Þingbréf

Birtist í Morgunblaðinu, 29. nóvember 2008

 

Dramtískri þingviku lauk með fundi fram á morgun

ÞAÐ má með sanni segja að dramatísk þingvika sé nú að baki. Hún hófst með umræðum um vantrauststillögu stjórnarandstöðunnar sem var felld af meirihlutanum auk eins þingmanns Frjálslynda flokksins, Kristins H. Gunnarssonar. Nú má að vísu velta því upp hversu mikið lengur Kristinn verður þingmaður þess flokks en þingflokksformaðurinn notar hvert tækifæri til að hnýta í hann opinberlega og Kristinn sjálfur virðist ekkert sérstaklega samvinnuþýður.

Krafan nær til allra

Stjórnarandstaðan renndi kannski óþarflega blint í sjóinn með sína tillögu sem gerði ráð fyrir kosningum strax upp úr áramótum. Eins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir benti á í umræðunum myndi lítið rúm skapast fyrir ný framboð færu kosningar fram með svo skömmum fyrirvara. Að sama skapi gæfist lítið ráðrúm til prófkjara eða lýðræðislegrar umræðu um uppstillingu á framboðslistum flokkanna. Líklega yrðu þá boðnir fram nánast sömu listarnir og í síðustu kosningum, sem kemur varla til móts við þær kröfur sem nú eru uppi í samfélaginu um endurnýjun. Sú krafa nær nefnilega bæði til meirihlutaflokkanna og til stjórnarandstöðunnar.

En rök ráðherranna í umræðunum voru líka misgóð. Þeir töluðu eins og allt færi á hliðina ef boðað yrði til kosninga og að samningar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn gætu verið í hættu. Ekkert myndi gerast enda væru allir á fullu í kosningabaráttu. Af þeim orðum má því skilja að ríkisstjórnin sé eiginlega óstarfhæf þegar kosningar eru á næsta leiti. En ráðherrar hafa nú sjaldnast setið aðgerðalausir í aðdraganda kosninga, og myndu varla gera það í þetta sinnið.

Beðið eftir næturfundi

Eftir vantraustsmánudaginn kom stuttur og viðburðalítill þriðjudagur en á miðvikudag fór aftur að draga til tíðinda. Að hefðbundnum fyrirspurnum loknum var fundi frestað meðan þingflokkar funduðu. Ekki voru fleiri mál á dagskrá og þess vegna mátti búast við einhverju stóru frumvarpi eða tillögu sem þyrfti að dreifa. Stjórnarandstaðan stóð í þeirri meiningu að funda ætti fram á kvöld, jafnvel nótt, til að afgreiða lög sem óljóst var um hvað fjölluðu. En málið stoppaði í þingflokki Samfylkingarinnar og þingmenn voru sendir heim með nýja hvítbókarnefndarfrumvarpið í höndunum.

Á fimmtudag var það frumvarp rætt í samstöðu allra flokka og svo tók við löng umræða um hvort ríkisstjórninni skyldi falið að leiða Icesave-deiluna til lykta. Stjórnarandstaðan og Pétur H. Blöndal höfðu sínar efasemdir um það og m.a. voru uppi áhyggjur af því að þetta væri opin heimild fyrir ríkisstjórnina. Í athugasemdum með tillögunni kemur þó skýrt fram að samningurinn verði lagður aftur fyrir Alþingi og þá aflað viðeigandi fjárheimilda. Annað væri enda óeðlilegt því að Alþingi fer jú með fjárveitingarvaldið.

Fimmtudeginum var ekki lokið. Klukkan 18 var boðað til þingflokksfunda og í framhaldinu lagt fram frumvarp um gjaldeyrishöft. Og þá var komið að næturfundinum. Frumvarpið skyldi verða að lögum áður en bankar og fjármálastofnanir yrðu opnaðar svo að markaðurinn myndi ekki bregðast við meðan málið væri í vinnslu. Vandinn er hins vegar auðvitað sá að þingmenn höfðu fyrir vikið lítinn tíma til að skoða málið almennilega og þá sérstaklega stjórnarandstöðuþingmenn.

Frumvarpið var samþykkt með 32 atkvæðum, sem hlýtur að teljast mjög tæpt. Þeir níu stjórnarandstöðuþingmenn sem voru viðstaddir sátu hjá. Annað sem vekur athygli er að um málið ræddu eingöngu karlar. Engin kona tók til máls í öllum umræðunum.

Hvað svo?

Ein vika liðin. Ríkisstjórninni er ekki vantreyst. Hún mun að líkindum fá umboð til að leiða Icesave-deiluna til lykta og nú hafa víðtæk gjaldeyrishöft verið innleidd. Sjáum hvað næsta vika ber í skauti sér.