Grein um dvöl í tælensku búddahofi

Birtist í Morgunblaðinu, 26. september 2004

 

Blóðlausir fætur og andleg ró

Hof og hallir í Taílandi eru vanalega miklar byggingar og sjaldnast er sparað við gullið á þeim stöðum. Dvöl í búddahofi á Taílandi getur krafist ýmissa fórna fyrir þann sem vanur er að lifa í vellystingum. Halla Gunnarsdóttir eyddi helgi í búddahofi og kynntist lifnaðarháttum nunnanna sem þar búa.

Hafa verið einhver vandamál í lífinu þínu?” spurði vinkona mín. Ég varð skrýtin á svipinn og horfði ringluð á taílensku táknin á blaðinu fyrir framan mig. “Er spurning númer tíu hvort ég hafi átt við vandamál að stríða í lífinu?” spurði ég. Jú, það stóð heima. Ég hugsaði mig vel um en ákvað svo að láta það ógert að telja upp mín lítilfjörlegu vandamál. “Nei, engin alvarleg,” tautaði ég.

Við vorum staddar í búddahofi. Hér skyldum við eyða helginni og kalla okkur nunnur.

Við gengum frá umsóknunum og skiluðum þeim til yfirnunnunnar. Ég fékk í hendurnar hvítan klæðnað og belti. “Ertu ekki örugglega búin að borða?” spurði vinkona mín. Ég var stolt þegar ég svaraði játandi. Ég var jú farin að þekkja Taílendinga, þeir eru nefnilega síétandi svo ég passaði mig að fá mér bara léttan hádegisverð.

“Gott,” sagði vinkona mín. “Þú færð nefnilega engan kvöldmat í klaustrinu.”

Ég missti andlitið. Engan kvöldmat! Ekkert meira að borða? Auðvitað hefði ég svo sem átt að muna að munkar og nunnur borða aldrei eftir hádegi.

“Já, og eitt í viðbót,” sagði vinkona mín. “Við þurfum að vakna snemma í fyrramálið.” Aftur þóttist ég öllu vön. Á Kúbu þurfti ég alltaf að vakna klukkan 5:45 til að sinna landbúnaðarstörfum. Einu sinni vann ég í sundlaug sem var opnuð klukkan hálfsjö. Jújú, ég ætti að ráða við það að vakna snemma. Þótt það verði fyrr en það.

“Við þurfum að vakna klukkan þrjú.”

“Þrjú!” hrópaði ég. “Það er ekki fyrramál, það er nótt!”

Vinkona mín hló. Líkt og þetta væri eitthvað spaugilegt.

Lífsreglur Búdda

Við klæddum okkur í nunnufötin og svei mér þá ef ég tók mig ekki bara ágætlega út í hvítri blússu og pilsi. Að vísu tókst mér að missa slæðuna mína ofan í vatnstunnu þegar ég var að skipta um föt inni á klósetti en hún hlyti að þorna. “Hvers vegna erum við með svona slæðu yfir öxlina en sum ekki með þannig?” spurði ég og lagfærði blauta slæðuna.

“Þau sem eru ekki með slæðu eru venjulegt fólk.” Það er nefnilega það. Venjulegt fólk þarf einungis að fylgja fimm reglum búddismans. Í þeim felst að drepa ekki dýr, taka ekkert ófrjálsri hendi, halda sig utan við hvers kyns kynferðislegt misferli, s.s. ofbeldi eða framhjáhald, segja ávallt satt og láta vímuefni eiga sig.

Við vorum hins vegar nunnur og í okkar hofi þurftum við því að fylgja strangari reglum. Við máttum ekkert borða eftir hádegi, ekki nota farða, ilmvatn, skartgripi eða annað slíkt og einungis sofa á hörðu undirlagi.

Ég sá ekki fram á að eiga í nokkrum vanda með að halda reglurnar. Það var einungis þessi með matinn sem olli mér hugarangri.

Þegar við vorum komnar í nunnubúningana gengum við niður í samkomusalinn. Við vorum ekki þær einu sem voru í hofinu. Í kringum 500 manns í hvítum fötum voru að koma sér fyrir enda eitt af vinsælli hofum Taílands.

Við fengum okkur sæti á gólfinu. Tærnar skyldu snúa aftur því að tær mega ekki benda í átt að Búdda.

Ég reyndi að umla með í bænum á framandi tungu án þess að skilja orð. Ég gat þó ekki hætt að hugsa um sársaukann í fótunum. Það er svo sárt að sitja á hnjánum. Jafnvel þótt ég hafi stolist til að láta mig falla niður á hlið. Tærnar á konunni fyrir framan mig urðu bláar. Úti var 38 stiga hiti. Nokkrar viftur gerðu lítið gagn. Ég svitnaði og svitnaði.

