Grein frá Malí í vesturhluta Afríku
Birtist í Morgunblaðinu, 19. febrúar 2006

Leiðin til Timbúktú

Þrátt fyrir að margir þekki ekki höfuðborgina í Malí þá virðast flestir Íslendingar einhvern tíma hafa heyrt minnst á Timbúktú. Halla Gunnarsdóttir segir hér frá ferð sinni til þessarar eyðimerkurborgar sem oft er kölluð endapunktur veraldar.

Flugvöllurinn í Bamako, höfuðborg Malí í V-Afríku, ber það ekki með sér að vera alþjóðlegur flugvöllur. Það er mið nótt þegar ég stíg hikandi út úr vélinni og dreg andann djúpt. “Ætli þetta sé þessi lykt af Afríku sem fólk talar um?” hugsa ég en minni mig um leið á hvað Afríka er stór og að lyktin af flugvélabensíni eigi sennilega ekkert skylt við eyðimörk eða frumskóga.

Myrkrið gerir ókunnugleikann enn meira framandi en ég finn fyrir létti þegar alvarlegur maður stimplar vegabréfið mitt. Ég er stöðvuð við útganginn og beðin um kvittunina fyrir farangrinum. Ég leita og leita en finn hana hvergi. Flugvöllurinn er nánast orðinn mannlaus en ég stend eins og þvara með bakpokann minn og horfi bænaraugum á konuna í einkennisbúningnum sem talar enga ensku og franskan mín nær ekki lengra en að panta kaffi með mjólk.

Frönskumælandi Ástrali, búsettur í Marokkó, kemur mér til hjálpar og honum er vísað yfir til karlmanns sem fer kurteisislega fram á mútur fyrir að hleypa mér af flugvellinum með farangurinn. Að öðrum kosti hefur hann fundið upp mikla pappírsvinnu. Mér er það þvert um geð en rétti karlinum 2000 CFA franka sem nemur um það bil 200 íslenskum krónum. Hann brosir og býður mig velkomna til Malí.

Lýðræðisríki frá 1992

Malí er eitt af tíu fátækustu ríkjum heims og er mjög háð aðstoð frá erlendum ríkjum. Tveir þriðju hlutar íbúanna lifa undir fátæktarmörkum og ungbarnadauði er svo algengur að talið er að um tólf af hverjum hundrað ungbörnum deyi.

Malí var frönsk nýlenda frá 1880-1960 en þá tók við þrjátíu ára tímabil þar sem landinu var stýrt af misgáfulegum einræðisherrum. Mikil mótmæli áttu sér stað í upphafi tíunda áratugarins sem skiluðu landsmönnum nýrri stjórnarskrá og lýðræði sem margir álíta til fyrirmyndar fyrir önnur ríki V-Afríku.

Stjórnarskráin gerir ráð fyrir fjölflokkakerfi að því undanskildu að ekki er leyfilegt að stofna stjórnmálaflokk á grundvelli ákveðins menningarhóps, trúarbragða, svæðis eða kynferðis. M.ö.o. mætti kristilegur eða íslamskur flokkur ekki starfa í Malí og ekki gæti kvennalisti boðið fram til þings. Þjóðin kýs sér forseta á fimm ára fresti sem þó má ekki sitja lengur en tvö kjörtímabil. Forsetinn heitir Amadou Toumani Touré og var einn hershöfðingjanna sem leiddi uppreisnina árið 1991. Fjölmiðlar eru frjálsir í Malí og lagaumhverfi hvað varðar mannréttindi er talið gott.

Flestir íbúar Malí eru múslimar eða um 90%. Aðrir eru kristnir eða andatrúar. Franska er opinbert tungumál en það er annað eða þriðja tungumál flestra. Stærstur hluti talar bambara.

Malí er ríflega 1.200 ferkílómetrar sem gerir það tólf sinnum stærra en Ísland. Norðurhluti landsins er þó mestmegnis eyðimörk svo stærstur hluti þeirra 12 milljóna sem búa í landinu býr í syðri hlutanum. Bómull er helsta útflutningsvaran og efnahagurinn því mjög viðkvæmur fyrir heimsverði á bómull og viðskiptasamningum þar að lútandi.

