Feneyjar: Sveimað um síki

Grein um Stuðmannaball í Feneyjum
Birtist í Morgunblaðinu, 7. september 2005

Sveimað um síki

„UM SÍKIÐ sveima og læt mig dreyma um gondóla,“ segir í texta við Stuðmannalagið „Söng fjallkonunnar“ en segja má að textinn hafi ræst sl. helgi þegar Stuðmenn sóttu Feneyjar heim. Hátt í tvö hundruð Íslendingar fylgdu þeim og tóku þátt í galaveislu og grímudansleik í 14. aldar byggingu. Þetta var alvöru ferð með alvöru Íslendingum. Það var partístemmning í flugvélinni og klappað þegar vélin lenti á Marco Polo-flugvellinum í Feneyjum um miðjan dag sl. föstudag. Bílrúðan sem þurfti að skafa þegar lagt var af stað frá Íslandi gleymdist fljótt í 29 stiga hita og barinn við hliðina á hótelinu fékk strax viðurnefnið „næsti bar“. Gott að hafa örnefnin á hreinu þegar maður er á erlendri grundu.

Það tók lengri tíma að útskýra fyrir Íslendingi sem ekki tilheyrði hópnum að Stuðmenn væru í alvörunni komnir til Feneyja til að spila á dansleik. „Hver skipuleggur þetta?“ spurði hann undrandi og við útskýrðum að ferðaskrifstofan Príma Embla hefði haft samband við Stuðmenn og nú væri brjálæðisleg hugmynd orðin að veruleika.

Stuðmenn voru ekki einu stórstjörnurnar sem heimsóttu Feneyjar þessa helgi. Alþjóðleg kvikmyndahátíð setti sinn svip á eyjarnar. Jeremy Irons heilsaði kumpánlega við morgunverðarborðið og Renée Zellweger splæsti vatni á lífverðina sína á „næsta bar“. Sagan segir að hún hafi hreinlega reynt við (þ.e. verið á sama stað á sama tíma) Ásgeir Óskarsson, trommuleikara Stuðmanna, sem var einmitt við barinn að sækja drykki fyrir sig og konuna sína. „Ég vissi nú bara ekkert hver þetta var,“ sagði Ásgeir í samtali við Morgunblaðið og kannski ekki að furða enda leit Zellweger út fyrir að vera u.þ.b. 50 kílóum léttari en hún var í hlutverki Birgittu Jóns (e. Bridget Jones). Þegar Íslendingar rákust hver á annan á förnum vegi ræddu þeir auðvitað hvaða fræga fólk þeir „hittu“ yfir daginn og ætla má að Íslandsvinum hafi fjölgað til muna.

Dansað eins lengi og mátti
Galakvöldverðurinn og dansleikurinn á eftir heppnaðist einstaklega vel. Fólk var uppstrílað og margir höfðu leigt sér búninga fyrir tilefnið. Allir fengu grímur til að bera og þjónustan var í samræmi við umgjörðina. Dansað var eins lengi og dansa mátti en þegar búið var að klappa Stuðmenn þrisvar sinnum upp höfðu borist jafn margar kvartanir enda er víst bannað að leika músík eftir miðnætti í Feneyjum.

Aðspurður um stemmninguna í ferðinni sagði Jakob Frímann Magnússon hljómborðsleikari að þetta væri ein skemmtilegasta ferð sem Stuðmenn hefðu farið enda borgin glæsileg sem og föruneytið. Ekki er ofsögum sagt að allir aðrir Feneyjafarar hafi verið á sama máli enda var bros á nánast hverju andliti þegar haldið var heim á leið seint á sunnudagskvöld.

Prev PostViðhorf: Frelsið er yndislegt
Next PostViðhorf: Ert þú femínisti?