Þingbréf

Birtist í Morgunblaðinu, 11. október 2008

 

Framfarir sem breyttust í hamfarir

 

Ég var í fríi sl. mánudag og satt að segja á leið í sund þegar mér barst til eyrna að mögulega yrði boðað til þingfundar seinni partinn. Erfitt reyndist að fá það staðfest en eftir að tilkynnt var um ávarp frá forsætisráðherra í beinni útsendingu dreif ég mig til vinnu. Þar hef ég verið meira eða minna síðan. Og þetta var löng vika.

Stemningin á Alþingi hefur verið mjög furðuleg. Á mánudag mættu 62 af 63 þingmönnum til að greiða atkvæði um neyðarlögin en sjaldan eru svo margir viðstaddir atkvæðagreiðslu. Engum var hlátur í hug en niðurdregnastir voru sjálfstæðismenn sem hefðu líklega aldrei trúað að þeir ættu eftir að hafa forgöngu um svo mikil ríkisinngrip.

Það sem eftir leið viku var Alþingi hálflamað. Engar almennar stjórnmálaumræður áttu sér stað en rætt var um þingmannamál, sem virkaði hálfundarlegt í öllum ólgusjónum. En auðvitað hefði líka verið skrítið að aflýsa fundum og þingmenn reyndu að halda sínu striki.

Glittir í gálgahúmor

Þinghúsið hefur verið nokkurs konar miðstöð. Þar koma þingflokkarnir saman og þingmenn hittast á óformlegum fundum til að ræða stöðu mála. Stemningin hefur vægast sagt verið þunglamaleg því allir taka þetta ástand nærri sér. Margir þingmenn, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu, upplifa sig áhrifalitla enda takmarkaðir þátttakendur í öllum ósköpunum sem nú ganga yfir. Þeir geta fátt gert nema tala við fólk og fjölmiðla. Og þeir eru alltaf í símanum.

En stundum tekur gálgahúmorinn yfir. Ég hitti einn stjórnarþingmann um daginn og spurði: „Jæja, hvað segirðu?“ Hann brosti út að eyrum og svaraði: „Bara alveg svakalega gott.“ Svo hló hann dátt. Einn ráðherra heilsaði mér brosandi og sagði þetta vera fyrsta bros vikunnar. Svo reytti hann af sér brandara og reyndi að koma því inn hjá mér að stjórnarslit væru yfirvofandi. Bara grín.

Víkjandi víkingar

Fyrir hinn venjulega Íslending hefði fyrir aðeins nokkrum vikum verið óhugsandi að halda því fram að bankarnir myndu allir fara á hausinn. Útrásarvíkingunum var hampað. „Efnahagslegar framfarir“ voru orð sem ráðamenn tóku sér sem oftast í munn. En framfarir breyttust í hamfarir. Og allt í einu rifjast upp að víkingar voru jú þeir sem fóru fram með offorsi og skeyttu engu um aðra í kringum sig. Af þeim erum við komin, að þeim verðum við vonandi ekki aftur.

Nú endurtaka ráðamenn í sífellu að þjóðin verði að standa saman. Auðvitað þarf þjóðin að gera það. Fjölskyldur eiga líka að standa saman og við eigum að brosa til allra sem við hittum.

En þjóðin ber ekki öll ábyrgð á ástandinu eins og það er núna. Þó að við eigum að horfa fram á við er líka nauðsynlegt að líta til baka. Einhvers staðar fóru menn nefnilega að trúa því að önnur lögmál ættu við núna en nokkru sinni áður. Að aldrei aftur myndi þrengja að í heiminum.

Stærsta verkefni næstu ára er að taka ákvarðanir um hvernig eigi að byggja þjóðfélagið upp að nýju og það verður ekki sama Ísland og áður. Nú er tími á nýja hugsun. Að þessari uppbyggingu þurfa konur og karlar að koma jafnt.

Þrátt fyrir allt hef ég sjaldan upplifað eins mikið æðruleysi, jafnt inni á Alþingi sem úti í samfélaginu. Nú lifir öll þjóðin einn dag í einu. Það er ekkert annað að gera en brosa, standa upp og halda áfram.