Flestir landsmenn eru bændur eða veiðimenn en um 10% eru hirðingjar. Yfirvöld Malí stefna á frekari útflutning á gulli og nú þegar eru nokkur erlend fyrirtæki búin að hasla sér völl í gullnámum landsins.

Sætt eins og ástin

Bamako, höfuðborg Malí, fer sístækkandi enda færast flutningar úr sveit í borg sífellt í aukana. Í landbúnaðarhéruðunum eru næg verkefni hluta úr ári en ungt fólk ferðast oft til borganna í leit að nýjum tækifærum. Á hverju götuhorni eru sölumenn. Þótt betlarar séu margir á íslenskan mælikvarða geta þeir vart talist margir miðað við fátæktina í landinu. Áin Níger, önnur tveggja lífæða Malí, rennur í gegnum Bamako. Þar þvo konur þvotta og karlar sigla út til fiskveiða. Víðs vegar má sjá unga menn með saumavélar á öxlunum á leið til vinnu.

Ég spyrst fyrir um rútu til litla þorpsins Sibi suðvestur af Bamako. Fyrr en varir sit ég í litlum sendiferðabíl sem er með bekkjum meðfram veggjunum. Gólfflöturinn er á að giska sex fermetrar. Ég kem mér vel fyrir en smám saman fjölgar farþegum og ég er orðin klesst milli konu og karls sem bæði sitja með börn í fanginu. Ég hugsa með mér að nú komist varla fleiri inn enda erum við orðin sextán fullorðin í þessu litla rými. Ég er greinilega of bjartsýn því enn bætast sex manns í hópinn.
Meirihluti landsmanna býr í litlum þorpum með 500-2.000 íbúum. Sibi er eitt þessara þorpa. Ég kem út úr bílnum jafnvel ringlaðri en ég var þegar ég fór inn í hann og spyrst fyrir um Kamara fólkið sem býður víst upp á gistingu. Vegna takmarkaðrar frönskukunnáttu minnar horfa þorpsbúar bara undrandi á mig. Loks finn ég þó veg minn til hr. Seagu Kamara sem ræsir út eina af eiginkonunum sínum til að elda ofan í mig kvöldmat. Ég kem mér fyrir í litlum kofa með stráþaki og naga mig í handarbökin yfir að hafa gleymt vasaljósi. Hr. Kamara á þrjár eiginkonur en hann er ekki alveg viss um hvað hann á mörg börn. Hann er snjall maður og hefur í gegnum tíðina tekist að lokka til sín þó nokkra ferðamenn sem njóta kyrrðarinnar í þessu litla þorpi.

Mohamadu og Ben halda mér félagsskap á kvöldin en sá síðarnefndi talar örlitla ensku. Þeir hita te eftir kúnstarinnar reglum en venjan er að drekka þrjú glös. Það fyrsta er sterkt eins og lífið, næsta er sætt eins og ástin og það þriðja biturt eins og dauðinn. Mohamadu og Ben segja mér frá lífinu í Malí og ég segi þeim frá lífinu á Íslandi. Baráttan við hversdagsleikann sameinar okkur en ólíkir hversdagsleikar skilja okkur að.

Fyrstu nóttina í Sibi á ég mjög erfitt með að festa svefn. Kakkalakkarnir á kamrinum virðast hafa tekið sér bólfestu í huga mér. Hænunum þykir einstaklega skemmtilegt að vappa um á þakinu og ég á erfitt með að gera mér grein fyrir hvaðan öll þessi hljóð koma. Falski asninn og geitin sem búa fyrir utan hjá mér hjálpa ekki til.

