Grein frá Kambódíu
Birtist í Morgunblaðinu, 14. maí 2004

Uppbygging fyrirmyndarríkisins Angkar

HEIMSHORNA Á MILLI: Halla Gunnarsdóttir skrifar frá Kambódíu

Kambódía. Það er eitthvað við þetta land sem ég næ ekki alveg utan um. Þrisvar sinnum hef ég sest niður og byrjað að skrifa grein en aldrei finnst mér takast nógu vel til. Ég veit ekki hvernig er hægt að lýsa landi, sögu og þjóð.

Kambódía. Það er eitthvað við þetta land sem ég næ ekki alveg utan um. Þrisvar sinnum hef ég sest niður og byrjað að skrifa grein en aldrei finnst mér takast nógu vel til. Ég veit ekki hvernig er hægt að lýsa landi, sögu og þjóð. Það er alla vega erfitt að skilja þjóð án þess að vita nokkuð um sögu hennar. Og hver er ég svo sem? Tuttugu og þriggja ára gamall Íslendingur. Aldrei upplifað nokkuð sem minnir á stríð og skil varla hugtakið herþjónusta.

Um það leyti sem ég fæddist var borgarastyrjöld í Kambódíu. Víetnömum hafði tekist að stöðva aðgerðir Rauðu khmeranna sem miðuðu að uppbyggingu fyrirmyndaríkisins Angkar. Khmeri þýðir í raun Kambódíubúi en Rauðu khmerarnir voru kallaðir rauðir því þeir kenndu sig við kommúnisma.

Fyrirmyndarríkið Angkar

Markmið Rauðu khmeranna voru skýr. Fólk skyldi flytjast úr borgum og á samyrkjubú á landsbyggðinni. Kambódía átti að vera sjálfbært land án allra samskipta við umheiminn. Ung sem öldruð áttu að vinna saman og öll skyldu vera jöfn. Persónulegar eigur voru bannaðar og allir þegnar settir í eins föt. Khmerar sem á einn eða annan hátt gátu ógnað Angkar voru fangelsaðir, pyntaðir og drepnir. Innan þess hóps var allt menntafólk samfélagsins. Skólum var lokað og byggingarnar sums staðar notaðar sem fangelsi eða pyntingar- og útrýmingarbúðir. Heilsugæsla var engin. Í fjögurra ára valdatíð Rauðu khmeranna létu á milli ein og þrjár milljónir manna lífið, ýmist úr sjúkdómum og hungri eða í áðurnefndum pyntingar- og útrýmingarbúðum.

Þrátt fyrir að Víetnömum, í samstarfi við fyrrum Rauða khmera sem annaðhvort fengu bakþanka eða óttuðust um líf sitt, tækist að hrekja Rauðu khmerana frá völdum árið 1979 var friður ekki í sjónmáli. Rauðu khmerarnir fengu stuðning frá Bandaríkjunum og fleiri löndum sem töldu “kommúnistaógnina” í Víetnam hræðilegri en þá í Kambódíu. Við tók áralöng borgarastyrjöld með tilheyrandi hryðjuverkum.

Það var ekki fyrr en árið 1998 að formlegur friður komst á. Eina leiðin var að hafa Rauðu khmerana með í friðarferlinu og leyfa þeim að taka þátt í myndun ríkisstjórnar.

Spilling í vegi fyrir framförum

Ég veit hreinlega ekki hvernig er mögulegt að skilja þjóð sem hefur gengið í gegnum jafn miklar hörmungar og khmerarnir hafa gert. Þetta voru nefnilega ekki bara khmerar, Rauðir khmerar, hópar, menntafólk, hermenn o.s.frv. Þetta voru manneskjur eins og ég og þú. Manneskjur sem höfðu átt nokkuð eðlilegt líf áður en hörmungarnar dundu yfir.

Gistiheimiliseigandi með góðlátleg augu sagði mér t.d. að hann hefði barist fyrir Rauðu khmerana og síðar snúið sér að pólitík. Sama dag borðaði ég dýrindis kvöldverð matreiddan af þernu sem hafði horft á manninn sinn pyntaðan og drepinn. Hann var jú kennari. Sjálf endaði hún betlandi á götunni þar til kona nokkur bauð henni húshjálparstarf.

Ógurlegu atburðirnir í Kambódíu höfðu áhrif á allt fólk sem lifir þar í dag. Þjóðin er að byggja upp mennta- og heilbrigðiskerfi á nýjan leik. Hlutirnir ganga þó oft hægt fyrir sig þar sem spilling innan ríkisstjórnarinnar er gríðarleg. Fæstir skipta sér af stjórnmálum af hugsjón heldur einungis vegna eigin hagsmuna.

Hvort sem það er vegna sögunnar eða fleiri áhrifaþátta þá er kambódíska samfélagið það allra undarlegasta sem ég hef komist í tæri við. Heimilisofbeldi, mansal og vændi er daglegt brauð. Fátækt og neyð almennings auðveldar kynlífsþrælahöldurum að lokka stúlkur í vændisiðnaðinn með gylliboðum um starfsframa í borginni. Fátækar fjölskyldur selja jafnvel dætur sínar til slíkra manna og yfirmaður grunnskóladeildar menntamálaráðuneytisins í ákveðnu héraði er jafnframt vændismiðlari.

Fyrir tilstuðlan samtaka eins og Cambodian Women’s Crisis Center hefur lögreglan aukið eftirlit með misnotkun á börnum yngri en 15 ára. Að öðru leyti lætur hún flest annað afskiptalaust nema þá henni sé mútað til þess að aðhafast eitthvað. Sá eða sú sem er handtekin/-n getur keypt sig út úr vandanum ef aurarnir eru fyrir hendi. Ferðamenn, og þá helst karlar, virðast jafnframt styðja þennan vafasama bransa og hika ekki við að kaupa konur og jafnvel börn til að uppfylla eigin óra. Þeir tala oft opinskátt um reynslu sína og telja sig vera að styrkja fátæka og aðlagast menningu khmeranna.

Vændi og eiturlyf

Eiturlyfjatúrismi hefur jafnframt snaraukist og gömlum konum er jafnvel boðið gras til sölu ef þær aðeins eru hvítar. Þannig einkennist ferðamennska í Kambódíu af einhvers konar kaóisma þar sem venjulegasta fólk borðar “hamingju”pítsur (kryddaðar með maríjúana) og óheyrilegur fjöldi fólks styrkir vændisiðnaðinnn.
Þrátt fyrir allt og allt býr einhver ólýsanleg lífsgleði og þrautseigja hjá kambódísku þjóðinni. Ótal samtök eru starfrækt til að bæta ástandið og hjálpa þeim sem eru í mestri neyð. Þótt það sé eflaust langt í að Kambódía losni við spillingu virðist sem meðvitund sé að aukast. Fólk er smám saman að gera sér grein fyrir að meðan ríkir geta keypt sig inn og út úr öllu sem þeim hentar situr fátæka fólkið eftir á botninum. Þannig heldur spillingin fólki í fjötrum fátæktar og gerir það að verkum að aldrei er tekið á raunverulegum vandamálum.

En þótt ég, líkt og svo margir ferðamenn, sé heilluð af brosmildi þjóðarinnar er ekki laust við að ég velti fyrir mér hvort bros þeirra og hlátur séu í raun eina leiðin til að lifa af.