Þingbréf

Birtist í Morgunblaðinu, 4. október 2008

 

Hvernig verður Áramótaskaupið?

Alþingi var sett að nýju í vikunni í skugga dramatískra efnahagsmála. Stemmningin hefur verið eftir því og mikill órói í loftinu. Eins og öllum fyndist þeir vera að missa af einhverju. Margvíslegar sögur fóru eins og eldur í sinu um fjölmiðlaheiminn á fimmtudag og föstudag. Sumar verða til eins og hverjar aðrar kjaftasögur en öðrum er hreinlega komið af stað af þeim sem hagsmuna eiga að gæta. Aldrei er mikilvægara fyrir fjölmiðla að hlaupa ekki á eftir sögum sem kannski enginn fótur er fyrir.

En það eru ekki eingöngu íslenskir fjölmiðlar sem fylgjast með því sem fram fer á Alþingi. Erlendir fjölmiðlamenn hafa verið á vappi um húsið og bæði Norska ríkisútvarpið og BBC fylgdust með umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á fimmtudag. Ísland er í heimspressunni.

Stefnuleysi og sökudólgsleit

Ræðunnar var beðið með mikilli eftirvæntingu. Smáskilaboðasendingar gengu milli fólks þar sem hvatt var til þess að fjölmenni yrði á þingpöllum og ráðaleysi forsætisráðherra mótmælt. Fáir mættu en sennilega hafa fleiri fylgst með heima í stofu en oft áður.

Venjan er að talsmenn þingflokka fái ræðu forsætisráðherra til yfirlestrar með ákveðnum fyrirvara þannig að þeir geti í sínum ræðum brugðist við því sem þar kemur fram. Stuttu áður en fundur var settur á fimmtudag spurðist út að ræðan yrði endurrituð og vakti það enn meiri væntingar um innihaldið. En lítið var um yfirlýsingar og stjórnarandstæðingar átöldu ráðamenn fyrir stefnuleysi.

Staða ríkisstjórnarinnar er ekki öfundsverð. Hvað er hægt að gera? Í það minnsta væri varla ráðlagt að gefa út innantómar yfirlýsingar um að allt verði í góðu lagi á morgun. Af því hafa ráðherrar ekki góða reynslu.

Stjórnarliðar skamma stjórnarandstöðuna fyrir að leita bara að sökudólginum en leggja ekki til neinar lausnir. Við þessar aðstæður væri mjög undarlegt að líta ekki til baka og reyna að skilja hvað fór úrskeiðis. Alþjóðleg fjármálakreppa hefur mikil áhrif en hún segir aðeins hálfa söguna og eins og stjórnarandstæðingar benda á þá verða ráðherrar að horfast í augu við það.

Ekki margir „Mozartar“

Stjórnarandstaðan kallar eftir samráði og Steingrímur J. Sigfússon stakk upp á því í umræðunum að verkalýðshreyfingin, stjórnmálaleiðtogar, forystumenn í fjármálalífi og atvinnurekendur yrðu lokuð inni þar til samkomulagi verður náð um hvernig vinna skuli út úr þessum vanda. Líklega væri það skynsamleg leið. Fjölmiðlar eru ekki góður vettvangur til að ræða mögulegar lausnir og það er erfitt fyrir landsmenn að hlýða á mishræðilegar lýsingar á því sem framundan er. Í litlu samfélagi eins og á Íslandi eru heldur ekki margir „Mozartar“. Nýta þarf alla fagþekkingu sem til er í leit að lausn á vandanum. Það er komið nóg af leynifundum.

Sögufölsunin um litlu þjóðina sem braust upp á sitt einsdæmi úr fátækt til bjargálna dugar skammt í að vinna á þessum erfiðleikum. Og er satt að segja vandræðaleg; hvort sem hún er sett fram af forseta eða forsætisráðherra.

Davíð aftur í kastljósið

Og nú er gamli landsfaðirinn kominn fram á sjónarsviðið. Davíð Oddsson sat við stýrið eftir kaupin á Glitni. Líklega kemur það fæstum af minni kynslóð á óvart – kynslóðinni sem las um óðaverðbólgu í kennslubókum og hélt kannski í barnslegri einfeldni sinni að svona yrði þetta aldrei aftur. Það reyndist ekki satt.

Þetta er kynslóðin sem ólst upp við nærveru Davíðs Oddssonar; sumum til gleði, öðrum til ama. Ég var eins árs gömul þegar hann varð borgarstjóri Reykjavíkur. Hann var alltaf í Áramótaskaupinu. Ætli hann verði ekki í Skaupinu í ár?