Vegurinn til Bamako

Hr. Kamara færir mér dísætt te og brauð í morgunmat og sýnir mér litla fjallið sem þorpið státar af. Í Sibi snýst allt um veginn sem er verið að leggja frá Gíneu-Bissá til Bamako. Alþjóðabankinn leggur út fyrir framkvæmdunum en að öðru leyti er verkið í höndum fyrirtækis frá Túnis. Fjöldi fólks, þar á meðal félagi minn Ben, starfar við að leggja veginn sem átti að vera tilbúinn í fyrra en framkvæmdirnar munu líklega taka eitt ár enn. Ben segist vera orðinn þreyttur á þessari miklu vinnu og á fjarveru frá fjölskyldu sinni í Bamako. “Við vinnum myrkranna á milli en uppskerum frekar lítið,” segir hann alvarlegur.

Vegur í gegnum þetta litla þorp þykir ekki skerða lífsgæði íbúanna heldur einmitt auka þau til muna þar sem fólkið getur nú komið vörum sínum á markað með auðveldari hætti. Þessi vegur er líka ástæðan fyrir því að það tekur mig ekki nema einn og hálfan tíma að komast aftur til Bamako.

Ég skipti um rútustöð og undirbý mig andlega fyrir tólf tíma rútuferð til hafnarborgarinnar Mopti. Rútan er nokkuð þægileg, a.m.k. fyrir mig, en ég get ímyndað mér að það fari ekki eins vel um fólkið sem situr á gólfinu eða geiturnar sem er búið að koma fyrir uppi á þaki og í farangursrýminu. Fyrir aftan mig situr kona með hænu og ég minnist þess að hafa lesið á einhverri vefsíðunni að í Malí séu 22 milljónir kjúklinga.

Sagðist vera múslimi

Lífið við Níger setur mikinn svip á Mopti sem er miðstöð verslunar og þjónustu. Alls staðar eru sölumenn sem reyna að sannfæra ferðafólk um nauðsyn þess að eiga hina og þessa minjagripi eða um að kaupa teppi til að verða ekki of kalt á næturnar á leiðinni til Timbúktú.

Ég velti því lengi fyrir mér hvort það sé í alvörunni þess virði að fara til Timbúktú. Ferðin er löng og flestir ferðalangar segja að þar sé ekkert að sjá. Á móti kemur að á meðan fólk veit varla hvar Malí er þá kannast allir við Timbúktú.

Fyrr á öldum var Timbúktú tenging milli norður- og vesturhluta Afríku. Verslun var mikil og talið er að á 14. öld hafi verið þar virk bókaútgáfa.

Í hugum Evrópubúa hefur Timbúktú verið sveipuð ákveðinni dulúð. Árið 1824 hétu frönsk samtök peningaverðlaunum fyrstu manneskjunni sem ekki væri múslimi en kæmist til Timbúktú og til baka með upplýsingar um borgina. Tveimur árum síðar komst einn maður þangað en var drepinn af heimamönnum sem óttuðust evrópska íhlutun. Frakkinn René Caillé komst hins vegar bæði fram og til baka enda sagðist hann vera múslimi í hvert sinn sem hann var spurður.

Nú um mundir fer fjöldi ferðamanna til Timbúktú þótt það sé auðvelt að komast þangað en mun erfðara og dýrara að komast burt.

Siglingin til Timbúktú tekur a.m.k. fimm daga með almenningsbátum en sökum tímaskorts ákveð ég að ferðast með smærri báti ásamt öðrum ferðamönnum. Við gistum í tjöldum eða undir berum himni á bökkum Nígerárinnar. Dagurinn er tekinn snemma til að komast alla leið á þremur dögum.

Brauð með sandi

Timbúktú er svo sannarlega eyðimerkurborg. Jeppar spóla um eftir sandgötunum og húsin eru í sama lit og göturnar. Til allrar hamingju er klæðnaður fólksins í öllum regnbogans litum.

Mikil óöld geisaði í Timbúktú á tíunda áratugnum þegar eyðimerkurfólk af Tuareg-ættum gerði uppreisn í Malí og Níger í von um að stofna eigið ríki. Sættir náðust árið 1996 og af því tilefni voru vopn sem notuð höfðu verið í bardögum brennd. Tuaregar fá nú fjárhagsaðstoð og aðskilnaðarhreyfingar hafa misst mátt sinn.
Tuaregar setja mikinn svip á Timbúktú en þeir skipuleggja m.a. eyðimerkurferðir fyrir ferðamenn. Þeir eru flestir bláklæddir og harðir sölumenn en samt alltaf kurteisir og lágróma.

