Þingbréf

Birtist í Morgunblaðinu, 31. maí 2008

 

Klikkandi þingmenn, skjálfti og nóttin sem var í gær

 

Halla Gunnarsdóttir

Samkomulag um þingfrestun náðist í gær, sagði Ögmundur Jónasson á morgunvakt RÚV á fimmtudagsmorgun. Ég var varla komin á fætur og missti hafragrautinn næstum í gólfið. „Í gær!“ hrópaði ég og þusaði svo með látum um að ég hefði jú hangið á Alþingi fram til miðnættis, einmitt í von um að samkomulag næðist og ég gæti komið því í Morgunblaðið áður en það fór í prentun.

Ögmundur átti sín einskis ills von þegar ég stökk á hann í þinginu og og vildi útskýringar á þessu. Jú, samkomulag hafði náðst milli kl. 1 og 2 um nóttina. „Það heitir ekki gær, það heitir nótt, útlendingar myndu meira að segja tala morgun,“ tuðaði ég við örþreyttan þingflokksformanninn. En samkomulag hafði náðst og dagskráin gekk því hraðar en annars hefði mátt búast við.

Síðustu dagar Alþingis fyrir þingfrestun eru alltaf dálítið kaótískir. Á göngunum er aðallega rætt um eitt: Hvaða mál fara í gegn og hvenær kemst þingið heim? Enginn veit neitt en einhvern veginn verður stemmningin eins og allir séu saman í þessu, saman í óvissunni.

Í heilan vetur er búið að leggja fram hundruð mála og þræta um þau fram og aftur. Deila um þingsköp og deila um dagskrá. Svo allt í einu á síðustu dögunum gerist allt. Aldrei er meira líf á Alþingi. Ráðherrar og þingmenn á vappi, starfsfólk á þönum og fjölmiðlafólk að reyna að átta sig á hvað er eiginilega um að vera.

Æst kona og æstur stigi

Hringt er inn til atkvæðagreiðslu og þingsalurinn fyllist af lífi. Forseti tilkynnir hvað er verið að greiða atkvæði um og svo heyrast mörg „klikk“ þegar þingmenn ýta á hnappana. Já eða nei, eða sitja hjá.

Klikk, og orkufrumvarpið, sem tók um 12 klukkustundir að ræða, er orðið að lögum. Klikk, og nú geta trassar fengið háa sekt fyrir að láta ekki skoða bílinn sinn.

Atkvæðagreiðslum lýkur og ræðuhöldin taka við að nýju. Ég skrepp út í háskóla og gleymi mér í spjalli í Nýja garði. Allt í einu kippist ég við og man að sjávarútvegsráðherra ætlaði að koma með einhverja yfirlýsingu varðandi kvótakerfið og álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Ég kveð í flýti (eða kvaddi ég kannski ekki?), hálfdett út um dyrnar og hjóla í spani niður á þing. Við dyrnar út í Alþingisgarð gæða nokkrir þingmenn sér á konfekti (konfekt í Alþingishúsinu þýðir langir fundir, þá fáum við súkkulaði). Þó að ég sjái fjölda þingmanna, sem þýðir að sjávarútvegsráðherra er varla í ræðustóli með tímamótayfirlýsingar, er ég enn stressuð og hleyp af stað upp stigann. En stiginn er jafnæstur og ég. Ég stoppa.

Í þingsal stendur Guðbjartur Hannesson og talar um samninga milli þeirra sem eiga sumarbústaði og þeirra sem eiga landið sem bústaðirnir eru í. Hann er hinn rólegasti meðan jarðskjálftinn ríður yfir og heldur svo ræðu sinni áfram. Kjartan Ólafsson situr í forsetastóli. Á sama tíma hrynja myndir af veggjum á heimili hans á Suðurlandi. Heilu bókaskáparnir detta um koll og eldhúsið fyllist af glerbrotum.

Sumir hlupu út úr þinghúsinu, sem er auðvitað hið eina rétta í stöðunni, aðrir hlupu bara eitthvert og enn aðrir stóðu kyrrir, eins og ég.

Þeir þingmenn sem eiga heimili á Suðurlandi drifu sig heim strax eftir jarðskjálftann. Þingfundur hélt áfram og tímamótayfirlýsingar sjávarútvegsráðherra voru víst á dagskrá kl. 4, en ekki hálffjögur eins og ég hafði óttast. Kvótakerfið verður endurskoðað, sagði ráðherrann, en Grétar Mar Jónsson var hinn ósáttasti og blandaði samana tveimur þekktustu ummælum seinni tíma stjórnmálasögunnar, þegar hann sakaði menn um skítlegt eðli og kallaði þá druslur í leiðinni.

Allir í beinni

Líklega voru það frekar lætin í jörðinni en lætin í Grétari sem ollu því að stemmningin í Alþingishúsinu var breytt. Í mötuneytinu vék Alþingisrásin fyrir beinni útsendingu Ríkissjónvarpsins og allir töluðu um hvar þeir voru þegar skjálftinn reið yfir og í leiðinni hvar þeir voru þegar jörðin skalf síðast svona mikið.

Dómsmálaráðherra, sem annars svarar helst ekki spurningum fjölmiðla öðruvísi en í tölvupósti, var ítrekað í beinni útsendingu, eins og reyndar fjöldi fólks, enda komst ekkert annað að en jarðskjálftinn. Líklega gerðist fátt í heiminum í gær.

Merk yfirlýsing sjávarútvegsráðherrans komst ekki að í fréttum sjónvarps og atvinnubílstjórarnir sem komu með líkkistur á Austurvöll fengu enga athygli.

Eftir kvöldverðarhlé voru aftur atkvæðagreiðslur. Klikk, klikk, klikk, hljómaði um salinn og Ísland á nú ný lög um öll skólastigin. Þingmenn voru sumir orðnir þreyttir en sáu fram á að greiða atkvæði inn í nóttina.

Í mötuneytinu sátu ráðherrabílstjórarnir, ekki með neinar líkkistur, þó þeir séu atvinnubílstjórar. Nóg af konfekti á borðum og hvort sem það var vegna sykursins, þreytunnar eða léttisins yfir að náttúran hafði ekki leikið okkur verr, þá var aðeins meiri gálgahúmor í fólki en venjulega.

Ljósmyndari Morgunblaðsins mætti á staðinn á ellefta tímanum. Við höfðum vonast til að ná klassískri mynd af því þegar svarnir andstæðingar fallast í faðma og kyssast í bak og fyrir eftir þingfrestun. En í staðinn fékkst bara mynd af þreyttum þingmönnum, enn að tala.

Mogginn fór í prentun. Ég fór heim að sofa. Ráðherrabílstjórarnir biðu enn. Í þingsal heyrðist aftur „klikk klikk“ og nú mega einhleypar konur fara í tæknifrjógvun.