Grein frá Kúbu
Birtist í Morgunblaðinu, 23. janúar 2004

Á byltingarslóðum

HEIMSHORNA Á MILLI: Halla Gunnarsdóttir tínir appelsínur á Kúbu

Tilfinningarnar sem bærast í brjóstinu þegar lagt er af stað í margra mánaða ferðalag eru um margt erfiðar. Spennan yfir því sem framundan er blandast óttanum við hið óþekkta. Framundan er mánaðardvöl á Kúbu og svo flug aðra leiðina til Bangkok sem verður mín helsta heimahöfn á ferðalagi um Suðaustur-Asíu.

Ætlunin er að dvelja í þrjár vikur í kúbönskum vinnubúðum og ferðast svo í tíu daga á eigin vegum. Búðirnar kallast Brígaða og eru kenndar við Julio Antoniomella sem barðist fyrir kúbanska stúdenta og verkalýð og var myrtur í Mexíkó vegna stjórnmálaskoðana sinna árið 1929.

Misjöfn viðhorf til kommúnisma

Á vinnudögum er unnið í fjóra klukkutíma við ýmiss konar störf, s.s. við að tína appelsínur eða baunir, snyrta tré, hreinsa steina af akri og aðstoða við byggingarvinnu. Eftir hádegi og á kvöldin fáum við fræðslu um sögu Kúbu og innsýn í einstakt menningarlíf Kúbana sem einkennist af dansi og söng. Að auki förum við í skoðunarferðir. Hér eru tæplega 160 manns frá Evrópu á öllum aldri, þar á meðal þrír frá Íslandi. Við erum í vernduðu umhverfi. Búðirnar eru afgirtar og öll þjónusta til taks, s.s. læknir, hjúkrunarfræðingur, tannlæknir, öryggisverðir og fleira. Hver hópur hefur aðgang að túlki sem jafnframt býður fram aðstoð sína ef eitthvað vantar.

Það sem er einna mest spennandi við þessa dvöl er að fá tækifæri til að öðlast þekkingu á kúbanskri sögu, stöðunni á Kúbu í dag og kynnast Kúbönum. Þó þarf að sjálfsögðu að huga að því að hafa gagnrýnin gleraugu á nefinu þar sem það er alfarið í höndum skipuleggjenda búðanna hvaða fræðslu brígadistarnir fá.

Vestrænir fjölmiðlar hafa oftar en ekki verið fremur einhliða í umfjöllun sinni um Kúbu. Í íslenskum fjölmiðlum hefur til dæmis verið talað um ógnarstjórnina á Kúbu en sambærileg lýsing fylgir sjaldnast fréttum af stjórnvöldum annarra landa. Kúba er ýmist kennd við kommúnisma eða sósíalisma, en hér er vanalega talað um sósíalisma. Á Vesturlöndum er þó yfirleitt talað um Kúbu sem kommúnískt svæði en kommúnisminn, líkt og aðrar pólitískar stefnur, á sér blóðuga sögu. Þess vegna er algengt að alið sé á ótta gagnvart þessari pólitík sem boðar frið og jöfn kjör án þess að það markmið hafi nokkurs staðar náðst. Þetta hefur litað viðhorf vestræns almennings til Kúbu en ofan á það bættist hræðsluáróður þeirra sem auðinn áttu en hann átti rætur sínar að rekja til óttans við að missa auðæfi sín og um leið völdin sem þeim fylgja.

Samstarf fremur en samkeppni

Á hinn bóginn hafa verið, og eru, gróf mannréttindabrot framin í því skyni að fá kommúnismann til að ganga upp. Tjáningar- og ferðafrelsi hefur verið heft og ríkisvaldið verið með nef sitt ofan í einu og öllu. Hvort sem það er af þessum sökum eða öðrum þá flýja margir Kúbanir til annarra landa og bíða þess eins að Kastró syngi sitt síðasta í von um að þá verði annars konar stjórnunarhættir teknir upp.

Hér í búðunum er mikið lagt upp úr að öllum líði vel. Leiðtogarnir bjóða okkur velkomin með brosi sem nær til augnanna og sífellt erum við minnt á að við séum að vinna saman og að við eigum að búa hér sem ein stór fjölskylda. Þannig verður hugmyndin um samstarf fremur en samkeppni strax ofan á sem er kannski ekki það við erum vön í hinum vestræna veruleika.

Þegar við vorum boðin velkomin tjáði forstöðumaður búðanna okkur að við ættum ekki að fara til heimalanda okkar og segja Kúbu vera paradís á jörð því að það væri fjarri lagi. Hins vegar væri hér margt gott og í einlægni bað hann okkur að koma með opinn huga og segja svo fólki frá upplifun okkar. Það er því ætlun mín að verða við þessari ósk hans og fyrsta skrefið er að opna hugann og ýta burt hugmyndum um að kommúnismi sé annaðhvort alvond einræðisstefna eða fullkomin samhjálparstefna.