Í Timbúktú er sandur alls staðar. Ég er með sand í augunum, nefinu, eyrunum, hárinu, ofan í öllum vösum og meira að segja ofan í svefnpokanum. Smám saman venst ég því að hafa sand milli tannanna og á erfitt með að muna hvernig það var að borða sandlaust brauð.

Timbúktú er ekki beint miðstöð skemmtanalífsins. Klukkan tíu eru nánast öll ljós slökkt og erfitt að komast leiðar sinnar án vasaljóss. Á diskóteki bæjarins er einn táningur að dansa við amerískt hipphopp. Bjórinn kláraðist í gær og flöskurnar á barnum hafa staðið tómar vikum saman.

Þar sem ég stend í myrkrinu á diskótekinu, drekk vatn og horfi á amerískan vin minn dansa ásamt malíska táningnum geri ég mér grein fyrir að ég er ósammála þeim ferðamönnum sem sækja Timbúktú heim og snúa til baka ósáttir með hversu fátt er við að vera í eyðimerkurborginni. Þessi borg sem oft er kölluð endapunktur heimsins opnar líka dyr inn í Sahara-eyðimörkina. Hún er því upphaf og endir í sömu andrá.

Ég sakna þess að borða brauð með sandi.

Tónlistarhátíð í Sahara

ÉG sit aftan á opnum pallbíl. Lappirnar á mér eru blóðlausar enda fjögur pör af löppum ofan á þeim. Það eru sextán manns á pallinum og við erum löngu hætt að spá í hver á hvaða fætur.

Við erum á leið til Essakane, 65 km frá Timbúktú. Essakane er í Sahara en þar heldur hópur eyðimerkurfólks af Tuareg-ættum til. Árlega bjóða Tuaregarnir fjölda ferðamanna velkominn á tónlistarhátíð sem gengur einfaldlega undir nafninu Festival au Desert. Tónlistarfólk víðs vegar að úr Afríku treður upp og undanfarin ár hafa fleiri nöfn evrópskra listamanna bæst á þétta dagskrána.

Pallbíllinn ekur óþarflega hratt í gegnum eyðimörkina með þeim afleiðingum að “farmurinn” emjar þegar veltingurinn verður of mikill.

Að aka inn á hátíðarsvæðið er eins og að aka inn í aðra veröld.

Sandurinn er hvítur og silkimjúkur. Hvít, lágreist tjöld hýsa gestina en sumir kjósa að sofa utandyra í eyðimörkinni. Úlfaldar rölta letilega um, alls óstressaðir yfir úlfaldakappreiðinni sem er víst einn af hápunktum hátíðarinnar.

Á kvöldin tekur bjartur máninn við af sólinni og með endurvarpi frá sandinum og nokkrum einmana ljósastaurum lýsist svæðið nægilega mikið upp til að það sé auðvelt að komast leiðar sinnar.

Stemningin á tónlistarhátíðinni er góð enda kemur fólk alls staðar að úr heiminum til að taka þátt í viðburðinum. Hefði ég eitthvert vit á afrískri tónlist myndi ég eflaust njóta dvalarinnar enn betur enda skilst mér að þarna komi fram fjöldi þekktra afrískra tónlistarmanna.

Þrátt fyrir að rafmagnið fari reglulega af með þeim afleiðingum að lítið heyrist í tónlistinni og sandstormur setji örlítið strik í reikninginn virðist fólk almennt skemmta sér mjög vel á hátíðinni. “Ég kem aftur seinna,” segir ég og brosi kumpánlega til úlfaldans utan við tjaldið mitt. Ég er ekki frá því að hann hafi blikkað mig þegar ég klifraði upp á pallinn, tilbúin í blóðlausa fætur og alltof mikinn velting.

 

Helstu heimildir:

http://www.bbc.co.uk

http://www.cia.gov/

http://www.malifolkecenter.org/

http://www.ohchr.org/

http://www.worldbank.org/