Þingbréf

Birtist í Morgunblaðinu, 1. nóvember 2008

 

Vættir, guð og galdrar til hjálpar

Þegar þetta þingbréf er skrifað, eftir hádegi á föstudegi, er bjart yfir í Reykjavík. Tjörnin er spegilslétt og byrjuð að þiðna að nýju. Trén í Alþingisgarðinum hafa fellt lauf sitt og jólaseríur munu innan skamms leysa þau af hólmi. Í þingsal er verið að ræða þingsályktunartillögu um aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum og í smástund get ég leyft mér að halda að það sé bara venjulegur föstudagur. En meðan ég sit hérna í fjölmiðlabakherbergi þinghússins og horfi yfir Tjörnina eru hundruð Íslendinga að taka við uppsagnarbréfum.

Áætlun eða samningsgerð?

Efnahagsmál voru rædd á Alþingi á fimmtudag. Mikið var þrætt um hvernig ákvörðun um stýrivaxtahækkun var tekin en ráðamenn hafa gefið misvísandi yfirlýsingar. Seðlabankinn ákvað svo að taka af öll tvímæli og greina um leið frá 19. tölulið samningsgerðar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (IMF), sem er víst enn trúnaðarmál. Þar kemur fram að stýrivextir þurfi að hækka í 18%. Ráðherrar segja ríkisstjórnina hafa lagt þessa tillögu fram en ljóst þykir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi sett hækkunina sem skilyrði, enda í takt við kröfur sem hann hefur gert annars staðar í heiminum.

Ég er að hugsa um að gera það að minni tilgátu að ríkisstjórnin sé að segja satt. Hún hafi giskað á að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn vildi stýrivaxtahækkun og þess vegna sett hana inn, í von um að sjarmera stjórn sjóðsins!

Einnig er deilt um hvað eigi að kalla þetta umrædda plagg, sem er a.m.k. í nítján töluliðum. Seðlabankinn talar um samningsgerð en stjórnarliðar um efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar. Enn aðrir tala um samning en Lúðvík Bergvinsson þvertekur fyrir að áætlunin geti kallast samningur fyrr en stjórn IMF hefur samþykkt hana. Hvað sem plaggið kallast þá bíða stjórnarandstöðuþingmenn spenntir eftir því að berja það augum.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði í umræðunum á fimmtudag að annað tveggja markmiða efnahagsáætlunarinnar væri að „undirbúa markvissar aðgerðir til að styrkja stöðu ríkissjóðs“. Nú hefur orðið „undirbúa“ vonandi slæðst óvart með, enda hlýtur í áætluninni að vera kveðið á um aðgerðir, ekki bara lagt til að þær verði undirbúnar. Annað vakti athygli í ræðu Geirs og það var þegar hann sagði ríkið ekki ætla sér að eiga bankana til langframa. Hlutaféð væri vonandi hægt að selja síðar meir, jafnvel með ávinningi. „Þannig að hér er vonandi um að ræða fjárfestingu sem á eftir að skila sér þó að hún birtist með þessum hætti í skuldatölum ríkisins,“ sagði Geir.

Það hljómar ankannalega að tala um fjárfestingu í bönkum sem eru að hruni komnir þegar ríkið tekur þá yfir. En vonandi er Geir með jákvæðar upplýsingar um stöðu bankanna, sem hann byggir þessi orð á.

Á trúarlegum bláþræði

Íslendingar verða seint taldir meðal trúaðri þjóða þessa heims, að minnsta kosti ekki þegar vel gengur. En einhvern veginn leita svo margir í trú og trúarbrögð þegar erfiðleikar steðja að. Stjórnmálamenn eru þar engin undantekning og þannig rötuðu æðri máttarvöld inn í ræður allra stjórnmálaleiðtoga nema eins í síðasta mánuði.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, reið á vaðið í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra þegar hann í lok ræðu sinnar sagði: „Vaki nú allar góðar vættir yfir Íslandi.“ Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokks, hallaði sér hins vegar að öllu hefðbundnari trú þegar hann bað guð að blessa Ísland að loknu ávarpi sínu til þjóðarinnar á mánudeginum í byrjun svörtu vikunnar.

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknar, blandaði síðan trúnni inn í sjómannalíkingamálið, sem hann hefur verið ólatur við að nota, og sagði: „Ýtum úr vör í Drottins nafni.“ Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, leitaði ekki til guðs eða landvætta í sinni fyrstu þingræðu um efnahagsmálin í vikunni en sagði hins vegar að með „íslenskan galdur í farteskinu og í náinni samvinnu við alþjóðasamfélagið“ kæmist Ísland í gegnum kreppuna.

Nú er hægt að fara út í bollaleggingar um mögulega stjórnarmyndun á trúarlegum grunni. Þá er ljóst að Guðni og Geir ná ágætlega saman og líklega er ekki svo langt milli Steingríms og Ingibjargar. Þá má ætla að stjórnarsamstarfið hangi á trúarlegum bláþræði, a.m.k. hefur hinum guðhræddu almennt verið lítt um galdra gefið.

Skýin hafa fært sig

Þegar niðurlag þessa þingbréfs er ritað hefur veðrið breyst og staðsetning mín líka. Skýin hafa fært sig neðar og ég sit í Hádegismóum. Þar er tómlegt, enda hurfu á þriðja tug starfsmanna úr húsi í dag, með uppsagnarbréf í höndunum. Nú þurfum við guð og vættir og galdra. Eða hvað annað sem getur hjálpað til.