Grein um dvöl í Reykjafirði á Ströndum

Birtist í Morgunblaðinu, 8. ágúst 2005

 

Mánudaginn 8. ágúst, 2005 – Innlendar fréttir

Fram eftir og út eftir í Reykjafirði

Hornstrandir eru vinsælar hjá útivistarfólki þótt flestir landsmenn þurfi að leggja á sig langt ferðalag til að komast þangað. Halla Gunnarsdóttir eyddi verslunarmannahelginni í Reykjafirði nyrðri.

Kaupfélagið í Norðurfirði fyllist um leið og það er opnað eftir hádegismat eigendanna. Ég stekk inn og kaupi mér tannbursta á mun betra verði en í búðum verslanakeðjanna sem ekki kenna sig við lágvöruverð. Sædís IS 67 var að koma í höfn og komufarþegar blandast þeim sem eru að fara í smá tíma meðan töskum er hent til og frá. Göngustafir, bjórkassar, bakpokar, fótbolti og svefnpokar hverfa ofan í farangursrýmið undir öruggri verkstjórn Reimars Vilmundarsonar, eiganda Sædísar. Reimar er með áætlunarferðir milli Norðurfjarðar og Reykjafjarðar þrisvar í viku og siglir einnig með smærri hópa þegar þess er óskað.

Það er gott í sjóinn og enginn kvartar. Í Reykjafirði er milt veður eins og svo oft og á bryggjunni bíða bæði traktor og sexhjól sem ferja farangur nýkominna gesta fram fjörðinn. “Hér eru bara tvær áttir, fram eftir og út eftir,” segir staðkunnugur maður. Það er vissara að vera ekkert að þræta um það og nota orkuna frekar í að forðast að segja “inn eftir”.

Kríurnar bjóða okkur velkomin með tilheyrandi gargi og dýfingum. Prik eða hjálmar eru hið mesta þarfaþing á þessum árstíma. “Hvert fer krían á haustin?” spyr yngsti ferðalangurinn og á eftir koma fróðleiksmolar um þennan merkilega fugl sem flýgur nánast alla leið á Suðurskautið yfir vetrartímann.

Í Reykjafjörð liggja engir vegir en fjörðurinn fór í eyði í kringum 1960. Húsunum hefur þó verið haldið við og þar dvelur fólk allt sumarið auk þeirra fjölmörgu hópa sem koma við á ferðum sínum um Hornstrandir; gangandi, siglandi, fljúgandi eða ríðandi. Í firðinum er jarðhiti og heitasta laugin er 64 gráður. “Hér lærði ég að synda,” segir vinkona mín og bendir á heita sundlaugina en afabróðir hennar var einn helsti hvatamaður að byggingu hennar til að geta kennt sund á staðnum.

Álver í Reykjafjörð?

Næturstaður okkar er í fremsta húsinu í firðinum. Húsið er á tveimur hæðum en fyrir utan er lítið laugarhús með heitu hveravatni. Rafmagnsvél sér fyrir rennandi vatni þótt við reynum að takmarka notkun á því. Ekkert kalt vatn er í húsinu svo við drekkum kælt hveravatn en það finnst ekki á bragðinu.

Sundlaugin er aðeins örfáa metra frá húsinu og óskráð regla er að taka á sprett frá bæjardyrunum og lenda helst á rassinum í heitri lauginni. Liggja síðan í leti eins lengi og þolandi er en nýi heiti potturinn er líka vinsæll meðal fótalúinna ferðalanga.

Gangan að lengsta skriðjöklinum sem gengur úr norðanverðum Drangajökli tekur þrjá klukkutíma með “blaðamann og barn í eftirdragi”. Á leiðinni fræðumst við um örnefni fjarðarins sem eru sögð benda til þess að í firðinum hafi verið mörg býli sem hafi lagst af vegna framskriðs jökulsins eða rennslis óssins. Við göngum með vindinn í fangið bæði fram eftir og út eftir.