Að tæma hugann

Við vottuðum nunnunni virðingu og síðar munkinum. Ég gerði mitt besta til að fylgja með. Ekki nóg með að ég væri sú eina þarna inni sem þekkti nánast ekkert til búddisma heldur var ég líka sú eina sem var ljóshærð og hvít á hörund.

Eftir því sem leið á kvöldið urðu fæturnir aumari og ég svengri.

Að loknum bænatímanum fékk ég mjólkurflösku. Það saddi sárasta hungrið. Vinkona mín stoppaði mig þegar ég ætlaði að fara í náttfötin. “Þú átt að sofa í búningnum.” Ég kom mér fyrir á bambusmottunni, með lítinn kodda og hárband fyrir augunum til að geta sofið þrátt fyrir að ljós logaði í herberginu. Ég svaf fast í flatsæng með 100 konum sem ég þekkti ekki neitt.

Ég rumskaði klukkan þrjú við að nunnurnar voru allar að vakna. Myndi ég halda daginn út?

Ég átti von á morgunmat en það var hin mesta bjartsýni. Fyrst voru bænir og hugleiðsluæfing.

Æfingin var strembin. Við æfðum hugleiðslu gangandi og sitjandi. Einu sinni hélt ég að hugleiðsla væri að íhuga eitthvað sérlega göfugt í langan tíma. Það hvarflaði aldrei að mér að það að tæma hugann gæti reynst svona erfitt. Alltaf fór hugurinn á flakk.

Næstu helgi verð ég heima á Íslandi. Hvað ætli mamma sé að gera núna? Systir mín er örugglega sofandi heima. Gott ef fjölskyldan er ekki búin að fá sér hund.

Ég reyndi að bægja öllum þessum hugsunum frá mér og einhvern veginn tókst mér að halda einbeitingunni við æfinguna og fá tímann til að líða.

Hrísgrjónasúpa hefur aldrei bragðast eins vel og hún gerði þennan morgun. Reyndar hefur mér aldrei þótt slík súpa bragðast vel.

Dagurinn leið áfram með hugleiðsluæfingum, bænum, sársauka í fótunum og mismiklum skammti af hungurverkjum. Reglulega fékk ég mikla óraunveruleikatilfinningu. Í stórum sal fullum af hvítklæddu fólki, tautandi taílensk orð, verður öll tenging við minn veruleika svo fjarri.

Sársaukalaust líf

Í hofinu kynntist ég hungrinu og sársaukanum. Það er þó ekki svo að ég hafi verið í hættu vegna næringarskorts eða sárkvalin. Ég skildi allt í einu hvað líf mitt hefur verið sársaukalaust og auðvelt. Ég er alin upp í veruleika þar sem allt er þægilegt. Ég hef alltaf nóg að borða. Ég þarf ekki að sitja í óþægilegum stellingum ef mér sýnist ekki svo og hef alltaf haft rúm til að sofa í. Ef ég upplifi sársauka þá er eitthvað að og ég geri eitthvað í því. Tek verkjatöflur eða leita til læknis. Við erum stöðugt í fyrirbyggjandi aðgerðum til þess að fólk þurfi ekki að upplifa sársauka.

En er það endilega rétta leiðin?

Sársauki, hvort sem hann er andlegur eða líkamlegur, hlýtur að vera hluti af því að vera manneskja. Að finna til og vera særð, já og særa aðra er nokkuð sem ég kemst ekki hjá, frekar en annað fólk.

Ég fór allt í einu að skilja örvæntingu svangs fólks. Það eina sem hélt í mér lífinu var tilhugsunin um allt sem ég gæti borðað að dvölinni lokinni. Hvernig ætli það sé að fá aldrei nóg að borða og drekka?

Það sem mér þótti dásamlegast við dvölina í hofinu var að sjá hvað taílenskt fólk er fúst til að virkja andann. Það virtist fátt vera eðlilegra en að koma saman, biðja og hugleiða og ég var sú eina sem sá einhverja ástæðu til að rjúka með viðburðinn í blöðin.

Ég get ekki fullyrt um heilu þjóðirnar en mér virðist sem Taílendingar skilji mikilvægi þess að hafa ró í hjartanu. Eða eins og Suchitra Onkom segir í bókinni Creating a Sustainable World Peace: “Stríðið sem lýkur öllum stríðum er í raun baráttan innra með okkur sjálfum.” (Onkom, 2003:135.)