Þingbréf

Birtist í Morgunblaðinu, 20. desember 2008

 

Frábærar ræður og algert djók

Þessir dagar eru langir á Alþingi. Sagan segir að met hafi verið slegið í fjölda nefndarfunda á einum degi í vikunni sem leið og þingmenn eru sumir hverjir ósofnir eftir að hafa legið yfir þingskjölum fram á nótt og mætt síðan snemma morguns á nefndarfundi. „Það verður Þorláksmessufundur,“ segja menn stórkarlalega hver við annan og rifja upp gamla tíma, sem eru reyndar ekki svo langt að baki, þegar þingmenn héldu aldrei í leyfi öðruvísi en að fundað væri stíft fram á nætur og undir morgun. Ótakmarkaður ræðutími var nýttur til hins ýtrasta af málglaðri stjórnarandstöðu, sem þó þvertók oftast fyrir að um málþóf væri að ræða. Það þyrfti einfaldlega að ræða málin ítarlega.

Þótt ég viðurkenni að mér finnist vertíðarstemningin lúmskt skemmtileg þá flækir hún óneitanlega allan jólaundirbúning og það sem kynni að kallast eðlilegt fjölskyldulíf. Og einhvern veginn virðist vertíðarkátínan vera mest hjá þeim sem bera litla ábyrgð á öðru en vinnunni sinni.

Slagsíða í allar áttir

Ég er ekki frá því að dálítils svefngalsa verði stundum vart. Þannig kom það mér a.m.k. fyrir sjónir þegar Gunnar Svavarsson, formaður fjárlaganefndar, vísaði í umræðum um fjárlög til sinnar eigin ræðu með þeim orðum að hún hefði verið frábær. Guðjón Arnar Kristjánsson lauk síðan ræðu sinni glottandi með því að kalla framlag sitt sérstaklega frábært og hnýtti hann í leiðinni í Gunnar fyrir að dásama einskis ágæti nema sitt eigið. Gunnar veitti þá andsvar og þakkaði Guðjóni Arnari fyrir frábæra tímamótaræðu sem hefði verið ódauðleg í alla staði og að auki kröftuglega flutt!

Það spurði mig þingmaður í vikunni hvort mér fyndist ekki skrítið að eyða deginum með fólki sem ég ætti síðan að skrifa um. Ég svaraði því til að ég fyndi ekki mikið fyrir því nema ef vera skyldi í aðdraganda kosninga. Þá ættu stjórnmálamenn stundum til að vera dálítið hörundsárir og dregnar væru ótrúlegustu ályktanir af fréttum eða fréttaljósmyndum.

Þannig hef ég verið sökuð um að ganga ólíkustu erinda. Á tímabili héldu margir að ég væri náskyld þáverandi ritstjóra Morgunblaðsins og þá heyrði ég ýmsar sögur af því hvernig ég, sem hluti af ættarveldinu, gengi erinda íhaldsaflanna í mínum skrifum. Á hinum endanum var svo fólkið sem kenndi mig við villta vinstrið og sá mikla slagsíðu í öllu sem frá mér kom.

Ég hafði varla sleppt orðinu við þingmanninn þegar mér var bent á að á einhverjum vefmiðlinum væri langsótt samsæriskenning um meinta tilraun mína til að koma höggi á Davíð Oddsson með myndbirtingu með frétt um eftirlaunafrumvarpið. Ég gat ekki annað en hlegið. Það mætti halda að kosningar væru í nánd.

Allsherjar djók

Umræða spannst um það fyrr á árinu að þingmenn fengju að lesa ræður sínar yfir og breyta þeim áður en þær birtast á Alþingisvefnum. Þetta sætir furðu, enda hljóta þingtíðindi að eiga að birta ræður eins og þær eru, ekki eins og væri gott að þær hefðu verið.

Ekki veit ég hvort Siv Friðleifsdóttir hefur sjálf haft milligöngu um breytingu á orðalagi í ræðu sinni í vikunni en í þinginu spurði hún hvort umræða um fjárlög ætti að vera eitt allsherjar djók. Á vef Alþingis er hins vegar ritað „allsherjar grín“ en síðar í ræðunni er djók sett innan gæsalappa með tilvísun Sivjar í að þannig tali unglingar.

Þessi orðalagsbreyting er hins vegar algert djók. Þó að ég elski íslenska tungu þá er bara allt í lagi að djóka af og til.