Grein frá Laos
Birtist í Morgunblaðinu, 2. apríl 2004

Viltu vera memm?

HEIMSHORNA Á MILLI: Halla Gunnarsdóttir skrifar frá Laos

Náttúrufegurð, fátækt og lífsgleði eru þau þrjú orð sem koma fyrst upp í hugann þegar ég hugsa um dvöl mína í Laos. Ég myndi seint segja að ég hafi séð landið eins og það leggur sig enda eyddi ég aðeins tíu dögum þar.

Náttúrufegurð, fátækt og lífsgleði eru þau þrjú orð sem koma fyrst upp í hugann þegar ég hugsa um dvöl mína í Laos. Ég myndi seint segja að ég hafi séð landið eins og það leggur sig enda eyddi ég aðeins tíu dögum þar.

Í Laos ganga hlutirnir oft hægt fyrir sig og það getur verið erfitt fyrir Vesturlandabúa sem eru vanir miklum hraða að skilja hvers vegna skipulagið er ekki öðruvísi og nær okkar veruleika. Samgöngur eru víðast hvar erfiðar enda vegir ekki í besta ásigkomulagi og stærðarinnar fjöll helst einkennandi fyrir landslagið. Það getur tekið fjóra og jafnvel fimm klukkutíma að ferðast 150 kílómetra vegalengd svo að ferðalangar þurfa að hafa tímann með sér.

Laos er eitt af minnst þróuðu löndum Asíu og jafnframt eitt af fátækustu löndum heims. Árlegar tekjur á hvern landsmann nema um 260$ eða um 18.000 krónum. Saga landsins er löng og flókin en það státar af þeim vafasama titli að vera eitt mest sprengda land í heimi. Í Ameríska stríðinu, sem er betur þekkt sem Víetnamstríðið á Vesturlöndum, átti Laos að kallast hlutlaust land. Það aftraði hins vegar ekki Bandaríkjamönnum frá að láta sprengjum rigna yfir landið en samanlagt voru þær fleiri en þeir létu falla í allri seinni heimsstyrjöldinni. Ósprungnar sprengjur valda enn gríðarlegum skaða og frjósamar jarðir standa ósnertar. Það er óheyrilega dýrt og tímafrekt að sprengjuhreinsa landið og lítil hjálp kemur frá þeim sem upphaflega hentu sprengjunum.

Ferðast með “lókal”-rútu

Byggingar í höfuðborginni Vientiane eru oft illa farnar og það er vissara að hafa augun hjá sér því að í gangstéttum og vegum leynast oft óvæntar sprungur og jafnvel stærðarinnar holur.

Líkt og alvöru bakpokaferðalangur tók ég “lókal”-rútuna frá Vientiane norður til Vang Vieng enda mun ódýrara en að þvælast með túristarútum sem bjóða upp á meiri þægindi líkt og eitt sæti á mann. Í sömu ferð var verið að flytja stærðarinnar glerplötur og þeim var að sjálfsögðu komið fyrir á miðjum ganginum. Ég byrjaði því á að klifra um borð og var heppin að fá sæti við glugga. Þarna virtist gilda ein regla og hún var sú að engum skyldi vísað frá svo að ég prísaði mig sæla fyrir að sitja í kremju fremur en að standa alla leiðina.

Það er alltaf erfitt að lýsa náttúrufegurð. Rómantísku skáldin reyndu það á sínum tíma og hlutu titilinn rómantísk fyrir vikið. Vang Vieng er lítið þorp, umlukið fjöllum og hefur orðið nokkurs konar samkomustaður bakpokaferðalanga. Í gegnum þorpið rennur á sem ásamt því að vera helsta lífslind þorpsbúa býður upp á ýmiss konar afþreyingu fyrir ferðamenn. Kajakferðir eru vinsælar og við árbakkann er úrval veitingastaða þar sem leikin er afslappandi tónlist fyrir gesti. Vinsælast er þó að “tjúba” en það felst í því að ferðast niður ána á gúmmíslöngu og stoppa á börum á leiðinni í þeim tilgangi að neyta matar eða drykkjar. Sjálfri fannst mér skemmtilegast að leigja hjól og þvælast um smáþorpin í kring þar sem daglegt líf er öðruvísi en við eigum að venjast.

Að breyta heiminum

Frá Vang Vieng lá leiðin til Luang Prabang sem var höfuðborg Laos fram til ársins 1545. Í þetta skiptið splæsti ég á mig túristarútu en þessi leið er einstaklega torfarin og bílveikum því nokkur vorkunn. Luang Prabang er fallegur bær og franskra áhrifa gætir þar svo um munar enda var Laos frönsk nýlenda til margra ára. Í kringum bæinn er hægt að komast í góða snertingu við náttúruna, hvort sem farið er í gönguferð, hjólreiðatúr, siglingu eða bíltúr.

Það sem mér fannst erfiðast við dvölina í Laos var að sjá fátæktina þar og vera minnt á það enn og aftur hve lífsins gæðum er misskipt. Að sjá lítil börn horfa löngunaraugum á hvíta fólkið gæða sér á ávöxtum og öðrum munaði. Börn sem aldrei munu eiga sömu tækifæri og þau börn sem fæðast í okkar landi. Daglegt líf meirihluta landsmanna gengur út á að hafa í sig og á og það þýðir lítið að hafa áhyggjur af morgundeginum enda getur enginn vitað hvað gerist þá. Þrátt fyrir þetta og allt sem á undan er gengið eru landsmenn lífsglaðir og taka sérlega vel á móti gestum.

Á meðan ég gægðist inn um gluggann hjá Laosbúum og fann allar tilfinningarnar sem fólk með hjarta finnur á þessum slóðum var ekki laust við að ég velti fyrir mér hvað ég legg af mörkum til að breyta þessari veröld sem við lifum í. Jú, ég ræði málin, deili reynslu minni með öðrum og bölsótast jafnvel út í ríkisstjórnina fyrir lág framlög til þróunarmála. Ég læt jafnvel nokkrar krónur af hendi rakna til jólasöfnunar Hjálparstarfs kirkjunnar en þó ekki nærri eins mikið og ég hef möguleika á. Ég held nefnilega fast í aurana mína og bægi frá mér þeirri hugsun að með því að sleppa tveimur bjórum á barnum geti ég séð barni í þriðja heims ríki fyrir menntun.
Nú hef ég játað þetta fyrir alþjóð svo að næsta skref er að hætta að röfla eingöngu um hlutina og byrja að breyta því sem ég get breytt. Vilt þú vera memm?