Þingbréf

Birtist í Morgunblaðinu, 24. maí 2008

 

Breytt vor, Jesús og horfnir eldveggir

 

Beljurnar eru víst ekki lengur eins æstar á vorin og áður, að því er fram kom í Morgunblaðinu í gær. Ástæðuna má rekja til þess að þær eru ekki bundnar á bás allan veturinn heldur geta spókað sig aðeins um í fjósinu.

Vorin á Alþingi eru líka breytt enda nú í fyrsta sinn starfað eftir nýjum þingskapalögum. Þess vegna er Alþingi t.a.m. enn að störfum en ekki farið í sumarleyfi. Pressan ætti að vera minni en undanfarin ár enda gert ráð fyrir nokkrum þingfundadögum í september, áður en þingi er slitið, og þá verður hægt að klára þingmál sem liggja fyrir þessu þingi. Nýtt þing tekur svo til starfa 1. október.

Þrátt fyrir þetta svigrúm var fundað fram á nótt í vikunni við mikil mótmæli stjórnarandstæðinga. Þeir eru komnir í vorskap og Bjarni Harðarson lýsti því svo á bloggi sínu að nú væri hafin vertíð nöldurs og málþófs. En hver er tilgangurinn með málalengingunum? Jú, stjórnarmeirihlutinn vill koma fjölda mála í gegn og með því að taka langan tíma í að ræða þau getur stjórnarandstaðan komið í veg fyrir að sum mál nái fram að ganga og um leið komið einhverjum sinna mála á dagskrá.

Enn um kristilegt siðgæði

Það vakti talsverðar umræður í vetur þegar menntamálaráðherra lagði fram frumvarp til grunnskólalaga en í því er m.a. gert ráð fyrir að „kristilegt siðgæði“ fari út úr upptalningu yfir þá þætti sem eiga að móta skólastarf. Framsóknarmenn lögðu þunga áherslu á að kristnin væri áfram í grunnskólunum. Í öðrum flokkum voru skiptari skoðanir en kristnu sjónarmiðin urðu greinilega ofan á því menntamálanefnd Alþingis hefur lagt til að starfshættir grunnskóla eigi auk annars að mótast af „kristinni arfleifð íslenskrar menningar“. Einhvern veginn stórefast ég um að það skipti höfuðmáli í starfsháttum grunnskóla hvort kveðið er á um kristni í lögunum eða ekki. En það eru engin sannfærandi rök fyrir því að nefna þurfi sérstaklega ein trúarbrögð umfram önnur trúarbrögð eða trúleysi, enda varasamt bæði í sögulegu og alþjóðlegu ljósi.

Guðni Ágústsson hefur hins vegar þungar áhyggjur af kristni og grunnskólalögum og lýsingar hans hafa verið dramatískar eftir því. Í umræðum í vikunni sagði hann: „Það er ekkert til neitt siðgæði í rauninni nema kristið siðgæði.“

Hvað á Guðni við? Varla eru samfélög búddista, múslima eða trúleysingja siðlaus með öllu og Guðni hlýtur þar að auki að vita að siðgæði mótast af fleiri þáttum en trúarbrögðum.

Hruninn eldveggur

Það er víst að nálgast að verða hefð að ég fjalli um varnarmál í þessum pistli, enda eitt stærsta pólitíska málið þessa dagana. Á fundi Varðbergs og Samtaka um vestræna samvinnu í vikunni kom skýrt fram í máli Bjarna Benediktssonar, formanns utanríkismálanefndar Alþingis, að sú hugmynd að halda hér áfram með „loftrýmiseftirlit“, eftir að bandaríski herinn yfirgaf landið, hafi komið frá íslenskum stjórnvöldum. Sama sagði Ellisif Tinna Víðisdóttir, nýráðinn forstjóri Varnarmálastofnunar, í viðtali við morgunútvarp Rásar 1 sl. miðvikudag. Greinilega hefur verið breytt um kúrs í hinni opinberu orðræðu enda hefur hingað til verið talað eins og fullmótaðar tillögur um tilhögun mála hafi komið frá hermálanefnd NATO.

Annað sem vekur eftirtekt er að nú er umræðan um „eldvegginn“ á undanhaldi en hann átti að vera milli borgaralegra verkefna og „varnartengdra“ og mikil áhersla var lögð á aðgreininguna í greinargerð með varnarmálafrumvarpinu. Í áðurnefndu viðtali gerði Ellisif hins vegar mikið úr borgaralegri starfsemi og svaraði játandi spurningu fréttamannsins um hvort stofnunin ætti að sinna „borgaralegri hlið varnarmálanna“.

Umfjöllun Fréttablaðsins í gær um frönsku liðsveitirnar, sem nú eru hér á landi, vekur einnig upp ýmsar spurningar. Þar segir Stéphane Azou liðsforingi að auk þess að geta flogið til móts við óþekktar flugvélar geti frönsku orrustuþoturnar beðið vélarnar að fylgja sér eftir eða neytt þær til að lenda. Í versta falli „… öfum við getu til þess að tortíma vélinni með flugskeytum. En þetta „versta fall“ mun ekki gerast. Það er enginn óvinur í sjónmáli,“ segir Azou. Þetta eru hálfundarlegar yfirlýsingar. Ég geri ekki ráð fyrir því að hann sé að ræða um títtnefndar rússneskar spengjuflugvélar því það gæti leitt til stríðsástands. En ef um annars konar flugvélar er að ræða, hver tæki ákvörðun um að beita hervaldi eða „tortíma“ flugvél? Er það franskur yfirmaður orrustusveitarinnar eða NATO? Og hvaða aðkomu hafa íslensk stjórnvöld?

Ef halda á úti starfsemi hér á landi sem byggir á aðstæðum sem „mögulega geta komið upp“ þarf líka að svara brýnum spurningum sem vakna við þessar „mögulegu aðstæður“.