Þingbréf: Íslenskt mál, áfengi og Stjörnustríð

Þingbréf

Birtist í Morgunblaðinu, 13. desember 2008

 

Íslenskt mál, áfengi og Stjörnustríð

Þingvikan fór af stað með miklum látum þegar hópur fólks ruddist inn í þinghúsið og vildi á þingpalla. Þingverðir reyndu að varna þeim inngöngu og uppskáru marbletti og bólgnar hendur. Tveir mótmælendur komust inn og gerðu hróp að þingmönnum en aðrir voru í stigaganginum og þaðan heyrðust mikil læti. Mótmælendur fyrir utan þinghúsið sögðu að þeir hefðu bara viljað komast inn en verið stöðvaðir. Lýðræðið virkaði ekki og lögreglan væri fasísk. Reiðin var mikil, mætti jafnvel tala um heift.

Nú hef ég orðið vitni að því að einstaka lögreglumaður bregðist hranalega við, fremur en vinalega, í skyldustörfum og það getur fengið blóðið til að þjóta í reiðum mótmælendum. En þegar kemur að þingvörðum þá þykist ég vel geta fullyrt að þeir eru seinþreyttir til vandræða og fara sannarlega ekki fram með látum.

Það verður líka að segjast að árás á Alþingishúsið mun seint bæta lýðræðið. Hingað til hefur fólk getað komið á þingpalla hvenær sem þingfundur er í gangi án þess að þurfa að fara í gegnum stranga öryggisgæslu. Og þannig viljum við hafa það.

Óðagot í áfengismáli

Á fimmtudag stefndi í að ég kæmist úr vinnu á kristilegum tíma og ég hugsaði mér gott til glóðarinnar að ná að lyfta mér aðeins upp á jólagleði rithöfunda. En þegar ég hélt að slíta ætti þingfundi var honum frestað og litlar upplýsingar fengust um hvað stæði til. Ég skrapp glorhungruð niður í mötuneyti þar sem unnið var hörðum höndum að því að setja snarl á borð og súpu í pott. Starfskonurnar þar voru hins vegar í sömu sporum og ég og höfðu ekki haft hugmynd um að til stæði að funda fram á kvöld.

Í ljós kom að keyra átti frumvarp um áfengishækkun í gegn og í leiðinni hækka ýmiss konar gjöld sem snúa að bifreiðum. Mér skildist að tilgangurinn með leyndinni hefði verið að koma í veg fyrir örtröð í vínbúðum. Síðan kom í ljós að hækkanir taka ekki gildi fyrr en nýjar vörur koma í vínbúðirnar. Og þá má spyrja: Hvers vegna þetta óðagot?

Helstirnið varð dauðastirni

Sjaldan finnst mér eins gaman á Alþingi og þegar íslenskt mál er til umfjöllunar. Þá víkja stóryrði um efnhagsvandann fyrir umræðum um tilvísunarsetningar og góðar þýðingar. Þannig var það í vikunni þegar menntamálaráðherra mælti fyrir þingsályktunartillögu um íslenska málstefnu. Ragnheiður Ríkharðsdóttir viðraði áhyggjur sínar af erlendum áhrifum þegar kemur að ofnotkun nafnorða og rangri meðferð tilvísunarsetninga. Tók hún eftirfarandi dæmi úr fjölmiðlum: „Fundur var haldinn hjá óþekktum stjórnmálamanni, sem stóð í sex klukkustundir.“

Katrín Jakobsdóttir gerði þýðingar að umtalsefni og rifjaði upp sín fyrstu kynni af Stjörnustríðsmyndunum þar sem aðalpersónurnar voru Logi, Lilja og Hans Óli. Eftir að myndirnar voru endurhljóðblandaðar fór hins vegar metnaðurinn úr þýðingunni. Helstirnið varð Dauðastjarna, Væringjarnir urðu Jedi-riddarar og til sögunnar komu Luke, Han Solo og Leia. Ekki gaf Katrín mikið fyrir þessar nýju þýðingar, eða öllu heldur þýðingarleysi.

Þetta minnir á samtal sem ég varð vitni að þar sem 5 ára snáði var að skrifa bréf til jólasveinsins og kallaði á föður sinn og sagði: „En pabbi, það stendur starvars hérna en ekki starvors, mig langar í starvors-kall.“ Faðirinn útskýrði að Starwars væri enskt orð og þ.a.l. skrifað svona.

Auðvitað hefði ég átt að grípa inn í og útskýra fyrir feðgunum að íslensku jólasveinarnir tala íslensku og vita að líkindum ekkert hvað Starwars er.

 

Prev PostÞingbréf: Dramatísk þingvika
Next PostÞingbréf: Frábærar ræður og algert djók