Þingbréf

Birtist í Morgunblaðinu, 22. nóvember 2008

 

Stjórnmálin við eldhúsborðið

Þessa dagana er talað um stofnun nýrra stjórnmálaflokka í hverju horni. Vitanlega eru orðin oft stærri en gerðirnar en engu að síður virðist ákveðin lýðræðisvakning eiga sér stað í samfélaginu. Fólk sem áður lét sig engu skipta hverjir fóru með völd í landinu fylgist nú gaumgæfilega með stjórnmálum.

Eitt af framboðunum sem rætt er um er stofnun Kvennalista. Ætla má að orðrómurinn einn verði til þess að allir slái sig til jafnréttisriddara.

Það hlýtur því að vera óþægilegt fyrir femíníska flokkinn VG og jafnréttissinna Samfylkingarinnar að Framsóknarflokkurinn sé smám saman að breytast í kvennalista!

Karlar í efstu sætum fóru út af þingi og þá komu inn konurnar sem voru neðar á listum og nú er Framsókn eini flokkurinn með konur í meirihluta þingmanna.

Flokkar í endurmótun

Á meðan nýjar stjórnmálahreyfingar eru ræddar við hin ólíklegustu eldhúsborð eru uppi deilur innan allra þingflokka um menn og málefni.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur boðað landsfund í janúar og mögulega stefnubreytingu í Evrópumálum. Litlar líkur eru þó á því að þar verði breytingar á forystunni, enda fyrirvarinn lítill og slík átök væru flokknum of erfið.

Í Framsóknarflokknum hafa þegar orðið formannsskipti en ætla má að barist verði um formannssætið á landsfundi flokksins í janúar.

Frjálslyndi flokkurinn er ótrúlega klofinn miðað við stærð og það er nánast hægt að fullyrða að á honum verði breytingar áður en langt um líður. Innan Samfylkingarinnar er nokkur kergja og efasemdir um stjórnarsamstarfið.

Vinstri græn skoða afstöðu sína til Evrópusambandsins og því er jafnvel velt upp hvort ný forysta eigi að leiða flokkinn í næstu kosningum, hvenær sem þær nú verða.

Einhvern veginn virðast margir komnir í kosningagírinn þó að kosningar séu ekki á dagskrá fyrr en árið 2011. Harla ólíklegt er að vantrauststillaga stjórnarandstöðuflokkanna verði samþykkt. Til þess þyrfti of marga liðhlaupa. Forsætisráðherra getur rofið þing, þó að deilt hafi verið um þá heimild, en að öðru leyti kæmi ekki til þingrofs nema stjórnarsamstarfinu væri slitið, án þess að ný ríkisstjórn væri til taks.

Það hentar Sjálfstæðisflokknum illa að gengið verði fljótlega til kosninga en innan Samfylkingar eru raddir sem vilja kosningar. Verði niðurstaða Sjálfstæðisflokksins gagnvart Evrópusambandinu jákvæð má hins vegar ætla að Samfylkingin vilji halda í samstarfið þar til ákvörðun um aðildarumsókn hefur verið tekin.

Ekki benda á mig

Nú er annars hafinn skemmtilegur leikur í samfélaginu sem heitir „Ekki benda á mig“. Davíð Oddsson kennir Fjármálaeftirlitinu og ríkisstjórninni um bankahrunið, Geir H. Haarde bendir á bankana, gömlu bankastjórarnir benda á eftirlitsstofnanir og svo grunlausan almenning sem tók þátt í fjörinu og Björgvin G. Sigurðsson sagði á þingi í gær að ástæðurnar væru m.a. þær að Ísland hefði ekki tekið fullan þátt í Evrópusambandinu.

Samt á ekki að leita að sökudólgum. Með öðrum orðum: Ekki leita að sökudólgum, a.m.k ekki heima hjá mér!