Grein frá Kúbu
Birtist í Morgunblaðinu, 30. janúar 2004

Ósáttir nágrannar

Heimshorna á milli: Halla Gunnarsdóttir skrifar frá Kúbu um nágrannaerjur

Englendingur í Che Guvera-bol sat við hlið mér á sundlaugarbakka á hóteli í Pinar del Rio sem er mikill ferðamannabær í austurhluta Kúbu. Í miðju samtali okkar um heimsins vanda benti hann mér á tvo kúbanska unglingsstráka sem báðir voru með klút um höfuðið í amerísku fánalitunum. Þetta varð efni mikillar umræðu um samskipti Bandaríkjanna og Kúbu og muninn á róttæku ungu fólki á Kúbu annars vegar og í okkar vestræna veruleika hins vegar. Þriggja nátta dvöl okkar á þessu hóteli var hluti af þriggja vikna dagskrá fertugustu norrænu brígöðunnar en hátt í 160 manns taka þátt í henni að þessu sinni. Árlega heimsækir fjöldi fólks Kúbu í sama tilgangi og við en ásamt því að fá fræðslu um afrakstur byltingarinnar fáum við innsýn í landbúnaðarstörf á Kúbu og leiðsögn um merkustu staði í Havana og nágrenni. Í ár eru einmitt 45 ár síðan byltingin náði fram að ganga hér í landi og hafist var handa við uppbyggingu ríkis með hugmyndafræði kommúnisma og sósíalisma að leiðarljósi.

Ósætti í áraraðir

Það er kannski ekki svo undarlegt að Kúbönum séu samskipti við Bandaríkin hugleikin en það hefur andað köldu milli þessara ríkja í áraraðir. Viðskiptabann Bandaríkjanna hefur reynst Kúbu þungur baggi og siðapostulatilhneiging heimsveldisins hefur ekki skilað friðsamlegum samskiptum við Kúbu fremur en við mörg önnur lönd heims. Að auki standa ríkin fyrir alls ólíka pólitík og aðferðirnar við að ná jöfnuði kommúnismans samræmast engan veginn kapítalískum hugmyndum um frjálsan markað og mikilvægi einstaklingsframtaksins.

Bandaríkin hafa verið hörð í gagnrýni sinni á mannréttindabrot á Kúbu en það verður að teljast tvíbent afstaða að mótmæla slíkum brotum þar á meðan mannréttindabrot í Bandaríkjunum eru látin óátalin. Núna sitja fimm Kúbanar í fangelsi í Bandaríkjunum en fyrir nokkrum árum voru þeir sendir á vegum kúbönsku ríkisstjórnarinnar til að rannsaka hryðjuverkasamtök á Miami sem samanstanda af Kúbönum sem hafa andúð á Fídel Kastró og öllu sem hann stendur fyrir. Mennirnir komust á snoðir um fyrirhuguð hryðjuverk sem áttu að beinast gegn Kúbu og var þá haft samband við bandarísk yfirvöld vegna málsins með von um samstarf. Það fór þó ekki eins og við var búist en mennirnir voru handteknir og ákærðir fyrir njósnir og hryðjuverkamennirnir látnir óáreittir. Lög og reglur um réttarhöld voru brotin í málsmeðferðinni og mennirnir voru allir dæmdir í lífstíðarfangelsi og gott betur en það en lengsti dómurinn var tvöfaldur lífstíðardómur og 15 ár að auki. Það er rétt benda á að hver sem tilgangur mannanna hefði hugsanlega getað verið þá höfðu þeir engan skaðað og þetta hljóta því að teljast nokkuð þungir dómar. Mikil samstaða hefur skapast á Kúbu um að berjast fyrir málstað mannanna fimm og er sérstök áhersla lögð á að aftur verði réttað í málinu og þá annars staðar en í Miami þar sem andstaða við Kúbu er einna mest.

Mannréttindabrot á Kúbu

Þetta breytir því þó ekki að á Kúbu eru mannréttindi jafnframt brotin en þegar brígadistar hafa spurst fyrir um þau ganga svörin iðulega út á að benda á mannréttindabrot annars staðar í heiminum. Því er svo fylgt eftir með fögrum orðum um öll þau réttindi sem Kúbanir hafa sem aðrar þjóðir búa ekki endilega við og einn fyrirlesari sagði vaxandi atvinnuleysi vera eitt helsta mannréttindabrot í Evrópu. Ef menn eru dæmdir í fangelsi eða til dauða hér í landi þá hljóta að vera einhverjar ástæður fyrir því og kúbönsk yfirvöld verða að standa með þeim ástæðum ætli þau að halda trúverðugleika.

Það er óskandi að Kúba og Bandaríkin geti tekið upp friðsamlegri samskipti en til þess að það verði þarf mikið vatn að renna til sjávar. Yfirvöld landanna tveggja þurfa að mætast á jafningjagrundvelli með það að leiðarljósi að bæði ríki geti hagnast á betri samskiptum.