Þingbréf

Birtist í Morgunblaðinu, 10. maí 2008

 

Óljós rök fyrir miklum fjárútlátum

 

Koma franskrar hersveitar til Íslands markar sannarlega söguleg tímamót eins og margir hafa haldið fram þessa vikuna. Annars vegar er þetta í fyrsta sinn sem aðrir en Bandaríkjamenn eru hér á landi við „loftrýmisgæslu“ og hins vegar er ljóst að Frakkar hyggjast gera breytingar á stefnu sinni gagnvart Atlantshafsbandalaginu (NATO) og munu sennilega verða aftur fullgildir aðilar að herstjórn þess á næsta ári, rúmlega fjörutíu árum eftir að þeir sögðu sig úr henni.

Breytingarnar sem þurfti nauðsynlega að gera hvað íslensk varnarmál varðar eftir að bandaríski herinn ákvað að yfirgefa Ísland hafa reglulega komið upp á Alþingi í vetur, ekki síst þar sem talsverð fjárútlát fylgja aukinni ábyrgð Íslendinga á eigin vörnum.

Við brotthvarf hersins komst starfsemi Ratsjárstofnunar í uppnám enda var hún starfrækt af hernum og hafði það verkefni með höndum að fylgjast með allri flugumferð á svokölluðu loftvarnarsvæði Íslands, sem nær yfir u.þ.b. 150 sjómílna radíus um landið. Þetta kallast „loftrýmiseftirlit“ en Frakkar eru hins vegar hér við „loftrýmisgæslu“, sem felur m.a. í sér að fljúga til móts við herþotur komi þær inn á svæðið. Rétt er að taka fram að lofthelgin er aðeins 12 sjómílur og þess vegna er fylgst með margfalt stærra svæði en Ísland hefur yfirráðarétt yfir.

Hvaðan komu tillögurnar?

Þegar bandaríski herinn fór var ákveðið að leita á náðir NATO en því hefur ítrekað verið haldið fram, bæði af ráðamönnum og embættismönnum, að tillögur um að loftvarnarkerfið yfir Íslandi yrði áfram starfrækt hafi komið frá hermálanefnd bandalagsins. Af þessu mætti ætla að nefndin hafi sjálf lagt fram tillögur um hvernig vörnum og herviðbúnaði skyldi háttað hér. Samkvæmt mínum heimildum var í meginatriðum um tillögur frá íslenskum stjórnvöldum að ræða, sem hermálanefndin féllst svo á, en Ísland á auðvitað sæti í nefndinni eins og öll hin 25 aðildarríki NATO. Svona orðræða er hálfvandræðaleg, vonandi búa nægilega góð rök að baki þessum ákvörðunum.

Samkvæmt upplýsingum á kynningarfundi fyrir blaðamenn í utanríkisráðuneytinu sl. mánudag segir í loftvarnarstefnu NATO að loftrýmiseftirlit og -gæsla séu lykilatriði í að tryggja öryggi þjóða. Reyndar er engin samræmd stefna um slíkt eftirlit og gæslu hjá NATO þjóðum, sem ekki ráða yfir eigin flugher. Íslendingar eru nú komnir með sérlausn sem felst í því að NATO-þjóðir koma hingað að jafnaði fjórum sinnum á ári í tvær eða þrjár vikur í senn og Frakkar eru þar fyrstir í röðinni en dvelja í sex vikur. Ef loftrýmisgæsla er lykilatriði í að tryggja öryggi þjóða hvers vegna á hún aðeins að vera hér á landi hluta úr árinu? Er Ísland þá óvarið í millitíðinni?

Dýrt spaug

Þessi viðbúnaður erlendra herja hér á landi á aðeins við um varnir á friðartímum. Ef til ófriðar kemur gildir varnarsamningurinn við Bandaríkjamenn. Einhvern veginn læðist að manni sá grunur að verið sé að nota gömul meðul við nýjum sjúkdómum. Sífellt er rætt um að kalda stríðinu sé lokið og að nú séu nýir tímar en samt er verið að beita nákvæmlega sömu aðferðum og var beitt í kalda stríðinu. Rússar fljúga inn á „loftvarnarsvæðið“, sem er á alþjóðlegu flugsvæði, og ef herþotur eru til staðar eru þær sendar á móti þeim. Þetta er nákvæmlega sami leikurinn. Og einmitt þess vegna hljómar varnarviðbúnaðurinn ekki sannfærandi í eyrum fólks. Hinn vandinn er sá að erfitt er að átta sig á hvaða ógnir steðja að Íslandi. Þess vegna hefði verið mun eðlilegra að niðurstaða hættumatsnefndar, sem á að skila af sér í haust, hefði legið fyrir áður en ákvarðanir um varnarviðbúnað voru teknar.

Þetta væri kannski ekki stórmál ef leikurinn væri ókeypis. Því fer víðsfjarri. Hin nýja Varnarmálastofnun kostar skattgreiðendur hátt í hálfan annan milljarð í ár. Það er álíka há fjárhæð og varið er í að reka Háskólann á Akureyri. Þar að auki kostar 200 milljónir á ári að hafa hér erlenda heri.

Ratsjáreftirlitið er kostnaðarfrekasti þátturinn en á sama tíma hafa Flugstoðir eftirlit með öllu borgaralegu flugi. Hefði það fyrirtæki ekki getað tekið verkefni Ratsjárstofnunar yfir með minni tilkostnaði? Leyndarhyggjurökin duga skammt í þessum efnum enda er verið að minnka feluleiki í flestum öðrum vestrænum ríkjum. Var látið á það reyna hjá NATO að semja um að Ísland fengi að reka ratsjáreftirlitið samhliða eftirliti með borgaralegu flugi?

Þessi málaflokkur er mikilvægur og mjög kostnaðarsamur og þess vegna þarf tilgangurinn með verkefnunum að vera alveg skýr og allar upplýsingar uppi á yfirborðinu.