Óbirt grein frá Bangkok

Bangkok – þar sem allt er falt

„Pussy open a bottle show. Excuse me, madam, special price. What are you looking for?” Ég hvæsti nei út um samanbitnar varir en maðurinn lét sér ekki segjast og hélt áfram að bjóða mér hinar og þessar sýningar án þess að taka eftir því að þetta setti mig algjörlega úr jafnvægi. Þetta var í Patpong í Bangkok en ásamt því að vera mekka vændisiðnaðarins er þar jafnframt að finna einn stærsta næturmarkað Tælands. Ég lofaði sjálfri mér að þangað færi ég aldrei aftur.

Við vorum fimm saman á þvælingi, þrír strákar og tvær stelpur. Strákarnir þorðu ekki fyrir sitt litla líf að yfirgefa okkur stelpurnar því að hefðu þeir ekki okkur til að grípa í drukknuðu þeir í ágengum sölumönnum sem vildu selja þeim hvaða part kvenmannslíkamans sem var. Barnungar, fáklæddar stelpur reyndu með tælandi augnarráði að lokka okkur inn á skemmtistaði og alls staðar voru vændiskonur með tóm augu.

Bangkok er borgin þar sem allt er falt. Alls staðar eru sölumenn og sennilega fátt sem ekki er mögulegt að kaupa. Eftirlíkingar af helstu merkjavörum heims fáanlegar fyrir spottprís hvort sem um er að ræða fatnað, úr, skartgripi eða hvað annað sem hugurinn girinist.

Bækistöð bakpokaferðalanga

Borgin er jafnframt nokkurs konar bækistöð bakpokaferðalanga í suðaustur Asíu. Á Thanon Khao San safnast þeir saman, versla, djamma og hitta aðra bakpokaferðalanga sem eru annað hvort að hefja ferðalag sitt, ljúka því eða á leið í nýtt ævintýri. Á þessari litlu götu, sem er ekki lengri en eins og hálfur Laugarvegurinn, er ekki þverfótað fyrir sölumönnum, ferðamönnum og leigubílstjórum. Þar er umferð, mengun, fólk, tónlist, matarlykt, auglýsingar og í raun allt það áreiti sem hægt er að safna saman í eina götu. Flestir ferðamenn gefast upp eftir þrjá til fjóra daga í Bangkok og þrá fátt heitar en að komast út úr þessari hringiðu.

Svartasta hlið Bangkok er án efa vændisiðnaðurinn sem virðist síst fara minnkandi ár frá ári. Samkvæmt heimildum Lonely Planet rekur skelfileg fátækt fjöldann allan af konum og börnum út í vændi. Þá er einnig algengt að ættingjar selji börn og konur til iðnaðarins sem svo starfa við mjög svo nöturlegar aðstæður þar sem hættan á eyðnissmiti er gríðarleg og allt gengur út að nýta þau sem best til að hámarka gróðann. Það er mjög erfitt að gera sér grein fyrir umfangi barnavændis hér en samkvæmt tölum frá Barnaheillum Sameinuðu þjóðanna er meira en milljón börn þvinguð í vændi í Asíu.

En vændisiðnaðurinn þrífst ekki vegna þess að allt er til sölu. Vændisðinaðurinn blómstrar í Tælandi, sem og annars staðar, vegna þess að eftirspurnin er til staðar og eftirspurnin kemur úr vestri. Ábyrgð ferðamanna er því mikil og ég hvet alla sem fara á þessar slóðir til að hugsa sig vel um þegar ákveðið er í hvað peningunum skuli varið.

Vinaleg stemmning

Þrátt fyrir að sólin nái ekki að skína alls staðar í Bangkok þá hefur borgin svo sannarlega upp á margt að bjóða. Söfn, næturlíf, klaustur, veitingastaðir, nuddstofur, markaðir (þar á meðal einn fljótandi) og verslanir eru meðal þess sem gæti heillað ferðalanga. Í leit að friði og ró er hægt að koma sér fyrir í einum af fallegu görðum borgarinnar og skoða fólk eða lesa góða bók.

Sjálf fyllist ég , eins og margir bakpokaferðalangar, undarlegri heimatilfinningu þegar ég kem til Bangkok. Ég kom þangað fyrst fyrir tveimur árum og stoppaði þar nokkrum sinnum á ferð minni um Tæland. Það gladdi mig óneitanlega þegar ég kom aftur að allt skyldi vera svipað og áður enda fylgir því ákveðin öryggistilfinning að vita hvar hlutina er að finna. Þrátt fyrir allt brjálæðið er hér mjög vinaleg stemmning og svo sannarlega auðvelt að kynnast fólki sem hlýtur að teljast plús fyrir mig sem er ein á ferð. Nú er hins vegar kominn tími til að kveðja Bangkok og halda norður á bóginn og svo áfram til Laos þar sem umhverfið er án efa allt annað, hvort sem það er í landfræðilegum, menningarlegum eða pólitískum skilningi.