Þingbréf

Birtist í Morgunblaðinu, 10. maí 2008

 

Kaldastríðstal og þingmenn í 1. persónu

 

Nú eru aðeins örfáir starfsdagar eftir á Alþingi fyrir sumarleyfi og dagskráin þéttist eftir því. Ljóst er að þingmenn þurfa að sætta sig við kvöldfundi þessa síðustu daga eigi að takast að ljúka við öll þau þingmál sem liggja fyrir. Eldhúsdegi hefur verið flýtt um einn dag að ósk Ríkissjónvarpsins en ástæðan er vináttulandsleikur í karlafótbolta sem sýna á beint frá einmitt sama kvöld. Þetta er skondin ástæða en ætli áhugafólk um fótbolta og pólitík, eins og ég, fagni því ekki að þurfa af hvorugu að missa.

Alþingi hefur upp á nokkra daga að hlaupa í haust til að klára mikilvæg mál en samkvæmt nýju þingskaparlögunum eru þingfundir í byrjun september. Þingmál sem ekki tekst að ljúka fyrir þann tíma þarf að leggja aftur fram á nýju þingi sem er sett 1. október.

Í síðasta þingbréfi gerði ég svokallaða „loftrýmisgæslu“ NATO-ríkjanna að umtalsefni og þá miklu fjármuni sem ráðgert er að verja til reksturs Varnarmálastofnunar. Ritstjóri 24 stunda, Ólafur Þ. Stephensen, tók þetta upp í leiðara 14. maí sl. og vitnaði til orða minna. Ólafur segir vel sloppið að verja aðeins 200 milljónum króna í varnir landsins en það er áætlaður árlegur kostnaður við veru erlendra herja hér á landi. Það má vel vera, en er vel sloppið að verja 1.350 milljónum króna til reksturs Varnarmálastofnunar?

Fylgst með Rússum

Engin haldbær rök hafa komið fram fyrir því að ratsjáreftirlitið, sem er dýrasti þátturinn, hefði ekki mátt vera í höndum borgaralegra stofnana, á borð við Flugstoðir sem fylgjast með öllu borgaralegu flugi. Og það hljómar hálfankannalega fyrir 300 þúsund manna þjóð að halda úti dýru ratsjáreftirliti á tveimur stöðum.

Eitt helsta verkefni Varnarmálastofnunar verður að fylgjast með flugi Rússa í grennd við landið og að sama skapi verður helsta hlutverk erlendu herjanna, þegar þeir eru hér á landi, að fljúga til móts við Rússa og fylgja þeim út fyrir það svæði sem Ísland hefur eftirlit með. Til að taka af allan vafa þá er flug Rússanna ekki ólöglegt enda eru þeir inni á alþjóðlegu flugsvæði en ekki í íslenskri lofthelgi. Engin hernaðarógn er talin stafa af Rússafluginu þó að það geti vitaskuld verið truflandi, ekki síst fyrir borgaralegt flug.

Er kalda stríðinu lokið?

Staðreyndin er sú að tilgangurinn með „loftrýmisgæslunni“ er aðeins táknrænn og pólitískur enda vita Rússar vel að Ísland er í NATO. Ekki þarf franskar orrustuþotur til að sýna fram á það. Auk þess eru NATO-ríkin ekki á einu máli um nauðsyn þessarar loftrýmisgæslu. Hún er t.d. aðeins að nafninu til í Slóveníu.

Stjórnvöld, og aðrir sem hafa borið í bætifláka fyrir þessa íslensku sérútfærslu á „loftrýmisgæslu“ (þrisvar til fjórum sinnum á ári, tvær til þrjár vikur í senn), hafa ekki svarað því hvernig varnir landsins eru tryggðar á þeim tímum ársins þegar enginn erlendur her er hér á landi. Verður ekki hálfvandræðalegt ef Rússar taka rúntinn um landið daginn eftir að Frakkar fara?

Talsmenn „loftrýmisgæslunnar“ reyna að sýna fram á að þess háttar öryggis- og varnarmál séu ríkjum allt að því eðlislæg, en ekki háð gildismati. Með því eru þeir í raun að leitast við að styrkja samstöðuna gegn „sameiginlegum óvini“. Þessi kaldastríðsorðræða er barn síns tíma, eins og Christopher Coker, prófessor í stjórnmálafræði við London School of Economics, lagði áherslu á í frábærum fyrirlestri við Háskóla Íslands fyrir skömmu.

Að halda því fram að þeir hermenn sem koma hingað í örfáar vikur fái mikilvæga þjálfun sem gæti komið sér vel ef ógn steðjaði að landinu er líka nokkuð langsótt eftiráskýring. Það eru litlar líkur á því að umræddar flugsveitir yrðu sendar hingað vegna reynslu sinnar hér, ekki síst ef þær væru við störf annars staðar í heiminum. Þar að auki gildir varnarsamningurinn við Bandaríkin enn á ófriðartímum.

Vissulega getur fólk greint á um hvernig eigi að verja fjármunum til öryggis- og varnarmála en afskaplega lítil umræða hefur farið fram um forgangsröðun í þeim efnum hér á landi. Danir líta t.d. svo á að Danmörku stafi engin hernaðarógn af öðru ríki og því leggja þeir ekki áherslu á landvarnir í hefðbundnum skilningi. Framlag þeirra felst í þátttöku í alþjóðlegum aðgerðum eins og friðargæslu.

Því á sú spurning fyllilega rétt á sér hvort farið sé skynsamlega með fjármuni. Þau rök sem stjórnvöld og Ólafur Stephensen hafa lagt fram til réttlætingar því mikla fé sem ráðgert er að verja til Varnarmálastofnunar og heræfinga hér á landi, eru ekki nógu sannfærandi. Markmiðin eru enn óskýr og það sama má segja um þær hættur sem bregðast á við.

Hamast við að halda ró sinni

En á aðeins léttari nótum. Það má eflaust saka mig um meinfýsni en ég safna stundum saman spaugilegum ummælum sem falla á Alþingi. Þingmenn eru ekki öfundsverðir af því að þurfa oft að koma óundirbúnir upp í ræðustól og auðvitað eiga þeir það til að mismæla sig. Enskuslettur eiga það líka til að heyrast í hita augnabliksins, við litla hrifningu unnenda íslenskunnar. Þannig sagði einn ráðherra þetta væri „ekki pointið“ og annar talaði um „kombakk“. Einn forseta Alþingis kallaði líka fram smábros hjá undirritaðri þegar hann bað þingmenn um að ávarpa hver annan í 1. persónu. Þingmaður VG sagði forsætisráðherra „hamast við að halda ró sinni“ sem er óneitanlega fyndin orðasamsetning og framsóknarmaður sagði forsendur fjárlaga „mölbrostnar“.

Þá var dálítið spaugilegt þegar fyrrverandi borgarfulltrúi rifjaði upp í ræðustóli Alþingis störf sín „handan tjarnarinnar“. En ætli ég verði ekki bara að fara að ráðum eins þingmanna Frjálslynda flokksins og „brjóta odd af stífni“ minni og hætta að hafa áhyggjur af málfari!