frá Nha Trang til fjallabæjarins Dalat – eins vinsælasta áfangastaðar Víetnama í brúðkaupsferð. Tilfinningin að sigra Lang Biang, hæsta fjall í Suður-Víetnam (2169 m), var dásamleg. Ég hélt ég væri að skrá mig í hópferð en svo kom á daginn að ég skyldi þvælast ein með leiðsögumanninum Nam, ferðamenn eru einfaldlega ekki svona vitlausir að halda sig geta vappað þarna upp án nokkurs undirbúnings. Nam fer þessa ferð þrisvar til fjórum sinnum í viku og blés því ekki úr nös á meðan við klöngruðumst upp hlíðina. Sjálf var ég móð og másandi með hugann við allar mögulegar og ómögulegar afsakanir fyrir að snúa við. Að sjálfsögðu var bröltið þess virði þegar komið var á toppinn. Það rifjast upp fyrir mér minningin úr Lat Village, litlu þorpi fyrir utan Dalat, sem við Nam heimsóttum. Ég þvældist inn í hóp tilvonandi leiðsögumanna sem voru þarna að læra um menningu þorpsbúa. Ég söng og dansaði, þambaði hrísgrjónavín úr stærðarinnar krukku og reyndi eftir fremsta megni að skilja alla skemmtilegu leikina.

Frá Dalat til Ho Chi Minh City (áður Saigon) stærstu borgar í Víetnam. Þar fór ég meðal annars á stríðsglæpasafnið og fékk illt í hjartað yfir grimmdinni í þessum heimi. Skemmtilegastur var þó 8. mars, alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Mér tókst að hafa uppi á hátíðarhöldum heimamanna sem ganga aðallega út á söng og glaum með tilheyrandi skreytingum eins og jólaseríum, diskóljósum og reykvélum. Þrátt fyrir að vera höfðinu hærri og öðruvísi útlítandi en allir þátttakendur var ég boðin velkomin og þar með afsannaðist kenningin um að kynþáttafordómar stafi af einskærum ótta við hið óþekkta.

Undarlegt andrúmsloft

Ég á svo erfitt með að skilja andrúmsloftið í Víetnam. Svo virðist sem þjóðin hafi byggt um sig þykkan skráp eftir allar hörmungarnar sem hún hefur mátt þola. Túrismi hefur kannski vaxið of hratt sem gerir umhverfið svolítið fjandsamlegt. En um leið og komið er út fyrir túristastaðina tekur við hlýja og bros sem nær til augnanna. Ennþá virðist ríkja ákveðin óeining milli norðurs og suðurs enda kannski ekki furða þar sem Ameríska stríðið (betur þekkt sem Víetnamstríðið á Vesturlöndum) er ekki nema einni kynslóð í burtu. Lega landsins hjálpar eflaust ekki til en landið er langt og mjótt og því mikil fjarlægð frá norðri til suðurs.

Og þar sem ég ligg í rúminu þetta síðasta kvöld rifjast upp fyrir mér allar tilfinningarnar sem ég hef upplifað í Víetnam. Gleðin yfir litlum hlutum eins og brosi frá barni. Pirringurinn yfir ágengum sölumönnum. Reiðin yfir óréttlætinu og grimmdinni í veröldinni. Einmanakenndin og heimþráin. Óöryggið í nýjum hópum. Léttirinn yfir að þekkja einhvern á barnum og þurfa ekki að sitja ein. En fyrst og fremst hamingjan yfir að hafa tækifæri til að ferðast.

Að lokum lognast ég út af vitandi að á morgun leggst ég til rekkju í nýju og framandi landi, Kambódíu, þar sem ég mun upplifa nýja hluti og án efa enn fleiri tilfinningar.