Grein frá Kúbu
Birtist í Morgunblaðinu, 6. febrúar

Að lokinni Kúbudvöl

HEIMSHORNA Á MILLI: Halla Gunnarsdóttir kveður Kúbu

SPRETT úr spori á mannlausri, ósnortinni strönd, svamlað í náttúrulegu vatni í neðanjarðarhelli, flúið undan leðurblökum á leið út í sólsetrið, stungið sér í tæran sjó í skerjagarði og heimsókn í fangelsið þar sem Fídel Kastró var haldið föngnum. Eigi ég að mæla sérstaklega með einhverjum stað á Kúbu mæli ég svo sannarlega með Æskueyjunni sem liggur sunnan við Kúbu. Ferðamenn virðast ekki enn hafa uppgötvað eyjuna en mér segir svo hugur að leggi ég leið mína þangað aftur muni vart vera þverfótað fyrir ferðamönnum. Æskueyjan var jafnframt okkar síðasti áfangastaður á Kúbu áður en haldið var til Havana og þaðan til baka til meginlands Evrópu. Því var ekki laust við að á leið frá eyjunni færi hugurinn á fullt við að vinna úr allri þeirri reynslu sem ég hef öðlast undanfarinn mánuð.

Einu sinni hélt ég að það að ferðast væri að sjá sem flesta staði á sem minnstum tíma og helst í eins mörgum löndum og mögulegt. Í dag finnst mér hins vegar það magnaðasta við ferðalög að kynnast alls konar fólki með ólíkan bakgrunn og reynslu. Hvort sem það var við landbúnaðarstörf úti á akri eða yfir rommglasi á barnum þá hefur tækifærið til að kynnast Kúbönum reynst mér ómetanlegt. Að auki hefur hefur þriggja vikna dvöl í brígöðunni, vinnu- og fræðslubúðum, gefið mér hugmyndir um það pólitíska andrúmsloft sem ríkir á Kúbu í dag.

Ræðuhöld eru stærri partur af daglegu lífi á Kúbu en ég hef nokkurs staðar orðið vitni að. Á ótrúlegustu stöðum eru hljóðkerfi og ekki hægt að segja að þau séu vannýtt. Á vinnustöðum eru reglulega haldnar ræður um hvernig gengur og hversu vel starfsmenn hafa staðið sig og stundir þurfa ekki að vera sérlega hátíðlegar til að haldin sé eins og ein ræða. Á áramótagleðinni í búðunum þótti engin ástæða til að ljúka ræðunni fyrir miðnætti heldur var áramótunum bara fagnað með látum þegar sjö mínútur voru liðnar af nýja árinu.

En hljóðkerfin eru ekki einungis nýtt til ræðuhalda. Þar sem nokkrir Kúbanir eru saman komnir er alltaf tónlist og þar sem er tónlist, þar skal dansað. Á Kúbu er enginn alvöru töffari nema geta dansað salsa. Við Evrópubúarnir gerðum misvelheppnaðar tilraunir til að dansa með og oftar en ekki færðist undrunarsvipur yfir dansfélaga mína en þeim þótti lítið koma til stirðbusalegra hreyfinga minna.

Það umhverfi sem mætti okkur í Havana var ólíkt því sem við vorum orðin vön eftir þriggja vikna dvöl í búðunum og í þeim ferðum sem þar boðið var upp á. Í Havana er mikið kapphlaup um lífsins gæði. Þrátt fyrir að allir Kúbanir fái þak yfir höfuð og helstu lífsnauðsynjar duga lág laun þeirra engan veginn fyrir því sem þar gætu kallast þægindi en við myndum eflaust kalla nauðsynjar. Þess vegna þarf að selja það sem selt verður og ferðamenn fara ekki varhluta af því.

Stöðugt áreiti

Það getur verið erfitt að kynnast Kúbönum sem ferðamaður og til eru dæmi um að lögreglan stöðvi samræður milli heimamanna og útlendinga. Hefði ég ekki eignast kúbanska vini í búðunum hefði mynd mín af þjóðinni án efa verið allt önnur. Á ferðamannastöðum er t.a.m. stöðugt áreiti kúbanskra karlmanna sem virðast gera allt til að fá athygli kvenpeningsins. Þeir hrópa á eftir konum en hljóðin sem þeir senda frá sér gefa helst til kynna að þeir séu að kalla á gæludýr og því er jafnvel fylgt eftir með ljótum orðum sýni konan þeim ekki athygli. Þetta stöðuga áreiti ásamt ágengum sölumönnum eru verstu gallar Kúbu sem ferðamannastaðar.

Það sem þó stendur upp úr er að Kúba er fallegt land með magnaða sögu og blómstrandi menningarlíf. Þannig hefur hún upp á eitthvað að bjóða fyrir alla. Hvort sem um er að ræða áhugamenn um kommúnisma, náttúruunnendur, sögugúrú eða bara venjuleg partídýr þá ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Sé kúbanska fólkið sem ég hef haft kynni af á einhvern hátt lýsandi fyrir þjóðina í heild myndi ég segja það lífsglatt, ákveðið og skemmtilegt fólk sem aldrei yrði þekkt fyrir að sitja kyrrt þegar salsatónlist er annars vegar. Það er því með ákveðnum trega að ég kveð Kúbu en hugga mig við það að hingað get ég komið aftur, þó að ekki sé nema til þess eins að komast að því að Æskueyjan sé orðin yfirfull af amerískum túristum.