Þegar við nálgumst jökulinn finnum við kuldann sem leggur af honum. Það er vissara að stíga ekki upp á hann nema í fylgd með vönum leiðsögumönnum enda brýst jökuláin undan jöklinum og sprungurnar eru ýmist sýnilegar eða vel faldar.

Umræðurnar á göngunni eru fjörlegar og fara allt frá því að þræta um hvort fjörðurinn sé Reykjafjörður eða Reykjarfjörður og hvort fjólubláu blómin kallist eyrarósir eða eyrarrósir og yfir í hápólitískar rökræður um málefni líðandi stundar. “Eigum við ekki að setja stíflu þarna?” segir göngugarpur og bendir á ósinn, “svo getum við sökkt þessu svæði og byggt álver hérna aðeins neðar”. Hópurinn hlær og einn hótar að hlekkja sig við jökulinn.

“I am the glacier”

Fyrir nokkrum árum kom hópur Bandaríkjamanna í Reykjafjörð. Kona um fertugt fór fyrir hópnum sem var víst í miklu sambandi við náttúruna. Fólkið kom með kristal með sér og sagan segir að konan hafi tengst í ótal víra og fallið í nokkurs konar trans. Allt í einu breyttist röddin og hún byrjaði að tala fyrir hönd jökulsins. Hópurinn reif upp segulbandstæki og stóð agndofa. “I am the glacier,” sagði konan dimmri röddu og á eftir fylgdi heljarinnar ræða þar sem jökullinn hótaði því m.a. að flæða yfir allan fjörðinn ef mennirnir hegðuðu sér ekki almennilega og lifðu í sátt og samlyndi við náttúruna.

Fólk hafði misjafna trú á þessu uppátæki. Konan benti á einn stað í jöklinum þar sem krafturinn í honum væri mestur. Ári síðar sást greinilega að jökullinn var farinn að skríða á þessum sama stað.

Nýr bátur í maí

Á sunnudegi er rigning. Fjöruferð verður styttri en fyrirhugað var þar sem hjálmarnir gleymdust heima og kríurnar eru ekki kátar með tvífætlingana. Við tínum sveppi og fjallagrös og yngsti ferðalangurinn kemur á óvart með mikilli þekkingu sinni á meðhöndlun sveppa. Langbylgjan flytur okkur messu og helstu fréttir og sú yngsta minnist einu sinni á FM 95,7 en síðan ekki söguna meir. Við grillum alltof seint og borðum við kertaljós.

Sædís er ekki ólík sjálfri sér og Reimar er mættur í höfn stundvíslega kl. 11 á frídegi verslunarmanna. Farangurinn er öllu minni á bakaleiðinni en svo virðist sem sjórinn sé heldur úfnari. Reimar er á fleygiferð um bátinn enda stýrimaðurinn í fríi og áhöfnin því helmingi minni en venjulega. “Hvað varð um skipstjórann?” spyr taugaóstyrkur farþegi þegar Reimar er allt í einu kominn á gúmmíbát við hlið Sædísar. “Hann ætlar að skilja gúmmítuðruna eftir,” er svarið sem veitir stundarró.

Einhver sjóveiki gerir vart við sig en báturinn er engu að síður nokkuð stöðugur. Í brúnni fræðist sú yngsta um tækin sem þarf til að koma báti á leiðarenda, hæð yfir sjávarmáli og dýpt hafsins. Reimar segir frá nýja bátnum sem hann á að fá afhentan í maí. Sá tekur fjörutíu manns og fer enn hraðar yfir.

Á bryggjunni tekur á móti okkur hundurinn sem fylgdi okkur til skips fyrir nokkrum dögum. Og Kaupfélagið á Norðurfirði fyllist í smá tíma af kúnnum.

* Heimild og nánari upplýsingar:

http://www.vestfirðir.is